Suðupottur sjálfbærra hugmynda í Skóbúðinni

Gamla Skóbúð Leós sem nú hýsir hversdagssögusafnið Skóbúðina. Teikning: Marta Sif Ólafsdóttir.

Á miðvikudagskvöld fer fram skipulags- og vinnufundur í Skóbúðinni á Ísafirði fyrir verkefni sem hlotið hefur nafnið Suðupottur sjálfbærra hugmynda. Að baki verkefninu stendur áhugafólk um sjálfbærni og umhverfisvænan lífsstíl og vill það skapa vettvang þar sem fólk getur komið saman og rætt þau málefni ásamt því að leggja í púkkið hugmyndir um hvað íbúar Ísafjarðar og nágrennis geta tileinkað sér til að iðka megi slíkan lífsstíl með sem bestu móti.

Verkefnið mun standa fram í byrjun maímánaðar og verður hægt að koma við í Skóbúðinni mánudags til fimmtudagskvöld á milli klukkan 20 og 22. Þar geta gestir kynnt sér hvað aðrir í samfélaginu eru að gera, skoðað hugmyndir þeirra ásamt því að koma sínum eigin hugmyndum á framfæri og auðvitað fara saman í bland umræður um sjálfbærni og umhverfisvernd. Að sögn Hildar Dagbjartar Arnardóttur, sem leiðir verkefnið, munu eflaust spretta upp í kjölfarið vinnustofur, kynningarkvöld um ákveðin málefni ásamt framkvæmd einhverra hugmynda. Hún segir þó tímann leiða í ljós hvað íbúunum dettur í hug að gera á þessum stað sem er opinn fyrir öllu.

Á vinnufundinum sem hefst klukkan 20 á miðvikudagskvöld verður undirbúin opnun Suðupottsins sem fram fer á laugardag á milli klukkan 13 og 15. Allir áhugasamir um verkefnið eru velkomnir.

annska@bb.is

DEILA