Völu-Steinn og Þuríður Sundafyllir í nýrri bók

Höfundar bókarinnar, Guðrún Stella Gissurardóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Ný vestfirsk bók hefur litið dagsins ljós, barnabókin „Mamma, mamma ég sé land,“ sem gefin er út af Þuríði Sundafylli ehf. sem þær Soffía Vagnsdóttir og Guðrún Stella Gissurardóttir standa á bak við. Bókin fjallar um Völu-Stein, 9 ára son Þuríðar sundafyllis, þar sem þau mæðgin auk áhafnar sigla frá Hálogalandi í Norður-Noregi, um miðja 10. öld, áleiðis til Íslands þar sem þau námu land í Bolungarvík. Guðrún Stella og Soffía skrifa bókina en um myndskreytingar, uppsetningu og frágang sér myndlistarkonan Nina Ivanova.

Aðspurð um hvernig hugmyndin kom til segir Soffía þær lengi hafa verið einlægir aðdáendur landnámssögunnar um Þuríði sundafylli og það séu mörg tækifæri fólgin í henni: „Við sjáum í henni svo mörg tækifæri tengd menningartengdri ferðaþjónustu. Við lítum á það sem mikilvægan hluta af sjálfsmynd íbúa Bolungarvíkur að þekkja vel til sögunnar og upphafs búsetu í Bolungarvík, svo er hún líka svo skemmtileg fyrir alla þá sem heimsækja svæðið. Ekki síst er þetta mikilvægt fyrir börnin, að þekkja sögu Bolungarvíkur.“

Í bókinni leituðust þær við að glæða tungumálið nýju lífi á gömlum grunni og nota ýmis orð sem áður voru notuð um ýmislegt sem tengist siglingum, fæðu, fatnaði og fleiru. Svo bókin getur bætt við orðaforðann og fylgja hinum flóknari orðum skýringar.

„Við höfum síðustu árin verið að þróa ýmsar hugmyndir í sambandi við landnámskonuna Þuríði og fyrir mörgum árum héldum við til dæmis viðburð sem við nefndum „Býr Þuríður í þér?“ Sem hafði það að markmiði að hvetja ungar konur á svæðinu til dáða, finna sína innri „Þuríði“ í formi krafts, áræðis og leiðtogahæfni.“

Soffía segir gerð bókarinnar eðlilegt og skemmtilegt framhald í þrá þeirra eftir að halda landnámssögunni á lofti, þar sem þær vilja vekja athygli á krafti, áræði og dugnaði Þuríðar, sem lét sér einstæðri móðurinni ekki muna um að fara af stað á vit nýrra ævintýra yfir land og haf um miðja tíundu öld.

„Við lítum á bókina „Mamma, mamma ég sé land“, sem fyrstu bókina af líklega þremur um Þuríði og Völu-Stein son hennar og landnám þeirra í Bolungarvík. Vonandi rætist sá draumur okkar.“ Segir Soffía og eru þær þegar byrjaðar að þýða bókina yfir á norsku: „Það finnst okkur mjög mikilvægt því í Norður-Noregi þekkja menn líka til sögu Þuríðar og fyrir fáeinum árum var einmitt vígður minnisvarði um hana fyrir utan ráðhúsið í bænum Leknes. Það verður því spennandi að kynna þessa fallegu bók fyrir frændum okkar Norðmönnum sem einnig hafa áttað sig hvílíkur kvenskörungur Þuríður var og svo tekst okkur vonandi að gefa hana út á fleiri tungumálum.“

Bókin kemur í verslanir á næstu dögum.

 

 

annska@bb.is

 

 

DEILA