Tálknafjörður: þarf 200 milljónir króna endurnýjun á fráveitukerfi

Aðalsteinn Magnússon og Bryndís Sigurðardóttir við undirritun samnings um endurnýjun fráveitukerfis. Mynd af síðu Tálknafjarðarhrepps.

Fráveitukerfi Tálknafjarðarhrepps þarfnast viðamikilla endurnýjunar. Bryndís Sigurðsdóttir, sveitarstjóri segir að heildarkostnaðurinn slagi upp í 200 milljónir króna. Eðlilega er það stór biti fyrir fámennt sveitarfélag.

Á þessu ári verður unnin fyrsti áfangi framkvæmdanna, sem er að leggja nýja útrás frá fráveitunni, frá lóðarmörkum Strandgötu 25 og út í sjó. Lögð verður 1200 mm lögn við fráveitulögnina sem liggur undir Strandgötu og gegnum sundið milli Strandgötu 25 og 27. Jafnframt verður lögð fráveitulögn frá íbúðabyggð og tengd inn á nýju lögnina. Kostnaður við áfangann er áætlaður tæpar 15 milljónir króna að sögn Bryndísar.

Gerður hefur verið samningur við fyrirtækið Allt í járnum ehf um fyrsta áfangann.

Næstu áfangar eru við skóla og íþróttamiðstöð, þar þarf bæði að setja niður rotþrær og útrás. Áfangar 4 og 5 felast í lögnum frá Lækjargötu og neðan Strandgötu og áfangi 6 er ný útrás. Lokaáfanginn er svo hreinsistöð.

DEILA