Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg

Þorskafjörður: fyrsti sláttur

Frá Múla. Mynd: Ingólfur Kjartansson.

Fyrsti sláttur sumarsins er þegar yfirstaðinn í Múla í Þorskafirði. Eins og sjá má er heimatúnið orðið vel grænt og gras sprottið á því. Verður þetta að teljast óvenjusnemmt enda enn fyrri hluti maímánaðar.

Múli er vestasti bærinn í gamla Reykhólahreppi. Hreppamörkin voru um Múlaá sem rennur um Þorgeirsdal aðeins fyrir utan Múla. Þar tók við Gufudalshreppur og fyrsti bærinn var Hjallar.

Auglýsing

Ferðafélag Ísfirðinga – gönguferð og kynning á ferðaáætlun í Safnahúsinu

Seljalandshlíð – Bæjarhlíð — 1 skór —
Ísfirskir göngustígar og kynning á ferðaáætlun
Laugardaginn 17. maí

Umsjón: stjórn Ferðafélags Ísfirðinga.

Mæting kl. 12.30 við Netagerðina á Grænagarði.
Gengið upp frá Grænagarði inn á göngustíga milli fjalls og byggðar. Endað í Safnahúsinu á Eyrartúni þar sem ferðaáætlun gönguársins 2025 verður kynnt í máli og myndum.
Boðið verður upp á veitingar með kynningunni.
Göngutími: tæp klukkustund. Kynning: tæpar tvær klukkustundir.

Allir velkomnir, félagsmenn jafnt sem aðrir, til að kynna sér gönguferðirnar sem í boði verða á vegum félagsins.

Auglýsing

„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

„Það verður alltaf einhver umræða en það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla að ég tel næstu fjögur árin. Ástæða þess er sú staðreynd að þetta er alltof langt ferli, við horfum upp á mjög mikla ókyrrð í kringum okkur og við þurfum að einbeita okkur að mikilvægustu verkefnunum,“ segir Erna Solberg, leiðtogi norska Hægriflokksins, í samtali við norska fréttavefinn E24 í dag og vísar þar til næsta kjörtímabils í Noregi en þingkosningar fara fram þar í landi næsta haust.

Málflutningur Solbergs, sem hefur líkt og Hægriflokkurinn lengi talað fyrir inngöngu í Evrópusambandið, er á sömu nótum og hjá Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs og leiðtoga Verkamannaflokksins, í ræðu hans á landsfundi flokksins nýverið. Flokkur Støres var áður hlynntur því að ganga í sambandið en hefur í seinni tíð ekki haft það á stefnuskrá sinni og var tillögum um að setja málið á dagskrá og boða til þjóðaratkvæðis í þeim efnum hafnað á fundinum.

„Við þurfum nú að beina orkunni að því að standa vörð um norska hagsmuni. Ekki að eyða henni í langt, krefjandi umsóknarferli [að Evrópusambandinu] sem hætta er á að sundri okkur,“ sagði Støre í ræðunni en sjálfur hefur hann lengi verið hlynntur inngöngu í sambandið. Þjóðaratkvæði um Evrópusambandið væri ekki það bezta fyrir Noreg í ljósi heimsmálanna. „Við erfiðar aðstæður vil ég frekar halda Noregi sameinuðum en setja af stað ný átök með eða á móti.“

Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn hafa allajafna verið stærstu stjórnmálaflokkar Noregs og nær undantekningalaust skipzt á að leiða ríkisstjórnir landsins. Hins vegar hafa þeir þurft að vinna með flokkum andvígum inngöngu í Evrópusambandið til þess að mynda ríkisstjórnir. Til þess að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar þarf Hægriflokkurinn þannig meðal annars að vinna með Framfaraflokknum sem er alfarið andsnúinn því að Noregur gangi í sambandið.

Hvað afstöðu almennings í Noregi varðar hafa allar skoðanakannanir þar í landi undanfarin 20 ár sýnt fleiri andvíga inngöngu í Evrópusambandið en hlynnta. Fátt ef eitthvað bendir þannig til þess að Norðmenn séu á leið í sambandið þrátt fyrir tíðar fullyrðingar um annað í röðum íslenzkra Evrópusambandssinna. Jafnvel leiðtogi samtaka norskra Evrópusambandssinna, Heidi Nordby Lunde, hefur lýst þeirri skoðun sinni að sú verði ekki raunin í fyrirsjáanlegri framtíð.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Fyrsti leikur Vestra í 2. deild kvenna í sumar

Kvennalið Vestra á æfingu.

Vestri leikur sinn fyrsta leik í 2. deildinni í sumar er það mætir Smára í Fagralundi kl 14:00 í dag.

Liðinu var á dögunum spáð 10. sæti í deildinni á Fótbolta.net en það er einmitt sama sæti og liðið endaði í síðastaliðið sumar. Þjálfari liðsins er Brentton Muhammad en hann tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra.

Smári hefur þegar spilað einn leik en liðið tapaði fyrir Sindra frá Höfn, 1-6, þann 4. maí síðastliðinn.

Auglýsing

Vísur úr Djúpi og víðar að

Guðbrandur Baldursson.

Guðbrandur Baldursson frá Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi hefur tekið saman nokkrar vísur. Vonast hann til þess að slíkt megi verða til auðgunar íslensks máls og meðferðar í rituðu máli og einkum gamans aflestrar þeirra er leggja slíkt sér til.

Tilurð og ástæður/vísna eru mismunandi eins og efni gefa til og oft er gott að rifja upp ástæður/aðstæður við birtingu, að mínu viti gefur það meiri sjarma og lyftingu svona eins og skrautborði í blómasal minninga og mannlegrar sögu.

Gefum Guðbrandi orðið:

Skulum byrja á nokkrum nýjum úr samtímanum.

Birtingarleyfi fá þessar :

Úr fréttum nýliðins tíma.

Þjófabálkar þenja sig

þjóna æðri hernum.

Megi tæknin máta þig

úr myndavélafernum.

Páfinn gaf og gefur enn

gleði haf og sorgir

Slegnum af þá slær á menn

stærstu grafir hýsa borgir.

Hraðíslensku (íslenskukennslu með mannamótum og gagnkvæmri tjáningu) hefur verið beitt í stríði gegn yfirtöku og yfirþyrmingu erlendra tungumála í Ísfirsku samfélagi.

Á Ísafirði manna mál

mætti útlenskunni

brátt var bæði Óla og Njál

beitt í málfærslunni.

Að vori 1996 er messa var á páskadag í Ögurkirkju og mannmargt var. Séra Baldur sóknarprestur Djúpmanna var við predikun er reykjarmökkur sást allnokkur stíga út djúp og hátt í loft upp, urðu menn skelfdir við sjón þessa og tóku til fóta og fararskjóta innfyrir leiti til að sjá betur hvurju sætti. Sáu þeir hvar reykjarmökkur þessi kom úr Borgarey en þar var enginn búskapur og því engin töðuhlaða. Lá þá beint við að ætla presti fyrirætlan um að leggja út frá logum vítis í ræðu sinni. Ég lýsti gjörðum þessum á hendur mér í fjölmiðlum nokkru seinna.

Borgareyjar ragnarök

ráku fólk úr messu

Eldklerkurinn enga sök

átti á báli þessu.

Eyna sveið hann sonurinn

sótugur í framan

ægihratt fór eldurinn

ósköp var það gaman.

Auglýsing

Hnjótur í Örlygshöfn: sýningin Eldblóm opnuð í dag

Sýningin Eldblóm verður opnuð í dag kl 17 á Minjasafninu að Hnjóti í Örlygshöfn. Sýningin var fyrst sett upp á Hönnunarmars í fyrra á Hönnunarsafni Íslands.

Safnasjóður og Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkja uppsetningu sýningarinnar.

Það verða börn frá sunnanverðum Vestfjörðum sem opna sýninguna með verki sem þau hafa unnið.

Auglýsing

Oddfellowstúkurnar Ísafirði: gáfu 20 m.kr. til kaupa á tækjum og búnaði

Fjölmargir voru viðstaddir afhöfnina í Oddfellow húsinu í gær. Hér sést hluti viðstaddra.

Í gær var haldin fjölmenn athöfn í húsakynnum Oddfellow stúkanna tveggja á Ísafirði þar sem afhentir voru styrkir og gjafir að fjárhæð 20 m.kr. úr styrktar og líknarsjóði Oddfellow til kaupa á tækjum og búnaði á starfssvæðinu.  Karlastúkan heitir Gestur og kvennastúkan Þórey. Alls eru um 150 manns félagar í stúkunum og þó mun fleiri í kvennastúkunni. Stjórnir beggja stúkna voru strax sammála um það að styrkurinn mundi dreifast á sem flesta staði og fóru þeir um alla Vestfirði. Það voru yfirmeistarar hvorrar stúku sem sáu um afhendinguna, Ingólfur Þorleifsson og Helga Birna Jónsdóttir.

Meðal styrkveitinga voru vegalegar gjafir til hjúkrunarheimila og heilsugæslu, Vesturafls, slökkviliðs, skóla, líkamsræktar, Rauða krossins og björgunarsveita.

Listi yfir styrkina:

Heilsugæslustöðin á Ísafirði tvö  Afinion 2 CRP mælitæki kr. 1.670.000

Fimm loftdýnur til að auðvelda hjúkrunarfólki að snúa rúmliggjandi sjúklingum – Hjúkrunarheimilið Eyri þrjár loftdýnur – Hjúkrunarheimilið Berg ein loftdýna og Hjúkrunarheimilið Patreksfirði ein loftdýna – kr. 2.010.000

Hlíf íbúðir eldriborgara – Snjóblásari til að auðvelda aðgengi að húsinu fyrir íbúa og þá sem sækja þangað félagsstarf kr. 300.000

Dvalarh. aldraðra Þingeyri – Tvo  Lazyboy stóla  kr. 480.000

Vesturafl – 75“ sjónvarp og festing til að hengja það upp og hjartastuðtæki – kr. 243.800 +355.000 =kr. 598.800

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar – 8 x CPC eiturefnagalla og 15 x PAB fire hjálma með ljósi  kr. 2.100.000

Menntaskólinn Ísafirði –  Tvo gagnvirka snertiskjái  fyrir Starfsbraut og Lista og nýsköpunarbraut kr. 1.300.000

Tónlistarskólinn Ísafirði – 6 x biðbekkir á gang fyrir nemendur  kr. 432.000

Félagsmiðstöð Grunnskólans á Ísafirði – Hjartastuðtæki kr.355.000

Grunnskólinn á Ísafirði Bassabox -hátalarar mixer og  hljóðkerfi +hjartastuðtæki Kr 1.190.000

Grunnsk. Suðureyri – hjartastuðtæki kr. 355.000

Golfskálinn á Ísafirði hjartastuðtæki kr. 355.000

Grunnskólinn á Þingeyri, hjartastuðtæki kr. 355.000

Grunnskólinn á Flateyri,hjartastuðtæki kr. 355.000

Stöðin Heilsurækt, hjartastuðtæki kr. 355.000

Vestri körfubolti v/verkefnisins allir með  – Veo cam til upptöku kr. 350.000

R.K.I. Vestfjörðum 2 x Tetra talstöðvar og 2 x hljóðnemar í þær  kr. 302.000

Haft var samband við allar björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum og þær spurðar um hvað væri mest þörf fyrir hjá þeim.

17 björgunar/flotgallar voru keyptir upp á kr. 4.500.000  og dreifðust þeir niður á  eftirtaldar björgunarsveitir

-Björgunarsv. Tálkni Tálknafirði

-Björgunafélag Ísafjarðar –  2 galla

-Björgunarsv. Björg Suðureyri –

-Björgunarsv. Hjálp/Ernir Bolungarvík –

-Björgunarsv. Kofri Súðavík –

-Björgunarsv. Tindar – 2 galla

-Björgunarsv. Björg Dranganesi –

-Björgunarsv. Dagrenning Hólmavík –

-Björgunarsv. Blakkur Patreksfirði

-Björgunarsv. Strandasól Árness.

-Björgunarsv. Bræðrabandið Rauðasandi  

-Björgunarbátasjóður Ísafirði 2 galla

-Björgunarbátasjóður Barðastrandarsýslu 2 galla

Svo fengu eftirtaldar björgunarsveitir aðra hluti sem þá vantaði.

-Björgunarsv. Kópur Bíldudal –  12 fjallaöryggishjálmar og 12 keðjubroddar fyrir leit á fjöllum kr. 249.000

-Björgunarsv. Dýri Þingeyri – öryggishjálmar + headsett kr. 150.000

-Björgunarsv. Sæbjörg Flateyri – VHF talstöð eða hjálma 2 kr. 200.000

-Björgunarsveitin Heimamenn Reykhólum – SXS GPS leiðsögutæki með korti = Kr. 249.000

-Björgunarsveitin Lómafell Brjánslæk– 2 Tetra stöðvar og tengingar í þær kr. 280.000

Ingólfur og Helga afhenta fulltrúum Menntaskólans á Ísafirði styrki. Það voru Heiðrún Tryggvadóttir og Martha Kristín Pálmadóttir sem veittu þeim viðtöku.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Auglýsing

Ísafjörður: Stígamót á staðinn

Ráðgjafi frá Stígamótum mun mæta á staðinn einu sinni í mánuði og taka viðtöl fram á haust. Bæði þolendur og aðstandendur eru hjartanlega velkomin. Viðtölin eru þeim að kostnaðarlausu. Vinsamlegast hafið samband í netfangið gudrung@stigamot.is eða í síma 562-6868.

Auglýsing

Hvest: vantar fólk í 79 stöðugildi

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði.

Fram kemur í greiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að það er verulegur skortur á eftirfarandi heilbrigðisstéttum á svæðinu. Samtals eru talin upp 79 stöðugildi. Þar af eru 44 stöður hjúkrunarfræðinga og 8 stöður lækna:
 Heimilislæknar: 5 stöðugildi
 Lyflæknar: 2 stöðugildi
 Skurðlæknir: 1 stöðugildi
 Geislafræðingar: 3 stöðugildi (70% starfshlutfall)
 Lífefnafræðingar: 3 stöðugildi
 Ljósmæður: 3 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar -skurðhjúkrun: 4 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – svæfing: 2 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – heimahjúkrun, heilsugæsla, sjúkradeildir: 14 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – heilsugæsla/heimahjúkrun/stoðdeildir: 20 stöðugildi
 Hjúkrunarfræðingar – hjúkrunarheimili: 4 stöðugildi

 Sjúkraliðar – hjúkrunarheimili : 12 stöðugildi

Sálfræðingar: 3 stöðugildi
 Sjúkraþjálfarar: 3 stöðugildi

ívilnun á endurgreiðslu námslána

Þetta kemur fram í erindi sveitarfélaganna þriggja við Ísafjarðardjúp til Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins, sem dagsett er 28. apríl 2025.

Sveitarfélögin fara fram á að ráðuneytið beiti heimild sinni til að veita sérstakar tímabundnar ívilnanir í formi endurgreiðslu námslána vegna sérgreina heilbrigðisstarfsfólks, með það að markmiði að bæta mönnun og tryggja heilbrigðisþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum.

Heimild er til þess í 28. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna að veita þess háttar ívilnun við aðstæður sem sveitarfélögin telja að eigi nú við.


Auglýsing

Ísafjarðarbær: gjaldskrá í leikskóla hækkar

Leikskólinn Sólborg.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd leggur til að fyrir næsta skólaár, 2025-26, hækki tímagjald leikskóla og máltíðir um 4% en leggur jafnframt áherslu á að rukkað er fyrir 204 skóladaga. Áfram verður greitt sérstaklega fyrir skráningardaga.

Nefndin leggur einnig til að gjaldskrá fyrir skólamat verði breytt á þann veg að þar standi „Í öllum grunnskólum Ísafjarðarbæjar er boðið upp á hressingu á morgnanna og hádegismat, án endurgjalds.“

Framangreindum tillögum verður vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Auglýsing

Nýjustu fréttir