Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 2109

Vegagerðin undirbýr framkvæmdir í Djúpinu

Vegurinn í Seyðisfirði er einbreiður á köflum.

Vegagerðin hefur hafið kynningarferli á framkvæmdum á Djúpvegi 61 í  Hestfirði, Seyðisfirði og í Álftafirði í Súðavíkurhreppi. Í framkvæmdinni felst endurbygging og nýbygging á um 7 km löngum vegkafla frá Leiti í Hestfirði að Eyri í Seyðisfirði og nýbygging á um 2,2 km löngum vegkafla á Djúpvegi um Hattardalsá í austanverðum Álftafirði með byggingu nýrrar brúar á Hattardalsá sem verður talsvert neðar en núverandi brú sem er einbreið.

Í kynningarskýrslu kemur fram að áætlað er að hefja vegagerð í Hest- og Seyðisfirði sumarið 2018, eða þegar öll tilskilin leyfi liggja fyrir. Verklok er áætluð haustið 2019. Kostnaður við framkvæmdina er um 600 milljónir. Í vegáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 150 milljónum kr. til verksins árið 2018 og 450 milljónum kr. árið 2019.

Ekki er vitað hvenær bygging nýs vegar og brúar á Hattardalsá mun fara fram en gert er ráð fyrir að það geti í fyrsta lagi orðið árið 2020. Heildarkostnaður við þá framkvæmd er áætlaður um 230 milljónir kr. Fjárveitingar samkvæmt langtímaáætlunum fyrir byggingu brúar á Hattardalsá eru áætlaðar á árunum 2019-2023.

Gula línan er núverandi veglína og brú en rauða línan sýnir nýjan veg og nýtt brúarstæði.

smari@bb.is

Auglýsing

Jólablaðið á leið í lúgurnar

Nú er feitt og fallegt jólablað Bæjarins besta á leið í lúgur heimila á norðanverðum Vestfjörðum, það tileinkað börnum enda eru jólin hátíð barnanna. Í blaðinu eru fullt af myndum af vestfirskum börnum, sögur þeirra, sjónarhorn og skoðanir. Þau eru frumleg, fordómalaus og klár. Vonandi hafa lesendur sömu ánægju af lestrinum eins og ritstjórinn hafði af tilbúningi þess.

Hér má nálgast rafræna útgáfu af blaðinu.

Nú leggst Bæjarins besta aftur í vetrarhýði en kemur aftur með hækkandi sól. Þangað til stendur vefurinn vaktina og segir ykkur fréttir af okkur.

Bryndis@bb.is

Auglýsing

Bæjarins besta 28. tbl. 34. árgangur

Auglýsing

Vetrarsólstöður í dag

Vetrarsólstöður verða klukkan 16:28 í dag 21. desember. Þá er stysti dagur ársins á norðurhveli jarðar. Sólin er þá syðst og lægst á himinhvolfinu, dagurinn stystur en nóttin lengst fyrir íbúa á norðurhveli. Á Ísafirði rís sólin kl. 12:09 en sest kl. 14:51 svo fullrar birtu nýtur í tæpar þrjár klukkustundir. Á morgun lengist dagurinn um 11 sekúndur en dagurinn lengist hraðar þegar á líður.

Eins og nafnið bendir til þá eiga vetrarsólstöður sér andsvar í sumarsólstöðum. Þessar hátíðir hafa reyndar notið minni virðingar í seinni tíð borgarmenningar þar sem tengslin við náttúruna hafa minnkað. En þeir sem lifa í tengslum við náttúruna eru mjög meðvitaðir um þessa póla á hringferli ársins. Við hér á Íslandi erum líka nákomin þeim þar sem þeir tákna hámark skammdegisins og hinn endalausa dag sumarsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Ferðalangar fylgist vel með veðurspám

Það verður suðvestanátt 10-15 m/s á Vestfjörðum í dag.  Hiti undir frostmarki og éljagangur en hlánar seint í kvöld, einkum á láglendi, og fer að rigna í nótt, fyrst á sunnanverðum Vestfjörðum.

Dýpkandi lægð við Hvarf ýtir til landsins hitaskilum sem ganga upp að suðurströnd landsins í kvöld. Í dag dregur því úr éljahryðjunum vestantil, en norðan og austanlands er hæglætis veður í dag. Í kvöld ganga skilin inn á sunnanvert landið með suðaustan hvassviðri og rigningu eða slyddu, en sjókomu til fjalla. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að líklega tekur snjóinn suðvestanlands upp, en þó þarf ekki að örvænta um rauð jól því á föstudag og á Þorláksmessu snjóar líklega í flestum landshlutum áður en vindur snýst til norðanáttar og það fer að snjóa norðan og austanlands en létta til sunnan jökla.

Ferðaveður á milli landshluta er nokkuð breytilegt næstu daga og því ærin ástæða til að fylgjast mjög vel með veðri, viðvörunum og ástandi vega.

smari@bb.is

Auglýsing

Langtímaáætlun verði gerð um veiðistjórnun

Umhverfisstofnun hyggst á næstunni hefja vinnu við gerð langtímaáætlunar líkt og í Svíþjóð með það að markmiði að koma á aukinni sátt hjá þeim sem nota og njóta náttúru á Íslandi.  Stofnunin telur einnig mikilvægt að gerð sé áætlun fyrir hverja veiðitegund sem stuðlar að sjálfbærum veiðum.

Í nóvember hélt Umhverfisstofnun fjölmenna og vel heppnaða ráðstefnu þar sem fjallað var um veiðistjórnun í sátt við samfélag og náttúru. Kynnt var stefnumótunarvinna við veiðistjórnun í Svíþjóð. Í fyrirlestri frá sérfræðingum Svía kom fram að til að geta notið náttúruauðlinda þarf að umgangast þær af skynsemi. Markmiðið hér á landi er af sama toga, að við Íslendingar og komandi kynslóðir fáum jöfn tækifæri til sjálfbærrar nýtingar. Gott samstarf mill þeirra sem vakta náttúruna, þeirra sem stýra veiðiálagi og notenda er lykilatriði. Til að samstarfið gangi sem best þarf að ná einhverri sameiginlegri sýn með samtali þessara aðila.

Sérfræðingar frá AEWA fjölluðu um stjórnunaráætlanir gæsa í Evrópu, þar sem sérstaklega er horft til heiðagæsa. Farið var yfir ástæður þess að farið var í gerð slíkra áætlana og með hvaða hætti staðið var að þeim. Heiðagæsastofninn sem fer um Noreg og Danmörku telur um 90.000 fugla. Í samvinnu við Holland og Belgíu hefur verið ákveðið að reyna að ná stofninum niður í 60.000 fugla. Sá stofn heiðagæsa sem fer um Ísland er talinn vera um 500.000 fuglar.

smari@bb.is

Auglýsing

Hægt að endurvinna álbikarana

Um þrjár millj­ón­ir spritt­kerta eru brennd­ar hér á landi ár­lega, en ál­bik­ar utan um þrjú spritt­kerti dug­ar til fram­leiðslu á einni drykkj­ar­dós úr áli. Hleypt hef­ur verið af stokk­un­um sér­stöku end­ur­vinnslu­átaki á ál­inu í spritt­kert­um.

Átakið mun standa út janú­ar­mánuð og komið hef­ur verið fyr­ir sér­stök­um end­ur­vinnslutunn­um fyr­ir ál­bik­ar­ana á 90 end­ur­vinnslu- og mót­töku­stöðvum um land allt, meðal annars hjá flöskumóttöku Fjölsmiðjunnar á Ísafirði. Fólk er beðið um að koma með álbikarana í sér pokum í flöskumóttökuna.

Að átak­inu standa Sorpa, End­ur­vinnsl­an, Gámaþjón­ust­an, Íslenska gáma­fé­lagið, Fura, Málm­steyp­an Hella og Plastiðjan Bjarg ásamt Sa­máli og Sam­tök­um iðnaðar­ins. Álbik­ar­arn­ir sem safn­ast í átak­inu fara ekki úr landi, held­ur fara þeir í fram­leiðslu hér á landi hjá Málm­steyp­unni Hellu.

smari@bb.is

Auglýsing

Breytingar á stofnstærð hefur áhrif á kynskipti

Í nýlegri grein sem starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, Ingibjörg G. Jónsdóttir, Guðrún G. Þórarinsdóttir og Jónas P. Jónasson, birtu í tímaritinu ICES Journal of Marine Science var fjallað um það hvort breytingar í stofnstærð hafi áhrif á það hvenær rækja skiptir um kyn. Þetta var skoðað í þremur rækjustofnum við Ísland; í Arnarfirði, í Húnaflóa og í Öxarfirði. Ástæðan fyrir því að þessir stofnar voru valdir var sú að fyrir norðan – í Húnaflóa og í Öxarfirði – voru rækjustofnarnir stórir fyrir síðustu aldamót, en þá minnkuðu þeir snögglega og hafa verið litlir alla tíð síðan. Hins vegar hefur stofnstærð rækju í Arnarfirði verið stöðugri í gegnum tíðina. Þessar snöggu breytingar í stofnstærð fyrir norðan höfðu það í för með sér að rækjan skiptir ári fyrr um kyn. Þar finnast nú færri árgangar karldýra og þar að auki hefur hámarksstærð hennar minnkað. Hins vegar skiptir rækja ekki fyrr um kyn í Arnarfirði. Því geta snöggar og miklar breytingar í stofnstærð leitt til þess að rækja skiptir fyrr um kyn. Þetta gæti meðal annars haft neikvæð áhrif á heildarfrjósemi rækjustofnsins, þar sem minni rækjur framleiða færri egg.

Rækja er tvíkynja. Hún byrjar lífsferilinn sem karldýr en nokkurra ára skiptir hún um kyn og er breytilegt á milli svæða á hvaða aldri hún skiptir um kyn. Ýmsar tilgátur eru uppi um hvað hefur áhrif á aldur við kynskipti, má þar nefna stærð hennar, þéttleikaháða þætti, svo sem stofnstærð, eða umhverfisþætti eins og hitastig.

smari@bb.is

Auglýsing

Alexander og Emilía vinsælustu nöfnin

Alexander var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja árið 2016 og þar á eftir Aron og Mikael. Emilía var vinsælasta stúlkunafnið en þar á eftir Emma og Elísabet. Þór var langvinsælast sem annað eiginnafn drengja og þar á eftir Máni og Hrafn. María var algengasta annað eiginnafn nýfæddra stúlkna og þar á eftir Ósk og Rós.

Þetta kemur fram í nýjum gögnum Hagstofunnar um mannanöfn og nafngjafir á Íslandi samkvæmt þjóðskrá 1. janúar 2017.

Algengara er að börn fæðist að sumri eða hausti en yfir vetrarmánuðina, frá október og fram í mars. Alls eru rúmlega helmingur (51,5%) allra afmælisdaga á tímabilinu frá apríl til september. Í upphafi árs 2017 áttu flestir afmæli þann 27. ágúst, alls 1.054 einstaklingar. Fæstir áttu afmæli á hlaupársdag (216), jóladag (689) og gamlársdag (741).

Guðrún og Jón eru enn algengustu einnöfnin

Í ársbyrjun 2017 voru 10 algengustu einnöfnin og fyrstu eiginnöfnin þau sömu og árið 2012. Jón var algengasta karlmannsnafnið, þá Sigurður og Guðmundur. Guðrún er algengasta kvenmannsnafnið, þá Anna og Kristín. Um 62% landsmanna bera fleiri en eitt nafn. Algengustu tvínefni karla voru Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin fimm árum áður. Algengustu tvínefni kvenna voru Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín.

Færri en áður heita Guðrún, Kristín, Sigurður, Gunnar og Ólafur

Um 200 algengustu nöfnin á Íslandi eru eiginnöfn um 80% landsmanna. Sömu 20 nöfnin hafa verið algengust á Íslandi síðastliðin 100 ár (sjá mynd 1 og 2). Hinsvegar má sjá að færri börnum sem fæddust á síðustu tíu árum eru gefin nöfnin Guðrún, Kristín, Sigurður, Gunnar og Ólafur. Sum nöfn hafa notið mikilla vinsælda árum saman, eins og Kristján, Anna, Katrín og Elísabet. Þetta mynstur hefur hins vegar breyst nokkuð og eru nöfnin Emma, Sara, Emilía, Alexander, Aron, Viktor og Mikael vinsæl hjá yngri börnum en eru sjaldgæf í eldri aldurshópum.

smari@bb.is

Auglýsing

Mirgorod, í leit að vatnssopa

Einar Þór Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður mun í janúar 2018 frumsýna nýja heimildarmynd „Mirgorod, í leit að vatnssopa“ bíó Paradís en gert er ráð fyrir að boðið verði upp á sýningu í Ísafjarðarbíó. Einar Þór er búsettur á Hvilft í Önundarfirði og starfar meðfram kvikmyndagerð við Menntaskólann á Ísafirði. Hann útskrifaðist frá London Film School árið 1992 með leikstjórn sem aðalfag og fór síðan í meistaranám í City University í London þaðan sem hann útskrifaðist í listrænni stjórnun og stefnumörkun árið 2001. Meðal verka Einars er Norð Vestur, heimildarmynd um snjóðflóðið á Flateyri 1995þ

Að sögn Einars er myndin einstök að því leiti að íslensk-úkraínsk heimildarmynd er nú framleidd og sýnd í fyrsta sinn hér á landi, en myndin skyggnist einnig inn í daglegt líf í landi sem fær að mestu umfjöllun vegna stríðs og pólitískra átaka.

Myndin hefur verið í framleiðslu sl. tvö ár með hléum en hún hlaut undirbúningsstyrk frá Utanríkisráðuneytinu og fékk þróunarstyrk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fyrr á þessu ári.  Gert er ráð fyrir að boðið verði upp á sýningu á Ísafirði þar sem leikstjórinn er búsetur að mestu í vetur.

Hér má lesa umsögn leikstjóra og hér er eldri stikla úr myndinni.

Söguþráður:

Í Úkraínu, um 300 km frá átakasvæðunum í austri, er smáborgin Mirgorod, fæðingarstaður skáldsins Nikolaj Gogols. Kvikmyndagerðarmenn heimsækja borgina til að kynnast frægu vatni sem kennt er við hana og hvers vegna hún var einn helsti heilsubær fyrrum Sovétríkjanna. Á ferð þeirra hitta þeir heimamenn sem draga fram bæði staðreyndir sögunnar og andrúmsloft aldanna í stríði og friði. Á meðal viðmælenda eru flóttamenn frá átaksvæðunum í Donetsk, listamaður og borgarstjórinn sem rekur gæði vatnsins í borginni sinni og hvaða þýðingu það hefur til að láta hlutina ganga. Áhorfendur rekast líka á hóp fólks undirbúa útihátíð og reka nefið inn í leikhús.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir