Orkubúið ekki verið afskipt

Orkubú Vestfjarða hefur ekki verið afskipt þegar kemur að veitingu rannsóknarleyfa vegna vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns VG í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rafney spurði ráðherra meðal annars að því hvers vegna einkaaðilar hafi fengið öll rannsóknarleyfi vegna sex hugsanlegra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, en ekki Orkubú Vestfjarða sem er eina orkufyrirtækið í almannaeigu á Vestfjörðum. Í svari ráðherra kemur fram að rannsóknarleyfi eru veitt af Orkustofnun á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum. Orkubúið eins og önnur orkufyrirtæki starfa á grundvelli raforkulaga  þar sem kveðið er á um að samkeppni skuli gilda á raforkumarkaði og Orkubúið nýtur ekki samkvæmt lögum forgangs til rannsóknar- eða virkjunarleyfa á Vestfjörðum.

Í svari ráðherra kom fram að Orkustofnun hefur veitt Orkubúi Vestfjarða eftirfarandi rannsóknarleyfi undanfarin tvö ár:

  • Rannsóknarleyfi vegna áætlana um 6,8 MW virkjun í Mjólká (Mjólká VI – virkjun vatna á aðrennslissvæði Skötufjarðar til Mjólkár), dags. 29. ágúst 2016.
  • Rannsóknarleyfi vegna áætlana um 20 MW Glámuvirkjun á vatnasviði í Kjálkafirði, Vattarfirði og Ísafirði, dags. 29. ágúst 2016.
  • Rannsóknarleyfi með landeiganda vegna áætlana um virkjun Hafnardalsár á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp í Strandabyggð, dags. 15. ágúst 2015.

Í svari Þórdísar Kolbrúnar er ekki tekið undir það mat Lilju Rafneyjar að Orkubúið hafi orðið afskipt hvað varðar veitinug rannsóknarleyfa, með vísan til ofangreindra rannsóknarleyfa.

„Orkubú Vestfjarða starfar á samkeppnismarkaði raforkuframleiðslu, eins og önnur orkufyrirtæki, og nýtur sama réttar og önnur fyrirtæki á grundvelli raforkulaga og auðlindalaga. Ekki er kunnugt um að Orkubúi Vestfjarða hafi verið neitað um veitingu rannsóknarleyfis,“ segir í svari Þórdísar Kolbrúnar.

Rannsóknarleyfi felur í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar og fylgja að öðru leyti þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögunum og Orkustofnun telur nauðsynlega. Rannsóknarleyfi felur ekki í sér heimild til virkjunar eða annarrar auðlindanýtingar.

smari@bb.is

DEILA