Sjávarútvegur: 2017 metár í fjárfestingu

Mynd úr skýrslu greiningardeildar Arionbanka.

Í skýrslu greiningardeildar Arionbanka um sjávarútveginn segir að árið 2017 hafi verið  metár í fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi. Nam fjárfestingin um 40 milljörðum króna samkvæmt yfirliti Arionbanka. Þar er meira en tvöfalt meira en árleg meðaltalsfjárfesting frá 1990. Það er mat bankans að tækniframfarir séu mjör örar og þær skapi þrýsting á fyrirtækin til aukinna fjárfestinga til þess að tryggja samkeppnishæfni þeirra.

Þá hafi fjárfesting í fyrsta skipti  í fyrra verið meiri en sem nemur EBITDA í sjávarútvegi. Af því leiðir að hreinar skuldir hækka. Fjárfesting í fiskvinnslu var í fyrra um 12 milljarðar króna af þessu 40 milljörðum króna, og er það meira en verið hefur síðan 1997.

Þá segir í skýrslunni um landvinnslu og sjóvinnslu:

„Auk þess hafa frystitogarar verið að víkja fyrir ísfiskskipum en ísfiskskipin flytja fiskinn ferskan á land þar sem hann er unninn. Helstu ástæður fyrir þessari þróun eru m.a. þær að hærra verð hefur fengist fyrir ferskan fisk á mörkuðum heldur en frystan fisk. Auk þess má nefna að launakostnaður í vinnslu helmingaðist í erlendum gjaldmiðlum í kjölfar gengisfalls krónunnar árið 2008 og því var mun hagstæðara að vinna sjávarafurðirnar innanlands í kjölfar hrunsins.
Loks má nefna að við vinnslu sjávarafurða á frystitogurum er að mestu leyti notast við innflutta orku, þ.e. olíu, á meðan að við vinnslu í landi er notast við rafmagn. Olíuverð hefur almennt farið hækkandi undanfarna áratugi og því hefur munurinn á orkukostnaði í landi og á sjó aukist umtalsvert.“

DEILA