Ferðamynstur á norðanverðum Vestfjörðum

Lilja Guðríður Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur, fjallar í Vísindaporti um ferðamynstur og vinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum.

Í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verða ferðavenjur íbúa á norðanverðum Vestfjörðum sérstaklega til skoðunar. Lilja Guðríður Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur, mun segja frá rannsóknarverkefni sínu þar sem hún skoðaði ferðamynstur og vinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum. Verkefnið vann Lilja á síðasta ári í gegnum fyrirtækið Viaplan en verkefnið var styrkt af Vegagerðinni og unnið í samstarfi við Innanríkisráðuneytið, Skipulagsstofnun og Byggðastofnun.

Niðurstöður verkefnisins sýna að langflestir vilja vinna nálægt heimili sínu sé þess kostur og mjög fáir eru tilbúnir að ferðast meira en 30 mín daglega til vinnu. Ennfremur sýndu niðurstöður að Ísafjörður er vinnusóknarsvæði fyrir flesta bæjarkjarnana í kring en Ísfirðingar sjálfir sækja hinsvegar fáir vinnu utan síns heimabæjar.

Lilja Guðríður Karlsdóttir er framkvæmdastjóri Viaplan, fyrirtækis sem sérhæfir sig í skipulagi samgangna.  Lilja er menntaður samgönguverkfræðingur frá Danmarks Tekniske Universitet og hefur unnið síðustu 14 árin við skipulag samgangna á Íslandi og í Danmörku. Stærstu verkefni síðustu ára hafa verið léttlestarkerfi í Óðinsvé og Árósum, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og Borgarlínuverkefni. Lilja hefur einnig einbeitt sér að samgönguskipulagi í mörgum af minni bæjum í Danmörku, t.d Billund, Ribe, Haderslev og Sønderborg.

Að vanda er Vísindaport opið öllum áhugasömum og það fer fram í hádeginu á föstudögum í sal Háskólasetursins.

DEILA