List fyrir alla auglýsir eftir verkefnum

Frá dansverkinu Óður og Flexa halda afmæli sem sýnt var í Edinborgarhúsinu

List fyrir alla auglýsir nú eftir umsóknum um listviðburði eða verkefni á sviði barnamenningar fyrir grunnskólabörn. List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem ætlað er að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Starfandi listamenn sem og stofnanir og aðrir lögaðilar er sinna barnamenningu á einhvern hátt geta sótt um. Umsóknarfrestur er til 29. mars nk.

Í List fyrir alla leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er og hefur útfærsla verið með ýmsu móti. Börn á á norðanverðum Vestfjörðum hafa til að mynda fengið að njóta ávaxta verkefnis síðustu ár með því að bera augum dansverkið um Óð og Flexu og leiksýninguna um lofthrædda örninn Örvar. Meðal þess sem verkefnið felur í sér eru listviðburðir í skóla og menningarhúsum, listamannadvöl í skóla, að taka listamann í fóstur og stafrænt samstarf við listastofnanir.

Valnefnd metur umsóknir og gildi þeirra með hliðsjón af því hvernig þær falla að markmiðum verkefnisins List fyrir alla. Listviðburðir og verkefni skulu í öllum tilvikum vera unnin af metnaði og af fagfólki. Umsækjendum sækja um á rafrænu formi á heimasíðu List fyrir alla undir Umsókn.

annska@bb.is

DEILA