Leita að eldislöxum í vestfirskum ám

Eftirlitsmenn Fiskistofu kanna nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum. Í lok september barst Fiskistofu erindi frá Landssambandi veiðifélag þar sem óskað var eftir þessari könnun. Fiskistofa hefur haft samráð við Hafrannsóknastofnun um málið, en stofnunin telur að upplýsingar um það hvort eldisfiska er að finna í ám á Vestfjörðum geti gagnast til þess að renna styrkari stöðum undir áhættumat vegna hugsanlegrar erfðablöndunar vegna sjókvíaeldis á laxi á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í bréfi Fiskistofu til Ísafjarðarbæjar.

Í bréfinu er óskað eftir leyfi bæjarins til sýnatöku í Sandá í Dýrafirði, en Ísafjarðarbær á land að ánni. Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðist sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.

Ísafjarðarbær veitti Fiskistofu leyfi til veiða og rannsókna í ánni en setur það skilyrði að fá strax að leit lokinni upplýsingar um fjölda laxa sem finnast við þessa leit og hvernig skipting þeirra er í eldislaxa og náttúrulega laxa.

smari@bb.is

DEILA