Strandveiðar: frv um óbreyttar veiðar

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Atvinnuveganefnd hefur lagt fram frumvarp um að Strandveiðar verði með sama sniði og í fyrra þ.e. 12 dagar í mánuði á öllum svæðum. Aukið verður í strandveiðipottinn og einnig aukið við þann ufsa sem má veiða utan hámarksafla á dag ef frumvarpið verður samþykkt.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm. og  formaður nefndarinnar segir „frábært þegar góð samstaða næst um gott framfara og öryggismál fyrir smábátasjómenn.“

Í greinargerð sem fylgir með frumvarpinu segir:

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þ.e. ákvæði laganna um strandveiðar.
Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Kerfið hefur gengið upp eins og lagt var upp með og reynst nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru m.a. að gert er ráð fyrir að hverju strandveiðiskipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar í fjóra mánuði á ári, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Strandveiðar verða háðar sérstöku leyfi Fiskistofu með sama hætti og verið hefur.
Engar breytingar eru gerðar á svæðaskiptingu. Ráðherra mun áfram kveða nánar á um skiptingu landsvæða með reglugerð og við þessi svæði miðast skráning skipa. Sú breyting verður gerð að aflaheimildum verður ekki lengur skipt á landsvæði eða tímabil heldur miðað við að heimilt verði að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til veitt hefur verið það heildaraflamagn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa, að frátöldum ufsa, fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

Nefndin telur brýnt að málið verði afgreitt fyrir nýtt strandveiðitímabil. Frumvarpið kemur til nánari umfjöllunar í nefndinni eftir fyrstu umræðu og gefst þar svigrúm til að skoða einstaka þætti þess betur.

DEILA