Miðvikudagur 30. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2322

Stækka Hólabúð

Ása og Reynir í Hólabúð.

Nú er undirbúningur hafinn að stækkun húsnæðis Hólabúðar á Reykhólum. Verslunin og veitingasalan hjá hjónunum Ásu Fossdal og Reyni Þór Róbertssyni er í frekar knöppu rými, svo ekki sé meira sagt, en nú sjá þau fram á bjartari tíma með mun betri vinnuaðstöðu. Á Reykhólvefnum segir að í sveitinni hafi verið spaugað með að þarna sé minnsti veitingastaður norðan Alpafjalla, með eitt fjögurra manna borð, en ekki hefur það komið niður á afgreiðslunni þó gestirnir væru fleiri en fjóri. Eftir stækkunina verður eiginlegur veitingastaður settur upp í Hólabúð þar sem áhersla verður lögð á mat úr héraði, og er það við hæfi þar sem Reykhólar eru við mestu matarkistu landsins.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Gefa bílbeltanotkun sérstakan gaum

Aldrei er of oft minnt á mikilvægi þess að ökumenn og farþegar noti öryggisbelti, og börn viðeigandi öryggisbúnað. Ekki síður að ökumenn einbeiti sér að akstrinum og noti ekki farsíma í akstir nema þá með handfrjálsum búnaði. Vegna þessara sjálfsögðu öryggisþátta, ætlar lögreglan á Vestfjörðum að gefa þessum þáttum sérstakan gaum næstu daga og vikur í það minnsta. „Þetta snýst fyrst og fremst um umferðaröryggi gott fólk. Engu máli skiptir hvort verið sé að aka styttri eða lengri leiðir,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vonast eftir Páli seinnipartinn í sumar

Páll í skipasmíðastöðinni í Kína fyrir mánuði síðan.

Vonir standa til að nýr Páll Pálsson ÍS komi til heimahafnar á Ísafirði í sumar. Þegar Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. tilkynnti nýsmíðin í júní 2014 var gert ráð fyrir að smíðin tæki 18 mánuði. „Þetta hefur dregist mikið og við vonum að hann komi seinnipart sumars,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG. Páll er smíðaður í Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína eins og systurskipið Breki VE sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Einar Valur segir að smíðin á Breka og Páli sé á sama róli.

Síðustu daga hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúa Pál fyrir reynslusiglingu í Kína.

Þegar Páll verður tilbúinn úti í Kína tekur við löng heimsigling sem Einar Valur segir að taki líklega meira en 40 daga. Siglt verður yfir Kyrrhafið og um Panamaskurðinn, sömu leið og núverandi Páll sigldi fyrir rúmum 40 árum þegar hann kom nýr frá Japan.

Breki og Páll er 50,7 metrar að lengd og 12,8 metra breiðir. Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokkum skipanna og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa, er áætlað að þau hafi um 60% meiri veiðigetu en þau skip sem þau leysa af hólmi án þess að eyða meiri olíu. Þá verða skipin búin þremur rafdrifnum togvindum og geta því dregið tvö troll samtímis.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tekið að krauma í Suðupottinum

Hildur ræðir við áhugasama gesti í opnuninni á laugardag. Mynd: Vaida Bražiūnaitė

Suðupottur sjálfbærra hugmynda er verkefni sem nú er í fullum gangi í Skóbúðinni á Ísafirði. Gestir og gangandi geta rekið inn nefið hvenær sem er á opnunartíma Suðupottsins, þar sem sjálfboðaliðar sem áhugasamir eru um sjálfbæran lífsstíl og umhverfisvernd í verki standa vaktina. Þar má skoða það sem er í gangi eða jafnvel bæta við eigin framlagi. Opnunardagur var á laugardag og létu margir sjá sig til að ljá verkefninu lið. Í Skóbúðinni er búið að koma fyrir allra handa listum þar sem gestir geta skráð hvað verið er að gera undir formerkjum sjálfbærni í fjölda málaflokka sem snúa að bæði að heimilinu og samfélaginu í heild, t.d. í sorpmálum og orkumálum. Gestir geta bæði skráð það sem þeir gera sjálfir sem og verkefni á annarra vegum sem hafa tekist vel til.

Hildur Dagbjört Arnardóttir er forsprakki verkefnisins og segir hún það mikilvægt að vekja fólk til vitundar um umhverfismál og eigin ábyrgð í þeim efnum. Hún segir þó það vera mikilvægt að temja sér umburðarlyndi í garð fólks sem fetar sig eftir stundum torförnum slóðum í átt að sjálfbærri lífsstíl og það sé eðlilegt í nútímasamfélagi að fólk velji að taka ekki allar barátturnar í einu heldur velji sér flokka sem það telur sig með góðu móti geta fylgt, sumir aðhyllist bíllausum lífsstíl, sumir taki sorpmálin föstum tökum, aðrir taki á matarsóun og neysluvitund og enn aðrir hugi að því að fá sem flest úr héraði svo einhver dæmi séu tekin. Hildur segir að fólk skammist sín stundum fyrir að vera ekki fullkomlega búið að ná tökunum í mörgum flokkum, en hún segir enga ástæðu til þess:

Frá opnun Suðupottsins á laugardaginn. Mynd: Vaida Bražiūnaitė

„Fyrst er hugsunin, við erum hugsandi áður en við erum gerandi. Suðupotturinn er einmitt staður þar sem þeir sem eru að spá og spekúlera hver í sínu horni geta komið saman og rætt sín hugðarefni, eða vangaveltur – og þá fengið hugmyndir og lausnir hjá öðrum.“

Í Suðupottinum eru teknar að krauma allra handa hugmyndir um hvernig fólk getur bætt við umhverfisvernd í verki, eins og með þátttökuverkefni í taupokagerð, kortlagningu afurða sem framleiddar eru á svæðinu, ásamt því sem ýmsir viðburðir eru í burðarliðnum, bíókvöld, kynning á sorpflokkun og fleira slíkt. Hildur Dagbjört segir að þó að hún hafi komið verkefninu af stað sjái hún fyrir sér að boltanum hafi verið varpað áfram og nú taki þátttakendur hann áfram og spreyti sig á eigin verkefnum í anda málefnisins.

Með Suðupottinum er einnig hugsað að gestir geti sest niður með kaffibolla, skipulagt eigin verkefni, sjálfir eða með öðrum, af hvaða stærðargráðu sem er – í sínu persónulega lífi eða eða fyrir samfélagið. Suðupotturinn er opinn mánudags- fimmtudagskvöld frá klukkan 20-22 og á laugardögum frá klukkan 13-15. Hann er til húsa í Skóbúðinni sem stendur við Hafnarstræti á Ísafirði og áður hýsti Skóbúð Leós.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hópmálsókn gegn laxeldinu fær ekki flýtimeðferð

Jón Steinar Gunnlaugsson. Mynd: Sigtryggur Ari / DV.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði beiðni Jón Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns um flýtimeðferð á stefnu málsóknarfélagsins Náttúruverndar 1 á hendur Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi hf. á Bíldudal. Málsóknarfélagið krefst þess að veiting rekstrar- og starfsleyfis fyrir 10 þúsund tonna laxeldi í Arnarfirði verði ógilt. Leyfin voru veitt síðasta sumar. Jón Steinar taldi  umbjóðanda sinn hafa mikla viðskiptahagsmuni af því að leyst yrði hratt úr málinu. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Ingimundur Einarsson dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði beiðni Jóns Steinars með þeim rökum að engin gögn hafi fylgt málinu en í samtali við fréttstofu RÚV segir Jón Steinar að hann hafi sent lista með skjölum málsins og beðið Ingimund að velja velja úr listanum þau skjöl sem hann þyrfti til að taka afstöðu til flýtimeðferðarinnar.

„Þá afgreiðir hann bara erindið og synjar um útgáfu bæði stefnunnar og flýtimeðferðarinnar vegna þess að það hafi engin skjöl fylgt, sem er algjörlega fráleit afgreiðsla. Ég var nú aðallega að hlífa honum með því að senda ekki allan skjalabunkann með,“ er haft eftir Jóni Steinari.

Viðbrögð Jóns Steinars við synjuninni og tölvupóstsamskipti hans við Ingimund urðu til þess að Ingimundur sendi Lögmannafélagi Íslands erindi vegna samskiptanna. Að mati Lögmannafélagsins braut Jón Steinar gegn siðareglum lögmanna með tölvupóstsendingum sínum. Búið er að vísa málinu til úrskurðarnefndar lögmanna. Sjá nánar á vef RÚV.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Jarðarstund fagnað á Vestfjörðum sem víðar

Jarðarstund verður á laugardagskvöldið, en henni er ætlað að hvetja íbúa heims til aðgerða gegn loftlagsbreytingum með því að slökkva ljósin í eina klukkustund. Náttúruverndarsamtökin World Wildlife Fund skipulögðu Earth Hour eða jarðarstund í fyrsta sinn árið 2007 með því er íbúar Sydney í Ástralíu slökktu ljósin hjá sér. Jarðarstundin fagnar því 10 ára afmæli í ár og taka nú þátt íbúar 7000 borga og bæja í 178 löndum, sem gerir viðburðinn að einu fjölmennasta samstillta einstaklingsátaki á sviði umhverfisvakningar í heiminum. Flest sveitarfélög á Vestfjörðum taka þátt í jarðarstundinni í ár en einstaklingar, félög, borgir og bæir geta skráð þátttöku á earhhour.org.

Vestfirðingar eru hvattir til að taka þátt í Jarðarstundinni og kveikja ekki á rafmagnsljósum milli kl. 20:30 og 21:30 laugardaginn 25. mars og segir í tilkynningu kjörið að nota stundina til að njóta myrkursins, skoða stjörnurnar, kveikja á kertum og íhuga hvað gera má til að bæta umhverfið og vinna gegn loftslagsbreytingum.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

1.200 milljónir til vegamála

Það er ávallt gleðiefni þegar vegir eru lagfærðir.

Rík­is­stjórn­in hef­ur samþykkt að veita 1200 millj­ón­um til viðbót­ar til vega­mála. Meðal verk­efna sem ráðist verður í á grund­velli þess­ara fjár­muna verða verk­efni í Beru­fjarðar­botni, Detti­foss­veg­ur, Kjós­ar­sk­arðsveg­ur, Uxa­hryggja­veg­ur, Skóg­ar­stranda­leið,  og verk­efni við Horna­fjarðarfljót. Eftir því sem kemur fram á mbl.is bólar ekkert á framkvæmdafé til vegagerðar í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Bæði verkefnin voru á samgönguáætlun þessa árs, en voru skorin niður.

Jón Gunn­ars­son sam­gönguráðherra til­kynnti þetta eft­ir rík­is­stjórn­ar­fund í dag en þá höfðu blaðamenn verið boðaðir í ráðherra­bú­staðinn.

Uppfært: Samkvæmt nýjustu upplýsingum kemur fjármagn til framkvæmda í Gufudalssveit að því gefnu að öll leyfi fáist á þessu ári.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Unglingaflokkurinn á sviðið

Hinrik Guðbjartsson og félagar í unglingaflokki verða í eldlínunni um helgina. Hinrik var á dögunum valinn besti og efnilegasti leikmaður meistaraflokks tímabilið 2016-2017.

Þótt keppnistímabili meistaraflokks karla í körfubolta sé lokið er unglingaflokkur enn að í Íslandsmótinu. Unglingaflokkur er skipaður leikmönnum 21 árs og yngri, en að stórum hluta skipa liðið leikmenn meistaraflokks. Um helgina leikur flokkurinn tvo heimaleiki. Á laugardag mæta Þórsarar frá Akureyri og fer leikurinn fram kl. 18:30. Á sunnudag mæta Snæfellingar til leiks og fer sá leikur fram kl. 16:00.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Orkubúið ekki verið afskipt

Orkubú Vestfjarða hefur ekki verið afskipt þegar kemur að veitingu rannsóknarleyfa vegna vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns VG í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rafney spurði ráðherra meðal annars að því hvers vegna einkaaðilar hafi fengið öll rannsóknarleyfi vegna sex hugsanlegra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, en ekki Orkubú Vestfjarða sem er eina orkufyrirtækið í almannaeigu á Vestfjörðum. Í svari ráðherra kemur fram að rannsóknarleyfi eru veitt af Orkustofnun á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum. Orkubúið eins og önnur orkufyrirtæki starfa á grundvelli raforkulaga  þar sem kveðið er á um að samkeppni skuli gilda á raforkumarkaði og Orkubúið nýtur ekki samkvæmt lögum forgangs til rannsóknar- eða virkjunarleyfa á Vestfjörðum.

Í svari ráðherra kom fram að Orkustofnun hefur veitt Orkubúi Vestfjarða eftirfarandi rannsóknarleyfi undanfarin tvö ár:

  • Rannsóknarleyfi vegna áætlana um 6,8 MW virkjun í Mjólká (Mjólká VI – virkjun vatna á aðrennslissvæði Skötufjarðar til Mjólkár), dags. 29. ágúst 2016.
  • Rannsóknarleyfi vegna áætlana um 20 MW Glámuvirkjun á vatnasviði í Kjálkafirði, Vattarfirði og Ísafirði, dags. 29. ágúst 2016.
  • Rannsóknarleyfi með landeiganda vegna áætlana um virkjun Hafnardalsár á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp í Strandabyggð, dags. 15. ágúst 2015.

Í svari Þórdísar Kolbrúnar er ekki tekið undir það mat Lilju Rafneyjar að Orkubúið hafi orðið afskipt hvað varðar veitinug rannsóknarleyfa, með vísan til ofangreindra rannsóknarleyfa.

„Orkubú Vestfjarða starfar á samkeppnismarkaði raforkuframleiðslu, eins og önnur orkufyrirtæki, og nýtur sama réttar og önnur fyrirtæki á grundvelli raforkulaga og auðlindalaga. Ekki er kunnugt um að Orkubúi Vestfjarða hafi verið neitað um veitingu rannsóknarleyfis,“ segir í svari Þórdísar Kolbrúnar.

Rannsóknarleyfi felur í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar og fylgja að öðru leyti þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögunum og Orkustofnun telur nauðsynlega. Rannsóknarleyfi felur ekki í sér heimild til virkjunar eða annarrar auðlindanýtingar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Harmonikkuball í Edinborg

Mynd úr safni.

Á sunnudag verður harmonikkuball í Edinborgarhúsinu. Ballið er upp á gamla mátann, þar sem dansað er um miðjan dag og boðið upp á dýrindis kaffiveitingar í hléi. Rauði krossinn á Vestfjörðum stendur fyrir dansleiknum í samstarfi við Menningarmiðstöðina Edinborg og eru það sjálfboðaliðar sem leggja til vinnu sína við undirbúning og framkvæmd. Hafa eldri borgarar verið liðtækir í sjálfboðaliðahópnum og segir Bryndís Friðgeirsdóttir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum að án þeirra væri auðvitað ekkert harmonikkuball, sem hún segir alls ekki mega vanta í skemmtanaflóruna á Ísafirði.

Harmonikkuböllin hafa nú verið haldin í áraraðir með dúndrandi fjöri. Að þessu sinni er það Stefán Jónsson sem leikur fyrir dansi og er frítt inn. Bryndís hvetur fólk á öllum aldri til að skella sér á ball og fá sér snúning á sunnudaginn milli kl. 14 og 16.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir