Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2336

302 milljóna lántaka

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að taka 302 milljóna kr. lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lántakan er til að endurfjármagna hluta afborgana langra lána sveitarfélagsins hjá Lánasjóði sveitarfélaga á árinu 2017 að fjárhæð 100 milljónir króna, til að fjármagna gatnaframkvæmdir að fjárhæð 120 milljónir króna, framkvæmdir og endurbætur á skóla- og íþróttahúsnæði 59 milljónir króna og framkvæmdir við vatnsveitur og fráveitu 23 milljóna kr.

Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Fylgið hrynur af Bjartri framtíð og Viðreisn

Formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kæmu flokkum sínum ekki á þing, samkvæmt nýrri könnun.

Hvorki Björt Framtíð né Viðreisn kæmu manni á þing ef kosið væri nú, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-græn njóta langmest fylgis aðspurðra. Samkvæmt könnuninni, sem gerð var 20. og 21. mars, fengi Björt framtíð 3,8 prósent atkvæða en Viðreisn 3,1 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur flokka, 32.1 prósent þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja hann. Vinstri-græn eru skammt undan með 27,3% fylgi og Píratar fengju 14,5 prósent.

Samfylkingin er samkvæmt könnuninni komin upp fyrir Framsóknarflokkinn og 8,8 prósent aðspurðra segjast styðja Samfylkinguna en 7 prósent Framsókn. Hringt var í 1.242 manns samkvæmt slembiúrtaki úr þjóðskrá, uns samband hafði náðst við 791. Svarhlutfall var 63,7 prósent.

smari@bb.is

Auglýsing

Ísfirðingur í námunda við árásina í London

Kristinn Hermannsson

Ísfirðingurinn Kristinn Hermannsson, sem nú starfar sem lektor við háskólann í Glasgow, var staddur í breska þinghúsinu þegar árásin var gerð í nágrenni Westminster í London í gær. Í samtali við Vísi lýsir hann hvernig hann og hópur nemenda sem hann var með þar á ferð máttu bíða í fimm klukkustundir í þinghúsinu á meðan gengið var úr skugga um að öryggi þeirra væri ekki ógnað.

Kristinn og nemendahópurinn sem er í meistaranámi í menntun og stjórnsýslu voru að bíða eftir að fara á þingpallana í neðri deildinni, er þeim var sagt að þau gætu ekki farið neitt og áttu að bíða í nokkrar mínútur. Á meðan biðinni stóð birtust fréttir á sjónvarpsskjá í þinghúsinu um uppnám fyrir utan húsið. Í framhaldinu var þingfundi slitið og fóru þá að berast upplýsingar til þeirra um að árás hefði verið gerð.

Við tók um fimm klukkustunda bið. Í fyrstu biðu þau á þingpöllunum, í um klukkustund, en síðan var þeim smalað í sal í þinghúsinu þar sem þeim var sagt að halda kyrru fyrir. Hann segir þingstarfsfólkið hafa verið mjög faglegt og rólegt yfir fólki. Hugað var að þeim sem voru veikir fyrir og fólki gefið vatn á meðan biðinni stóð.

Hann segir biðina hafa verið bærilega og fólk hafi síður en svo óttast um öryggi sitt. „Ég held að margir hafi hugsað með sér að þetta væri örugglega öruggasti staðurinn í London í dag að vera þarna inni með allt þetta öryggisprógramm.“

Meira um dag Kristins og nemenda hans má lesa hér.

annska@bb.is

 

Auglýsing

Vindasamt næstu daga

Frá fimmtudegi til laugardags er útlit fyrir að lengst af verði hvassviðri eða stormur á landinu. Skiptist á sunnanátt með rigningu og hlýindum annars vegar og hins vegar svalari suðvestanátt með éljum eða skúrum. Í spá Veðurstofu Íslands fyrir Vestfirði í dag er búist við hlýnandi veðri með sunnan 15-23 m/s, sem fylgir slydda eða rigning. Vindur snýst í ívið hægari suðvestanátt síðdegis með smáskúrum, en 15-23 seint í kvöld með éljum og fer að kólna aftur. Hægari í fyrramálið, en sunnan 10-18 m/s með rigningu annað kvöld og þá hlýnar að nýju.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum á Vestfjörðum  og víða skafrenningur á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing

Skemmtikvöld Lions haldið á Hlíf

Skemmtikvöld Lionsklúbbsins. Mynd úr safni.

Á föstudagskvöld verður árlegt skemmtikvöld Lions haldið á Hlíf. Skemmtikvöldið sem hefur verið haldið allar götur frá því er Hlíf tók til starfa, hefur verið vel tekið af íbúum og segir Bjarndís Friðriksdóttir formaður Lionsklúbbs Ísafjarðar skemmtikvöldin veita félagsmönnum ómælda ánægju. Á skemmtikvöldinu verður veglegt kaffihlaðborð og skemmtidagskrá, þar sem Benni Sig mun meðal annars troða upp. Þá verður spilað bingó og hafa fyrirtæki í bænum lagt til fjölda glæsilegra vinninga og má meðal annars krækja sér þar í flugferð með Flugfélagi Íslands.

Skemmtikvöldið verður sem áður segir föstudaginn 24.mars og hefst það klukkan 19.30.

annska@bb.is

Auglýsing

Færðu hjúkrunarheimilinu lyfjadælu

Kvenfélagið Brautin í Bolungarvík afhenti á dögunum hjúkrunarheimilinu Bergi lyfjadælu að gjöf. Lyfjadælan er stafræn og eykur öryggi og þægindi í lyfjagjöfum fyrir sjúklinga. Kvenfélagið hefur í gegnum árin stutt ötullega við bakið á hjúkrunarheimilinu Bergi, áður Skýlinu, meðal annars hefur félagið gefið loftdýnu sem eykur til muna þægindi hjá langlegusjúklingum.

Á myndinni eru þær Fjóla Bjarnadóttir, Sóley Sævarsdóttir, Sólveig Sigurðardóttir, Sigrún Waltersdóttir formaður kvenfélagsins og Hildur Elísabet Pétursdóttir.

smari@bb.is

Auglýsing

List fyrir alla auglýsir eftir verkefnum

Frá dansverkinu Óður og Flexa halda afmæli sem sýnt var í Edinborgarhúsinu

List fyrir alla auglýsir nú eftir umsóknum um listviðburði eða verkefni á sviði barnamenningar fyrir grunnskólabörn. List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem ætlað er að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Starfandi listamenn sem og stofnanir og aðrir lögaðilar er sinna barnamenningu á einhvern hátt geta sótt um. Umsóknarfrestur er til 29. mars nk.

Í List fyrir alla leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er og hefur útfærsla verið með ýmsu móti. Börn á á norðanverðum Vestfjörðum hafa til að mynda fengið að njóta ávaxta verkefnis síðustu ár með því að bera augum dansverkið um Óð og Flexu og leiksýninguna um lofthrædda örninn Örvar. Meðal þess sem verkefnið felur í sér eru listviðburðir í skóla og menningarhúsum, listamannadvöl í skóla, að taka listamann í fóstur og stafrænt samstarf við listastofnanir.

Valnefnd metur umsóknir og gildi þeirra með hliðsjón af því hvernig þær falla að markmiðum verkefnisins List fyrir alla. Listviðburðir og verkefni skulu í öllum tilvikum vera unnin af metnaði og af fagfólki. Umsækjendum sækja um á rafrænu formi á heimasíðu List fyrir alla undir Umsókn.

annska@bb.is

Auglýsing

Umfjöllun um Bræðratungu í Kastljósi í kvöld

Í Kastljósi kvöldsins á RÚV mun verða rætt við Guðmund Halldórsson skipstjóra um veru Halldóru dóttur hans á vistheimilinu Bræðratungu á Ísafirði. Halldóra sem er með Downs heilkennið dvaldi þar um árabil og segir Guðmundur að hún hafi þar verið beitt ofbeldi og þvingunum.

Vistheimilinu Bræðratungu var lokað haustið 2004 en hafði þá verið í rekstri í um 20 ár. Áherslur í umönnun og aðbúnaði fatlaðra hafði þá breyst og færst frá því að safna fötluðum saman á einn stað, oft í sparnaðarskyni, yfir í að gera þeim kleift að lifa sjálfstætt og innan um annað fólk.

Frá því að meðferð á drengjunum sem vistaðir voru í Breiðuvík komst í hámæli hefur hver stofnunin á fætur annarri sætt rannsókn, nú síðast Kópavogshæli þar sem upplýst hefur verið um gróft ofbeldi.

Haft var eftir Jóni Þorsteini Sigurðssyni, réttargæslumanni fatlaðra á Vesturlandi og Vestfjörðum, í blaðinu Vestfirðir á dögunum að hann hefði fengið fjölda ábendinga um illa meðferð fatlaðra einstaklinga á Bræðratungu. Jón segist hafa fengið nákvæmar lýsingar sem bendi til þess að íbúar hafi verið beittir nauðung, þvingunum og refsingum. Hann telur eðlilegt að rekstur Bræðratungu verði rannsakaður og hafi eitthvað misjafnt átt sér stað eigi vistmenn Bræðratungu rétt á sanngirnisbótum, rétt eins og íbúar á Kópavogshæli.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Ljósleiðaravæðing í Reykhólahreppi

Reykhólar.

Á dögunum boðaði sveitarstjórn Reykhólahrepps til íbúafundar þar sem áform um ljósleiðaravæðingu hreppsins var kynnt. Til stendur að leggja tæpa 74 km af ljósleiðara og tengja hann á tæpum 80 stöðum og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 80 milljónir króna. Hreppurinn hefur fengið framlag vegna framkvæmdanna frá verkefninu Ísland ljóstengt og til viðbótar sérstakan byggðastyrk en kostnaður sveitarfélagsins er áætlaður 35 milljónir. Þetta kemur fram á vef Reykhólahrepps.

Reiknað er með að ljúka verkinu á þessu ári.

Ísland ljóstengt er opinbert átaksverkefni um byltingu í bættum fjarskiptum og markmiðið er að 99,9% heimila og fyrirtækja á landinu hafi innan fárra ára aðgengi að 100 Mb/s þráðbundinni tengingu.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Íbúasamráð í Ísafjarðarbæ

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Á laugardaginn efnir Ísafjarðabær til málþings um íbúasamráð, það er haldið í Edinborgarhúsinu og er öllum opið. Fyrsta mál á dagskrá er erindi bæjarstjórans Gísla Halldórs Halldórssonar þar sem hann fjallar um aðkomu íbúa og tilgreinir sérstaklega sundhallir og reiðskemmur. Í ljósi undangenginna umræðna og að frétt um vinningstillögu vegna breytinga á Sundhöll Ísafjarðar er mest lesna fréttin á vef bb.is frá áramótum má reikna með að mikil áhugi sé á erindinu.

Á þinginu munu fulltrúar úr hverfisráðum sveitarfélagsins lýsa reynslu sinni af þessu nýja fyrirkomulagi. Anna Björnsdóttir sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fer yfir hvers vegna og hvernig best sé að haga íbúasamráði og Nicole Leigh Musty, formaður Hverfisráðs Breiðholts segir frá íbúalýðræði í Reykjavík.

Að loknu hádegishléi verða svo vinnustofur þar sem verkefnið er að finna leiðir til að bæta íbúasamráð og styrkja hverfisráðin.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir