„Hér vantar glerþak.“ Opið hús á Selabóli 29. júní síðastliðinn

Selaból á Hvilftarströnd.

„Svo sem,“ er kannski orðatiltæki sem er ekki oft notað en einn er sá maður sem segir það töluvert títt. Það er hann Peter Weiss á Selabóli en hann og kona hans Angela eiga eitt fegursta hús Vestfjarða, sem stendur á Hvilftarströnd í Önundarfirði. Peter og Angela voru með opið hús þann 29. júní síðastliðinn, þar sem gestum og gangandi bauðst að skoða bygginguna og þiggja dýrindis veitingar hjá hjónunum. Peter segist hafa byrjað að byggja húsið í huganum árið 1987, en þá hafi hann verið í heimsókn hjá Þórði Tómassyni í Skógum og séð álíka hús en hugsað með sér að þar vantaði glerþakið. „Og þá voru fyrstu skissurnar að húsinu komnar,“ sagði Peter við blaðamann BB.

„Og svo var húsið teiknað 1987-1988 en grunnurinn var ekki grafinn fyrr en 2010. Og svo var það tilbúið undir tréverk ef maður segir sem svo, 2011. En restin tók svo ansi langan tíma. Og þegar maður gengur hér um þá sér maður ýmislegt smálegt sem vantar,“ segir Peter og bendir í kringum sig. Viðtalið við hann var tekið í herbergi sem snýr inn í fjörðinn og út að sjó. Gluggarnir eru stórir og útsýnið ægifagurt. Sem og rýmin sjálf. „Hallvarður Aspelund er arkitekt hússins en ég var með nokkuð skýrar hugmyndir um það hvernig ég vildi það. Og Hallvarður reyndist mér mjög vel, hann hlustaði vel. Hann túlkaði það sem ég vildi hafa. Og það er líka mikil kúnst.“

Húsið á Selabóli er tiltölulega hrátt en þó hlýlegt. Gróft en á sama tíma mjúkt. Andstæðurnar kallast á og eru rammaðar inn af firðinum sjálfum, fjöllunum og lýsandi gulri fjörunni sem teygir sig á móti Hvilftarströnd frá Holtsodda. Það voru margir sem sóttu Peter og Angelu heim þennan dag enda eru þau bæði skemmtileg og gaman til þeirra að koma. Fyrir utan prýðina sem húsið er, þá er líka áhugavert að koma til þeirra og sjá grænmetisræktina, hænurnar og holdakanínurnar sem Peter ræktar til manneldis og þykja herramannsmatur. Sjálfbærnin í hávegum höfð á þessum bæ.

 

En af hverju vera með opið hús? „Í fyrsta lagi er hér nánast alltaf opið hús og hér banka jafnvel ferðamenn og vilja kíkja á húsið. En svo eru til dæmis nágrannar mínir hérna sem hafa aldrei séð húsið og maður man kannski ekki alltaf eftir þeim. Og svo fer maður að hugsa hvort maður eigi að bjóða heim og þeir sem keyra fram hjá hugsa kannski að þeir komi við næst og vilja kannski ekki trufla. Þannig að ég var með opið hús fyrir fjórum árum 29. júní, og þá var bara fullt af fólki, sem kom okkur algjörlega á óvart. Og ég ákvað bara aftur í ár að hafa opið hús 29. júní því það er dagur Péturs postula sem er nafnadagur minn, eða afmæli mitt á sumri og þess vegna varð þessi dagur fyrir valinu,“ segir Peter að lokum og blaðamaður þakkar honum fyrir góðar móttökur og skemmtilegt viðtal.

Sæbjörg
bb@bb.is