Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verður ekki lengur fjármagnaður með gistináttaskatti, samkvæmt drögum að frumvarpi um breytingar á lögum um sjóðinn. Þá munu ferðamannastaðir í opinberri eigu ekki lengur geta sótt um styrki í sjóðinn heldur eingöngu ferðamannastaðir í einkaeigu eða eigu sveitarfélaga. Samkvæmt núgildandi lögum fær framkvæmdasjóður ferðamannastaða 3/5 hluta þeirra tekna sem ríkið fær af gistináttaskatti. Fyrir jól var gistináttaskatturinn þrefaldaður úr 100 krónum á hverja selda einingu í 300 krónur á hverja selda gistináttaeiningu. Sú breyting tekur gildi 1. september 2017 og að óbreyttu hefði framkvæmdasjóðurinn fengið talsvert hærri framlög af fjárlögum, en gert var ráð fyrir því að auknar tekjur ríkisins af hærri gistináttaskatti yrðu 300 milljónir á þessu ári og 1,2 milljarðar á næsta ári.
Samkvæmt frumvarpinu verður framlag ríkissjóðs í framkvæmdasjóðinn ákveðið á fjárlögum, og sjóðurinn fær því ekki markaðar tekjur af gistináttaskatti.