West Seafood greiðir ekki orlof starfsmanna

Frá Flateyri. Mynd: RUV.

Fyrirtækið West Seafood ehf á Flateyri hefur ekki staðið skil á orlofi starfsfólks þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Finnboegi Sveinbjörnsson, formaður felagsins sagði í samtali við Bæjarins besta að þrátt fyrir loforð á loforð ofan frá forráðamönnum fyrirtækisins síðustu 4 – 5 vikur hefðu engar greiðslur borist. Greiða átti út orlofið 11. maí síðastliðinn.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hefur ákveðið að grípa inn í ferlið með aðstoð Ábyrgðarsjóðs launa. Sjóðurinn ábyrgist orlofsgreiðslur starfsfólks hjá fyrirtækjum sem eiga í greiðsluerfiðleikum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að brúa bilið þangað til greiðslur frá Ábyrgðasjóði launa berast hefur stjórn Verk Vest ákveðið að veita félagsmönnum sínum sem eiga inni orlof hjá West Seafood lán. Finnbogi taldi það tímabil geta orðið um þrjár vikur.

Samkvæmt heimildum blaðsins er lítil sem engin  starfsemi hjá West Seafood um þessar mundir og boðuð er lokun næstu 6 – 8 vikur.

DEILA