Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 2342

Hinrik valinn besti leikmaður Vestra

Hinrik Guðbjartsson var valinn besti og efnilegasti leikmaður meistaraflokks tímabilið 2016-2017. Hér er hann ásamt Yngva Gunnlaugssyni, yfirþjálfara Vestra og Ingólfi Þorleifssyni formanni deildarinnar.

Á laugardaginn  var lokahóf meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Vestra haldið á Hótel Ísafirði. Þótt tveir síðustu leikir deildarinnar hafi tapast um helgina bar þó engan skugga á hófið enda margt jákvætt í starfinu sem full ástæða er til að fagna. Leikmenn meistaraflokks, stjórn Kkd. Vestra og Barna- og unglingaráð komu saman og nutu ljúffengra veitinga Hótels Ísafjarðar og litu yfir tímabilið.

Á vefsíðu Vestra kemur fram að árangur meistaraflokks var ásættanlegur miðað við talsverðar mannabreytingar innan liðsins í upphafi tímabils. Þá er árangurinn einnig mun betri en spá formanna, þjálfara og fyrirliða í 1. deild í upphafi móts gaf til kynna en samkvæmt henni átti liðið að enda áttunda og næst neðst sæti. Sú spá átti ekki við rök að styðjast því liðið endaði í sjötta sæti og var nálægt því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Á lokahófinu voru veittar viðurkenningar í sex flokkum: Besti leikmaðurinn, efnilegasti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn, besti varnarmaðurinn, mestu framfarir og dugnaðarforkur ársins. Auk þess fengu allir leikmenn viðurkenningar meira til gamans en þar á meðal mátti finna viðurkenningar á borð við „reiðasti leikmaðurinn“, „elsti leikmaðurinn“ og „besta tanið“.

Hinrik Guðbjartsson, leikstjórnandi var valinn besti leikmaðurinn og hlaut hann einnig nafnbótina efnilegasti leikmaðurinn. Hinrik, sem er aðeins 21 árs gamall, sýndi í vetur að hann er meðal bestu leikstjórnenda 1. deildar og meðal efnilegustu leikstjórnenda landsins. Hinrik var með 16 stig, 3,5 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.

Besti sóknarmaðurinn var valinn Nebojsa Knezevic. Það kemur væntanlega engum á óvart enda býr Nebojsa yfir fádæma sóknarhæfileikum og getur skorað stig í öllum regnbogans litum, frá troðslum yfir í þriggja stiga körfur og allt þar á milli. Nebojsa er stigahæsti leikmaður liðsins í vetur með 18,7 stig í leik auk þess að státa af 7,9 fráköstum og 2,6 stoðsendingum.

Besti varnarmaðurinn var valinn Yima Chia-Kur. Þessi öflugi Banaríkjamaður sýndi oft góða varnartakta í vetur og með hæð sinni, styrk og krafti gerði hann vörn liðsins óárennilega fyrir andstæðingana.

Nökkvi Harðarson fékk viðurkenningu fyrir mestar framfarir. Nökkvi varð fyrir því óláni að hljóta slæm höfuðmeiðsl á miðju tímabili en lét það þó ekki stoppa sig og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins. Það sést vel á því að í fjórum af síðustu sex leikjum deildarinnar var hann með yfir 10 stig auk þess að vera tvisvar með tvennu (yfir 10 stig og 10 fráköst).

Dugnaðarforkur ársins var svo valinn Adam Smári Ólafsson. Adam hefur sannarlega unnið fyrir þessum titli í vetur því hann hefur bæði leikið stórt hlutverk í meistaraflokki og unglingaflokki of oft leikið þrjá leiki á helgi án þess að blása úr nös eða kvarta yfir álagi.

Auglýsing

Gistináttaskatturinn ekki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Fram­kvæmda­sjóður ferða­manna­staða verður ekki lengur fjár­magn­aður með gistin­átta­skatti, sam­kvæmt drögum að frum­varpi um breyt­ingar á lögum um sjóð­inn. Þá munu ferða­manna­staðir í opin­berri eigu ekki lengur geta sótt um styrki í sjóð­inn heldur ein­göngu ferða­manna­staðir í einka­eigu eða eigu sveit­ar­fé­laga. Sam­kvæmt núgild­andi lögum fær fram­kvæmda­sjóður ferða­manna­staða 3/5 hluta þeirra tekna sem ríkið fær af gistin­átta­skatti. Fyrir jól var gistin­átta­skatt­ur­inn þre­fald­aður úr 100 krónum á hverja selda ein­ingu í 300 krónur á hverja selda gistin­átta­ein­ingu. Sú breyt­ing tekur gildi 1. september 2017 og að óbreyttu hefði fram­kvæmda­sjóð­ur­inn fengið tals­vert hærri fram­lög af fjár­lögum, en gert var ráð fyrir því að auknar tekjur rík­is­ins af hærri gistin­átta­skatti yrðu 300 millj­ónir á þessu ári og 1,2 millj­arðar á næsta ári.

Sam­kvæmt frum­varp­inu verður fram­lag rík­is­sjóðs í fram­kvæmda­sjóð­inn ákveðið á fjár­lög­um, og sjóð­ur­inn fær því ekki mark­aðar tekjur af gistin­átta­skatti.

Auglýsing

Fjárfesta í framtíðinni á afmælisárinu

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf., Valdimar Sigurðsson, svæðissölustjóri Marel og Sigurður Viggósson, stjórnarformaður Odda hf., takast í hendur til að staðfesta samning um uppsetningu FleXicut. Mynd af heimasíðu Marel.

Fiskvinnslan Oddi hf á Patreksfirði fagnar 50 ára starfsafmæli í ár og hefur fyrirtækið vaxið og þróast í takt við tíðarandann á hálfri öld. Í dag tók Oddi í notkun nýtt FleXicut kerfi frá Marel, sem er vatnsskurðarvél sem greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar. Þá var einnig sett upp FleXisort kerfi sem er sérhannað til þess að taka við afurðum frá FleXicut og dreifa á mismunandi afurðarlínur með nýrri vipputækni sem stuðlar að bættri hráefnismeðhöndlun.

Skjöldur Pálmason, framkvæmdarstjóri Odda segir búnaðinn gera fyrirtækinu kleift að bjóða upp á fleiri vörulínur fyrir viðskiptavini þeirra og með þeim hætti nái fyrirtækið forskoti í samkeppni við aðra framleiðendur og geti boðið upp á fyrsta flokks vöru, hvort sem um er að ræða ferska hnakka eða flök.

Skjöldur segir afmælisárið vera kjörinn tíma til að fjárfesta í framtíðinni: „Síðastliðið ár höfum við gert miklar fjárfestingar og segja má að uppsetning FleXicut kerfisins sé hápunkturinn á ferlinum og fullkomin leið til þess að halda upp á hálfrar aldar afmælið.”

Ekki er einvörðungu haldið upp á starfsemi í hálfa öld með nýjum búnaði. Allt starfsfólk fyrirtækisins til sjós og lands ásamt fjölskyldum, 137 manns, er nýkomið heim úr vikuferð til Tenerife. Skjöldur segir ferðina, sem hefur verið í undirbúningi í langan tíma, hafa lukkast frábærlega og allir komið gríðarlega ánægðir til baka.

annska@bb.is

Auglýsing

Raforkuvinnsla minnkaði um 1,3%

Ra

Raforkuvinnsla á landinu í fyrra nam samtals 18.547 GWh og minnkaði um 1,3% frá árinu 2015. Notkun fædd frá flutningskerfinu, þ.e. stórnotkun, nam 14.287 GWh á árinu 2016 og minnkaði um 0,5% frá fyrra ári. Kemur þetta fram í tilkynningu frá raforkuhópi orkuspárnefndar. Þar kemur einnig fram að almenn notkun minnkaði um 4,3% og nam 3.901 GWh. Töp við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda voru 358 GWh og minnkuðu um 3,1%. Orkustofnun bendir á þrjá þætti sem skýra minnkun almennrar raforkunotkunar á síðasta ári. Í fyrsta lagi var veðurfar gott í fyrra og lofthiti í Reykjavík að meðaltali um 1,5 gráðum hærri það ár en árið á undan. Í öðru lagi var loðnuafli minni en árið 2015, en vinnsla loðnu kallar á mikla raforkunotkun og í þriðja lagi fluttist afhending raforku til gagnavers ekki fyrr en um mitt ár 2016.

Auglýsing

Þá var tíðin „óminnilega góð“

Útsýnið frá bryggjunni á Gjögri er ómótstæðilegt.

Veðurfar á Vestfjörðum hefur verið sérlega gott þennan veturinn, óveður fátíð, úrkoma með minna móti og snjóalög létt sem gremur og gleður á víxl. Árið 1929 var einstaklega gott ár veðurfarslega séð hér á landi, ef kannski undan eru taldir síðustu tveir mánuðir ársins. Um þetta má lesa í mánaðarlegu yfirliti Níelsar Jónssonar sem Trausti Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands tók saman og birti á vef stofnunarinnar fyrir nokkrum árum. Níels var veðurathugunarmaður á Grænhóli við Gjögur á Ströndum á árunum 1921 til 1934.

Er við sem uppi erum árið 2017 upplifum sérlega mildan marsmánuð, er til gamans birt yfirlit Níelsar yfir marsmánuð árið 1929, sem einnig var með eindæmum góður:

„Óminnilega góð tíð. Tveir elstu búhöldar hjer á áttræðisaldri muna engan vetur þessum líkan. Þeir Kristinn Magnússon, Kambi, og Guðm. Pjetursson, Ófeigsfirði, og enginn hjer ungur eða gamall. Tíunda mars kannaði jeg mjög víða klaka eða þýðu í jörð með mjóum stáltein 90 cm löngum. Var þá mjög óvíða að finna klaka í túnum og móum, aðeins lítils háttar þar sem mýrlent var og þó lítilsháttar smáblettir, flestir svo þunnir að teinninn gekk í gegnum þá. Í móum fann jeg klaka tölur í stöku lágum og loðnum börðum. Klakalaus er nú talin jörð öll á láglendi í mánaðarlokin.

Gróður í túnum mikill til að sjá 18. mars og nál lítils háttar í úthaga en þó gráblettótt tún enn í mánaðarlokin en tínir mikið grænt í úthaga. Lambagras sje mikið og víða útsprungið á bersvæði 30. mars og sóleyjahnappar í túnum á stöku stöðum. Öll vinna möguleg til jarðræktar. Frekar ókyrð af og til til sjóar en fiskur talsvert vandhittur, er í ræmum víða í dýpishöllum og svo hnöppum. Fiskreyta 2-300 á 6-8 lóðir fæst hér á firðinum.

Íshús víst flest hjer klaka eða snjólaus og illnáandi í snjó nú, fyrir skip, sagt norður allar strandir. Bagalegur fleyrum en Grænlenskum skrælingjum blíðuveturinn þessi.

Farfuglar. Heiðlóur hjer 28. mars. Tjaldar hjer 8. mars. Svanir á vötnum 10. mars og síðan. Lómar fyr. Af fönnum mínum er nú Skarðagilsskaflinn einn eftir en þó lítill“

Skrif Níelsar fyrir árið 1929 í heild sinni má lesa hér.

Auglýsing

Éljagangur síðdegis

Veðurstofa Íslands spáir vestlægri golu eða kalda á Vestfjörðum og úrkomulitlu veðri fram eftir degi. Síðdegis má gera ráð fyrir suðvestan 5-13 m/s með éljum. Hiti verður nálægt frostmarki. Búast má við heldur hægari vindi á morgun. Á fimmtudag spáir norðan 5-13 m/s með snjókomu norðan- og austanlands, hvassast á annesjum. Þurrt að kalla á sunnanverðu landinu og éljagangur nyrðra um kvöldið. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust allra syðst.

Hálka eða hálkublettir eru á vegum á Vestfjörðum og snjóþekja á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing

Meiri botnfiskafli á land á Vestfjörðum

Löndun í Bolungarvík.

Á síðasta ári var rúmlega 57 þúsund tonnum af bolfiski landað í vestfirskum höfnum og varð aukningin um 4,9% milli ára. Mest var landað í Bolungarvík og á Ísafirði eða rúmlega 19 þúsund tonnum. Þriðja stærsta löndunarhöfnin á Vestfjörðum er á Patreksfirði en 6.600 tonn af botnfiski bárust þarf á land á síðasta ári. . Reykjavíkurhöfn ber venju samkvæmt höfuð og herðar yfir aðrar löndunarhafnir hér á landi þegar horft er til löndunar á botnfiski og tæplega 90 þúsund tonn af botnfiski var landað í Reykjavík á síðasta ári.

Sú höfn sem kemur næst er Grindavíkurhöfn með 38.374 tonn, en þar varð samdráttur um 17,2% eða tæp átta þúsund tonn. Samdráttur var í afla á einstökum stöðum víða um land, að því er fram kemur á heimasíðu Fiskistofu. Mestur samdráttur í magni talið var í Grindavík og á Ísafirði þar sem hann var um 2,9 þúsund tonn. Mest jókst magnið í Hafnarfirði, um 6,3 þúsund tonn, 24%, og í Bolungarvík um fjögur þúsund tonn eða 26,4%. Aukning var í löndun á botnfiskafla á öllum landsvæðum að Suðurnesjum undanskildum. Afli á Norðurlandi vestra jókst úr tæpum 27 þúsund tonnum í rúm 29,1 þúsund tonn og á Norðurlandi eystra úr 81,8 þúsundum tonna í 88 þúsund tonn. Aukning varð í löndun á botnfiskafla á öllum landsvæðum að Suðurnesjum undanskildum en þar dróst landað magn saman um 10,2% eða um rúm 6,3 þúsund tonn og var 55.762 tonn. Á Reyðarfirði var í fyrra aðeins landað 71 kílói af botnfiski.

 

 

Auglýsing

Baldur leysir Herjólf af

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur fer í reglubundna slipptöku í maí. Breiðafjarðarferjan Baldur mun þá sigla á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar á meðan slipptökunni stendur. Herjólfur mun sigla samkvæmt áætlun til 1. maí næstkomandi og Baldur til 30. apríl.  Sá síðarnefndi mun hefja siglingar frá Vestmannaeyjum 2. maí og er stefnt að því að því að Baldur verði kominn aftur á áætlun í Breiðafirði sunnudaginn 21. maí.
Farþegabáturinn Særún mun þjónusta farþega á leið í og úr Flatey þann tíma sem Baldur verður fjarri vegna þessa verkefnis.

Auglýsing

Taflfélag Bolungarvíkur hafnaði í 5. sæti

Skákmaðurinn Guðmundur Gíslason (t.h.) teflir fyrir Taflfélag Bolungarvíkur.

Fyrstu helgina í mars fór fram seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga í Rimaskóla í Reykjavík. Sem fyrr teflldi Taflfélag Bolungarvíkur í fyrstu deild þar sem félagið hefur verið óslitið í 10 ár. Á vefnum vikari.is segir að árangur liðsins í ár er í samræmi við væntingar og í takt við styrkleikaröðun, en Taflfélag Bolungarvíkur hafnaði í 5. sæti með 34,5 vinninga, en Skákfélagið Huginn bar sigur úr býtum. Íslandsmótið fer þannig fram að fyrri hluti keppninnar fer fram að hausti og seinni hluti á vormánuðum næsta árs.

Auglýsing

Þunglyndiseinkenni algeng á Íslandi

Konur eru líklegri en karlar til að fá þunglyndiseinkenni.

Í evrópsku heilsufarsrannsókninni 2015 var Ísland í fjórða sæti yfir fjölda fólks með þunglyndiseinkenni. Konur eru líklegri en karlar til að hafa slík einkenni. Munur á körlum og konum var mestur í aldurshópnum 15–24 ára og 65 ára og eldri. Þunglyndiseinkenni voru algengari meðal ungra kvenna á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum. Greint er frá rannsókninni á vef Hagstofunnar.

Tæp 9% fólks á Íslandi mældist með þunglyndiseinkenni, en það er fjórða hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í evrópsku heilsufarsrannsókninni. Þá voru rúm 4% með mikil einkenni og er Ísland þar með næsthæsta hlutfallið.

 

Flestir mældust með þunglyndiseinkenni í Ungverjalandi, rúm 10%, en fæstir í Tékklandi, rúm 3%. Af Norðurlöndunum var þetta hlutfall hæst í Svíþjóð, rúm 9%, en lægst í Finnlandi, rétt undir 5%. Noregur og Danmörk voru á svipuðu róli með rúm 6%.
Konur á Íslandi eru líklegri til að hafa þunglyndiseinkenni en karlar, tæp 11% á móti 7% karla. Hlutfallið var hærra hjá konum í öllum aldurshópum en þó áberandi hærra í yngsta og elsta aldurshópnum. Á aldrinum 15–24 ára mældust 10% karla með einkenni þunglyndis og tæp 18% kvenna. Í aldurshópnum 65 ára og eldri mældust rétt um 4,5% karla með þunglyndiseinkenni en rúm 11% kvenna.

 

Auglýsing

Nýjustu fréttir