Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2110

Persónuafsláttur hækkar um áramót

Alþingi

Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 646.739 kr. fyrir árið 2018, eða 53.895 á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.859 kr. milli áranna 2017 og 2018, eða um 988 kr. á mánuði og nemur hækkunin 1,9%.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 151.978 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð, samanborið við 149.192 kr. á mánuði árið 2017. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 1,9%.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 249.514 kr. á mánuði árið 2018, samanborið við 244.940 kr. á mánuði árið 2017.

Tekjuskattur og útsvar í staðgreiðslu

Þrepamörk tekjuskatts uppreiknast samkvæmt lögum í upphafi ársins í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili (nóv. til nóv.) Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 7,1%. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 10.724.553 kr. árstekjur (893.713 kr. á mánuði) fyrir árið 2018.

Tekjuskattsprósentur eru óbreyttar frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.
Útsvar til sveitarfélaga er líkt og tekjuskattur innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 74 sveitarfélögum leggja 56 á hámarksútsvar.

Tryggingagjald er óbreytt milli ára.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Fannst látin

Í gærmorgun voru björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út til leitar að fullorðinni konu sem virðist hafa farið fótgangandi af dvalarstað sínum í Bolungarvík í nótt eða snemma í morgun.

Um hádegisbil fann björgunarsveitarfólk konuna við höfnina í Bolungarvík. Hún reyndist látin.

Andlát konunnar er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti en ekki er hægt að greina frá nafni hennar en fjölskyldu og nánustu ættmennum er kunnugt um andlátið.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Skaginn 3X semur við Varðinn Pelegic

Íslenska hátæknifyrirtækið Skaginn 3X og færeyska útgerðafélagið Varðin Pelagic hafa undirritað samning um vinnslubúnað fyrir nýja uppsjávarvinnslu færeyska fyrirtækisins. Vinnslan verður staðsett á Suðurey en um er að ræða þá stærstu sinnar tegundar í heiminum. Nýja vinnslan mun hafa afkastagetu fyrir allt að 1.300 tonn af pakkaðri vöru á sólarhring með möguleika til stækkunar allt að 1.700 tonnum á sólarhring.

Auk Skagans 3X koma fyrirtækin Frost og Rafeyri á Akureyri að verkinu ásamt fleiri íslenskum fyrirtækjum.

Skaginn 3X hafði áður sett upp heildarvinnslu fyrir Varðin Pelagic árið 2012, sem á sínum tíma var stærsta og fullkomnasta uppsjávarvinnsla í heiminum. Húsnæðið sem hýsti vinnsluna brann í júní síðastliðinn og síðan hefur Varðin Pelagic farið út í mikinn og nákvæman samanburð á lausnum til að geta byggt upp að nýju. „Það var skylda okkar að skoða alla kosti sem voru í boði og einnig að hlusta á kröfur viðskiptavina okkar og aftur höfum við komist að þeirri niðurstöðu að lausnin frá Skaganum 3X sé sú framúrskarandi lausn sem mætir okkar kröfum best“ segir Bogi Jacobsen, forstjóri Varðin Pelagic.

“Þetta er stærsti samningur í sögu fyrirtækisins og að mér vitandi, stærsti samningur sem íslenskt tæknifyrirtæki hefur gert“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdarstjóri Skagans 3X og bætir við „Það er mikil viðurkenning í því fólgin að Varðin hafi aftur valið okkur og er sönnun þess að okkar lausn er í senn áreiðanleg og framsækin“ segir Ingólfur.

Skaginn 3X hefur undanfarið gert fjölda samninga um nýjar lausnir í uppsjávariðnaði og má þar helst nefna uppsetningu á nýrri verksmiðju fyrir Eskju á Eskifirði, samning við France Pélagique um nýja kynslóð sjálfvirkrar vinnslu fyrir skip að auki samningsins við Varðin Pelagic. Allar þessar lausnir eru stór skref í framþróun á sjálfvirknivæðingu og bættum gæðum afurða. Vinnslan nýja er byltingarkennd heildarlausn fyrir uppsjávariðnaðinn þar sem sérstök áhersla er lögð á umhverfisvernd, skilvirkni og afurðagæði. “Fjölbreyttir möguleikar í framleiðslu og pökkun eru mikilvægir til að fullnýta auðlindir hafsins og til að mæta auknum kröfum markaðarins” segir Ingólfur.

Auglýsing

Oss börn eru fædd

Guðjón Brjánsson

Það er við hæfi nú fyrir jólahátíðina, sem oft er líka nefnd fæðingarhátíð frelsarans, að vekja athygli á aðbúnaði fæðandi kvenna á Íslandi. Að mörgu leyti eru aðstæður framúrskarandi á alþjóðlega vísu. Við eigum vel þjálfað fagfólk og mæðra- og ungbarnavernd almennt vel skipulögð. Frávikin er þó sláandi. Konur á landsbyggðinni búa við mjög skerta þjónustu að þessu leyti.
Undanhaldið hefur verið stöðugt mörg undanfarin ár og enginn viðsnúningur í augsýn.  Í nokkrum byggðarlögum er enga ljósmæðraþjónustu að hafa og meðgöngueftirlit veitt með afbrigðum. Einungis þrjár heilbrigðisstofnanir í landinu hafa nú viðbúnað til að bregðast við bráða keisaraskurðum.
Þessar aðstæður eru ekki upp komnar vegna stefnu stjórnvalda, heldur miklu fremur stefnuleysis. Samfellt fjársvelti hefur knúið heilbrigðisstofnanir til margháttaðra þjónustuskerðinga. Umgjörðin hefur veikst og ekkert komið í staðinn en kostnaður og óþægindi fjölskyldna stórlega aukist.
Ung kona sem búsett er á landsbyggðinni, t.d. á Patreksfirði, í Vestmannaeyjum eða í Neskaupstað sem þarf eftirlit á meðgöngu gengst undir mikið aukalegt álag.  Hún þarf að taka sig upp og flytjast að heiman, jafnvel nokkrum vikum fyrir fæðingu og dvelja fjarri heimabyggð.  Og það er ekki bara um að ræða hina fæðandi konu.  Hluti fjölskyldunnar er líka makinn og jafnvel annað ungt barn sem mikilvægt er að fái að taka þátt í þessum einstaka viðburði, þegar nýtt barn kemur í heiminn.  Þegar komið er á væntanlegan fæðingarstað, sem er í flestum tilvikum Reykjavík,  Akureyri eða Akranes tekur síðan ekki við neinn formlegur viðbúnaður og eins víst að dyr séu lokaðar þegar finna þarf fjölskyldunni samastað, að það fari fyrir þeim líkt og Jósep og Maríu forðum. Lítill fjárhagslegur stuðningur er í boði.
Um leið og krafa íbúanna er sú að góð mæðraþjónusta sé veitt í nærsamfélaginu, þá er líka nauðsynlegt að fjölskyldum sem þurfa að dvelja fjarri heimahögum í tengslum við fæðingu og aðra heilbrigðisþjónustu búi við sæmilega aðstöðu og verði gert það fjárhagslega kleift. Stjórnvöld þurfa að bregðast við og ný heilbrigðisstefna verður að taka mið af þessum þörfum.

Guðjón Brjánsson

 

Auglýsing

Gleðileg jól

Auglýsing

Fjárhagsáætlun afgreidd í bæjarstjórn

Samstæða Ísafjarðarbæjar, A og B hluti bæjarsjóðs, skilar 36 milljóna króna afgangi á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun sem hefur verið samþykkt í bæjarstjórn. Er það sambærileg afkoma og var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun þessa árs en umtalsvert lakara en 225 milljóna króna afgangur sem varð af rekstrinum árið 2016. Sé horft á rekstur A hluta, sem er sá hluti rekstursins sem er rekinn fyrir skattfé, skilar hann 46 milljóna króna tapi á næsta ári en jákvæð niðurstaða B hluta bæjarsjóðs, sem eru stofnanir eins og Ísafjarðarhöfn sem eru reknar fyrir eigin tekjur, hífir afkomuna upp.

Gert er ráð fyrir að útsvarsstofn hækki um 8% milli áranna 2017 og 2018. Útsvarsgreiðslur fyrir árið 2018 eru áætlaðar 2.064 milljónir kr. samanborið við 1.941 milljónir kr. í áætlun 2017.

Í áætlun 2017 var gert ráð fyrir að íbúum Ísafjarðarbæjar myndi fjölga um 1% og yrðu 3.650 í árslok 2017. Í byrjun desember hafði íbúum fjölgað um 2,9% frá árslokum 2016. Í fjárhagsáætlun 2018 er enn gert ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 1% á árinu 2018 frá deginum í dag og verði 3.751 í lok árs.

Auglýsing

2017 árgangurinn í háum klassa

Kári fisksali er ánægður með 2017 árganginn.

Það er vertíðarstemmning í fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði nú fyrir jólin og að vanda er hin rammvestfirska skata í burðarhlutverki í búðinni. Kári Þór Jóhannsson fiskali segir að skötuárgangurinn í ár sé fyrirtak. „Ég fékk mjög fallega skötu í kæsingu fyrir þessi jólin. Hún kemur eiginlega öll af línubátunum í Bolungarvík,“ segir Kári. Hann ætlar að bregða út af vananum og hafa opið á morgun laugardag. „Ég er nú ekki vanur að hafa opið á laugardögum en maður verður að hafa eitthvað opið á Þorláksmessu fyrir fólk sem er að renna í bæinn. Ég er bæði með skötu sem er tilbúin í pottinn og skötustöppu sem það vilja, en eldra fólkið er mjög hrifið af því að geta keypt stöppuna tilbúna,“ segir Kári.

Kæsing er gömul aðferð við verkun matvæla þar sem maturinn er látinn gerjast og byrja að rotna. Á meðal þeirra matvæla sem algengast er að kæsa hér á landi er hákarl og skata en einnig þekkist að kæsa egg og eitthvað af fuglakjöti er líka kæst.

Kæstur matur ber með sér sterka lykt sem stafar af niðurbroti efna í matnum. Mörgum finnst lyktin ógeðfelld. Skata, rétt eins og hákarl, er brjóskfiskur. Í holdi brjóskfiska er hár styrkur af þvagefni. Við kæsingu umbreytist þvagefnið í ammoníak sem öðru fremur valda bæði stækjulyktinni og bragðinu.

Auglýsing

Fjárlagafrumvarpið „svik við kjósendur“

Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son þingmaður, Logi Már Ein­ars­son formaður og Odd­ný Harðardótt­ir þing­flokks­formaður kynntu gagnrýni flokksins á fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í morgun. Mynd: mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Samfylkingin gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. í fréttatilkynningu þingflokks Samfylkingarinnar segir að fjárlagafrumvarpið beri vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi í velferðarmálum.  Einnig segir að langflestir hagsmunaaðilar sem komu á fund fjárlaganefndarinnar hafi lýst yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið og að hvorku sé ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né ráðist í nauðsynlega tekjuöflun. „Þegar þetta fjárlagafrumvarp er borið saman við fjárlagafrumvarp fyrri ríkisstjórnar sem Vinstri græn kölluðu „hægri sveltistefnu“ kemur í ljós að einungis er gerð 2% breyting á milli frumvarpa. Í meðförum fjárlaganefndar tók frumvarpið aðeins 0,2% breytingum og því er fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur eingöngu 2,2% frábrugðið fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar,“ segir ennfremur.

 

Helsta gagnrýni og breytingartillögur Samfylkingarinnar eru eftirfarandi:

 

  • Því miður er ekkert tekið á misskiptingunni í samfélaginu í gegnum skattkerfið. Núna eiga 5% af ríkustu landsmönnum jafnmikið af hreinum eignum og hin 95% landsmanna.
  • Engar viðbótarfjárveitingar eru settar í barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisstyrk, fæðingarorlof og húsnæðismál. Samfylkingin leggur til að 5 milljarðar verði settir í barna- og vaxtabótakerfið og 2 milljarðar verði settir í stofnframlög til almennrar íbúða
  • Sveltistefna gagnvart heilbrigðiskerfinu heldur áfram, en nú í boði Vinstri grænna. Allir forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sem komu á fund fjárlaganefndar lýstu yfir mikilli óánægju með fjárlagafrumvarpið. Enn vantar Landspítalann tæplega 3 milljarða einungis til að halda í horfinu og að óbreyttu mun þjónusta spítalans versna. Heilbrigðisstofnanir úti á landi fá minna en helming af því sem þær óskuðu eftir svo hægt væri að tryggja óbreytta starfsemi. Þá fá hjúkrunarheimili beinlínis lækkun á milli ára. Samfylkingin leggur því til að 3 milljarðar renni til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, 500 milljónir til heilbrigðisstofnanna og 400 milljónir til heilsugæslunnar.
  • Bæði landsamtök eldri borgara og öryrkja lýsa miklum vonbrigðum með frumvarpið. Samfylkingin leggur því til að í málefni aldraðra verði settur 1,5 milljarður aukalega og 3 milljarðar fari til öryrkja.
  • Framhaldsskólastigið býr enn við talsverða fjárhagserfiðleika og leggur Samfylkingin til að það fái tvöfalt meira en það sem ríkisstjórnin leggur til eða 400 milljónir króna.
  • Samfylkingin leggur til 50% hækkun á því nýja fjármagni sem ríkisstjórnin og fjárlaganefnd leggja til samgöngumála eða 1 milljarð kr.
  • Samfylkingin leggur til að einn milljarður fari í stórsókn gegn kynbundnu ofbeldi og fjölgun lögreglumanna en einungis einn fimmti þeirra fjárhæðar er að finna í fjárlagafrumvarpinu.
  • Stjórnarflokkunum verður gefið tækifæri til að afnema bókaskattinn og liggur tillaga þess efnis fyrir þinginu í boði Samfylkingarinnar.
Auglýsing

Fjárlagafrumvarpið lítið tilefni til bjartsýni

Fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er gagnrýnt harðlega af miðstjórn ASÍ.

Lestur fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar gefur lítið tilefni til bjartsýni og að óbreyttu mun bilið á milli ríkra og fátækra í samfélaginu enn fara vaxandi. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ. Aukin framlög til heilbrigðiskerfisins eru til bóta en í ályktuninni segir að þau duga með engu móti til að mæta þeirri miklu fjárþörf sem til staðar er. Greiðsluþátttaka sjúklinga er allt of mikil að mati ASÍ og „enn er gert ráð fyrir því að framlög til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu aukist umtalsvert meira en til opinberu þjónustunnar.“

ASÍ sakar ríkisstjórnin um viljaleysi til að auka jöfnuð og endurreisa réttindi launafólks. „Þetta birtist m.a. í veikingu á barna- og vaxtabótakerfinu og virðingaleysi fyrir afkomutryggingu launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. Gríðarlegur húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er ekki tekinn alvarlega og sá hluti menntakerfisins sem þjónar launafólki með litla formlega menntun er vanræktur. Þá sjást engin merki um að efna eigi loforð um efling verk- og starfsnáms,“ segir í ályktuninni.

Miðstjórn ASÍ kallar eftir þeim áherslum í fjárlögum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og samfélagslegan stöðugleika. ASÍ segir ljóst að þetta fjárlagafrumvarp dugar ekki til þess að leggja grunn að slíku samstarfi. Miðstjórn lýsir jafnframt vonbrigðum sínum með að ríkisstjórnin ætli ekki að hafa neitt frumkvæði að bættum lífskjörum og auknu afkomuöryggi félagsmanna ASÍ.

smari@bb.is

Auglýsing

Fá fjórðung tekjutapsins bættan

Sauðfjárbændur geta vænst þess að fá um fjórðung verðfalls afurðanna í haust bættan með sérstökum fjárframlögum ríkisins. Almennur stuðningur getur numið um 300 þúsund krónum á „meðalbú“. Þeir sem búa á afskekktari svæðum fá viðbót sem numið getur a.m.k. 500 þúsund kr. til viðbótar. 400 kinda bú fær því 300 til 800 þúsund kr. en áætla má að tekjutapið hafi numið yfir 1,4 milljónum. Áform um stuðning við sauðfjárbændur til að bregðast við markaðserfiðleikum koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2017 sem dreift hefur verið á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir 665 milljóna króna framlagi í þetta verkefni.

Stuðningnum verður beint í mismunandi farvegi. 300 milljónir fara í almennan stuðning og deilast út mið- að við fjölda kinda á viðkomandi býli. 200 milljónir fara til að auka svæð- isbundinn stuðning, á býli sem liggja fjarri þéttbýli og skilgreind eru í gildandi búvörusamningi. Því til viðbótar á að undirbyggja verkefni á sviði kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar. Þá á að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu og styðja við aukna hagræðingu.

Auglýsing

Nýjustu fréttir