Frumvarp fyrir útvalda

Jón Örn Pálsson, ráðgjafi á Tálknafirði.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á núverandi lögum um fiskeldi. Í frumvarpinu er að miklu leyti tekið mið af tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi.  Í frumvarpinu eru atriði sem eru um margt athugaverð, ekki síst sú ætlan að taka upp bein pólitísk afskipti og handstýringu á atvinnugreininni. Við skipun starfshóps sem lagði umrædda stefnumótun fram var valinn þröngur hópur hagsmunaaðila núverandi leyfishafa í fiskeldi og veiðiréttarhafa. Aðrir hagsmunaaðilar fengu enga aðkomu. Niðurstaða vinnunnar ber þess augljós merki því þar gætir lítillar framtíðarsýnar.

Nú liggur fyrir frumvarp að lagabreytingum sem auka mun flækjustig við úthlutun heimilda til fiskeldis og verður ekki annað séð en að lög um mat á umhverfisáhrifum séu sniðgengin. Úthluta á svæðum til fiskeldis án þess að umhverfismat hafi farið fram. Nú á að auglýsa tiltekin eldissvæði og verður „hagstæðasta“ tilboði tekið. Við mat á umsækjendum er ætlunin að taka mið af fiskeldisreynslu, samfélagsábyrgð og fjárhagslegum styrk en umhverfissjónarmið fá lítið vægi að því er virðist. Það er ljóst að þetta matskerfi mun kalla á röð málaferla því matskerfið fyrirhugaða er stjórnsýslulega ógegnsætt og ótækt. Þess utan er athyglisvert að Hafrannsóknastofnun fær það hlutverk að skilgreina eldissvæði á grundvelli hagkvæmnisjónarmiða, sem hlýtur að vera utan við verksvið stofnunarinnar.

Annað sem vert er að hafa áhyggjur af er að horft er alfarið framhjá þeim mikla vanda sem dreifing laxalúsa mun skapa þegar stundað verður samfellt hvíldarlaust eldi í hefðbundnum sjókvíum. Ekki á að taka mið af þeirri umhverfisvá þegar fjörðum og hafsvæðum er skipt upp í eldissvæði. Vandamál sem fylgja laxalús hefur stöðvað vöxt laxeldis í Noregi og meðal annarra nágrannaþjóða. Hér er öll áhersla lögð á vernd villtra laxastofna gegn erfðablöndun en engin áhersla lögð á vernd villta laxastofna gegn skaðlegum áhrifum laxalúsar. Með stórauknu laxeldi munu smitsjúkdómar láta á sér kræla, annað er hrein óskhyggja. Í frumvarpinu er ekki neitt ákvæði um skiptingu landsins í sóttsvæði þannig að óheftur flutningur á lifndi fiski milli landshluta yrði undantekning en ekki regla.  Breytingar á lögum um fiskeldi voru síðast gerðar árið 2014 og ekki verður séð að fyrirliggjandi lagabreytingar bæti núverandi lagaumgjörð, nema hvað varðar heimild Hafrannsóknastofnunar til að stunda rannsóknir í sjókvíum og skyldur leyfishafa til að telja laxalús. Ef markmið stjórnvalda er að auka gjaldtöku fyrir fiskeldisleyfi er ákvæði í núverandi löggjöf sem heimilar það. Nei, hér þarf að standa betur að verki. Vissulega er „lokaður eldisbúnaður“ nýmæli í frumvarptextanum en að öðru leyti er ekki að sjá að stjórnvöld vilji leggja áherslu á sjálfbærni og hafi bestu fáanlegu þekkingu að leiðarljósi við endurskoðun laga um fiskeldi.

Jón Örn Pálsson

Ráðgjafi

Tálknafirði

 

DEILA