Sólrisuhátíðin hafin – Vælukjói frumsýndur

Frá skrúðgöngunni í hádeginu

Í dag var Sólrisuhátíð Menntaskólans á Ísafirði sett. Venju samkvæmt gengu nemendur fylktu liði með fánabera í broddi fylkingar undir taktvissum trommuslættir frá menntaskólanum að Edinborgarhúsinu þar sem setningin fór fram þessu sinni. Þar var meðal annars boðið upp á atriði úr leiksýningunni Vælukjóla sem leikfélag MÍ hefur unnið hörðum höndum að í meira en mánuð. Vælukjói er söngleikur sem byggður er á kvikmyndinni Cry baby frá 1990 eftir John Waters.

Um verkið segir Emma Jóna Hermannsdóttir, formaður leikfélags Menntaskólans á Ísafirði: „Vælukjói Walker er skerjari og talinn vera vandræðaunglingur, Allison er kantari og algjör engill. Skerjararnir er hópur af fátæku fólki sem virða hvorki lög né reglur þegar skemmtun kemur við sögu. Þeim semur alls ekki við alla, en þeir sem bera skemmtun í skauti sér eru meira en velkomnir í félagsskap þeirra. Kantararnir eru mjög íhaldssamir, ríkari en skerjarar og eiga aðeins samskipti við aðra kantara. Þessir tveir félagshópar eru bersýnilega mjög ólíkir í fari og vilja helst ekki eiga mikil samskipti hvor við annan. Vælukjói, sem er hálfgerður leiðtogi skerjaranna, verður ástfanginn af Allison, sem er einmitt sætasta stelpan í hópi kantara. Og eins og í öllum góðum leikritum þarf Kjói að fara á móti áhyggjufullum þykjustu-kærasta, lauslátri ömmu sem og öllum könturum í heild sinni til að ná stelpunni. Svo er auðvitað spurningin hvort vondi gæinn hreppi loks góðu stúlkuna?“

Emma Jóna segir John Waters hafa sinn eigin stíl og verkið oft öðruvísi en fólk á kannski að venjast og gæti það þurft að opna sig fyrir stílbragðinu og reyna að hafa gaman að honum.

Leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir hefur sett leikritið skemmtilega upp með einfaldri sviðsmynd en flóknari lýsingu og hljóðum með hjálp tæknimanna. Emma segir mikla vinnu hafa verið lagða í hverja persónu leikritsins: „Ingrid hefur hjálpað hverjum einasta leikara að ná fram sínum karakter, því ekki teljast þeir mjög venjulegir.“

Það eru þau Kristín Helga Hagbarðsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson sem fara með aðalhlutverk sýningarinnar en Emma segir jafnframt öll hlutverkin mikilvæg og með mikinn karakter. Hún segir æfingar hafa gengið nokkuð vel, hópurinn flottur og vel samstilltur, en ekki sé alltaf auðvelt að setja upp leikrit í ríkjandi flensutíð: „Verst að þegar einn eða tveir veikjast þá veikist allur hópurinn því við erum alltaf saman.“

Hún segir leikhúsgesti ekki verða svikna af sýningunni sem hún segir ótrúlega skemmtilega. Frumsýning verður í kvöld klukkan 20 og önnur sýning á morgun laugardag á sama tíma. Á sunnudag verða svo tvær sýningar, annars vegar klukkan 16 og svo klukkan 20. Miðapantanir eru í síma 450 5555.

Þetta er í 42.sinn sem Sólrisuhátíðin er haldin og er hún ávallt einn af hápunktum skólaársins við M.Í. Útvarpsstöð skólans MÍ-flugan er farin í loftið á tíðninni FM 101,1. Í nótt er svo náttfatanótt í skólanum og er næsta vika yfirfull af spennandi dagskrá er Gróskudagar fara fram við skólann.

Sýnt var brot úr sýningunni Vælukjóa í hádeginu í Edinborg
Emma Jóna Hermannsdóttir formaður leikfélags MÍ
Sýnt var brot úr sýningunni Vælukjóa í hádeginu í Edinborg

annska@bb.is

DEILA