Hópmálsókn gegn laxeldinu fær ekki flýtimeðferð

Jón Steinar Gunnlaugsson. Mynd: Sigtryggur Ari / DV.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði beiðni Jón Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns um flýtimeðferð á stefnu málsóknarfélagsins Náttúruverndar 1 á hendur Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi hf. á Bíldudal. Málsóknarfélagið krefst þess að veiting rekstrar- og starfsleyfis fyrir 10 þúsund tonna laxeldi í Arnarfirði verði ógilt. Leyfin voru veitt síðasta sumar. Jón Steinar taldi  umbjóðanda sinn hafa mikla viðskiptahagsmuni af því að leyst yrði hratt úr málinu. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Ingimundur Einarsson dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði beiðni Jóns Steinars með þeim rökum að engin gögn hafi fylgt málinu en í samtali við fréttstofu RÚV segir Jón Steinar að hann hafi sent lista með skjölum málsins og beðið Ingimund að velja velja úr listanum þau skjöl sem hann þyrfti til að taka afstöðu til flýtimeðferðarinnar.

„Þá afgreiðir hann bara erindið og synjar um útgáfu bæði stefnunnar og flýtimeðferðarinnar vegna þess að það hafi engin skjöl fylgt, sem er algjörlega fráleit afgreiðsla. Ég var nú aðallega að hlífa honum með því að senda ekki allan skjalabunkann með,“ er haft eftir Jóni Steinari.

Viðbrögð Jóns Steinars við synjuninni og tölvupóstsamskipti hans við Ingimund urðu til þess að Ingimundur sendi Lögmannafélagi Íslands erindi vegna samskiptanna. Að mati Lögmannafélagsins braut Jón Steinar gegn siðareglum lögmanna með tölvupóstsendingum sínum. Búið er að vísa málinu til úrskurðarnefndar lögmanna. Sjá nánar á vef RÚV.

smari@bb.is

DEILA