Sveitarstjórn Reykhólahrepps hyggst fjármagna hlutlaust mat á vegi um Gufudalssveit

Fyrir helgi birtist frétt á vef RÚV um að sveitarstjórn Reykhólahrepps hyggist fjármagna mat hlutlausra sérfræðinga á vegi um Gufudalssveit. Fram kemur að nýr vegur um Gufudalssveit hafi lengi verið á teikniborðinu, en deilt hafi verið um hvaða leið skuli velja fyrir veginn. Sveitarstjórn Reykhólahrepps hafði tvo kosti til skoðunar, en það er leið D2 með jarðgöngum undir Hjallaháls og leið Þ-H um Teigsskóg. Skipulagsstofun lagði til leið D2 vegna minnstra umhverfisáhrifa en Vegagerðin telur leið Þ-H um Teigsskóg besta kostinn, sem og ódýrasta.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í mars að nýr vegur skyldi liggja um Teigsskóg, en skipulagsnefnd átti að afgreiða skipulagsbreytinguna á mánudaginn síðastliðinn, en henni var frestað. Í staðinn var ákveðið að fá óháða verkfræðistofu til að meta kostina að nýju, en sveitarstjórinn, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, segir málið í uppnámi ef sérfræðingar komist að annarri niðurstöðu en sveitarstjórn.

Ingibjörg Birna segist í fréttinni vonast til að matið styðji veg um Teigsskóg og einnig að matið komi ekki til með að seinka skipulagsferlinu. Ef óháðu sérfræðingarnir komast að annarri niðurstöðu en sveitarstjórn og Vegagerðin, sem hafa ákveðið að vegurinn skuli liggja um Teigsskóg, telur Ingibjörg að það muni hafa slæm áhrif á ferlið.

 

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA