Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða

Laugardaginn 6. október fer fram alþjóðlegt málþing um bókmenntir og menningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Málþingið fer fram á ensku og íslensku og er opið öllum.

Þegar spáð er í íslenska bókmenntasögu má sjá hvernig mörg af lykilverkum íslenskra bókmennta eiga rætur sínar að rekja til Vestfjarða. Markmið málþingsins er að skapa samræðu um þetta dulmagnaða efni og kortleggja um leið þó ekki væri nema brot af þeim handritum og bókmenntaverkum sem rísa úr Djúpinu frá miðöldum til okkar tíma. Málþingið er hluti af verkefninu Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og takmark þess er að safna efni í kver um vestfirska bókmennta‒ og menningarsögu. Tilurð verkefnisins hvílir í Akurskóla íslenskudeildar Manitóbaháskóla á Vestfjörðum (2008-2015) og því samstarfi sem komið var á fót í því samhengi milli deildarinnar og Háskólaseturs Vestfjarða. Velunnari verkefnisins er Guðmundur Hálfdanarson, sviðsforseti Hugvísindadeildar og Jón Sigurðsson prófessor, Háskóla Íslands, og verkefnisstjórar bókmenntafræðingarnir Birna Bjarnadóttir og Ingi Björn Guðnason.

Málþingið er styrkt af prófessors embætti Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands og Ísafjarðarbæ.

Málþingið hefst kl 9 og stendur til kl 17.

Anne-Tamara Lorre, sendiherra Kanada á Íslandi flytur í upphafi fáein orð um samband Kanada og Íslands á sviði menningar og rannsókna. Því lýður með því að Eiríkur Örn Norðdahl les úr væntanlegri skáldsögu sinni Hans Blær.

Fjölmörg áhugaverð erindi verða flutt þar á milli og eru Vestfirðingar hvattir til þess að kynna sér dagskrá málsþingsins.