Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2111

Fjárlagafrumvarpið „svik við kjósendur“

Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son þingmaður, Logi Már Ein­ars­son formaður og Odd­ný Harðardótt­ir þing­flokks­formaður kynntu gagnrýni flokksins á fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í morgun. Mynd: mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Samfylkingin gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. í fréttatilkynningu þingflokks Samfylkingarinnar segir að fjárlagafrumvarpið beri vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi í velferðarmálum.  Einnig segir að langflestir hagsmunaaðilar sem komu á fund fjárlaganefndarinnar hafi lýst yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið og að hvorku sé ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né ráðist í nauðsynlega tekjuöflun. „Þegar þetta fjárlagafrumvarp er borið saman við fjárlagafrumvarp fyrri ríkisstjórnar sem Vinstri græn kölluðu „hægri sveltistefnu“ kemur í ljós að einungis er gerð 2% breyting á milli frumvarpa. Í meðförum fjárlaganefndar tók frumvarpið aðeins 0,2% breytingum og því er fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur eingöngu 2,2% frábrugðið fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar,“ segir ennfremur.

 

Helsta gagnrýni og breytingartillögur Samfylkingarinnar eru eftirfarandi:

 

  • Því miður er ekkert tekið á misskiptingunni í samfélaginu í gegnum skattkerfið. Núna eiga 5% af ríkustu landsmönnum jafnmikið af hreinum eignum og hin 95% landsmanna.
  • Engar viðbótarfjárveitingar eru settar í barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisstyrk, fæðingarorlof og húsnæðismál. Samfylkingin leggur til að 5 milljarðar verði settir í barna- og vaxtabótakerfið og 2 milljarðar verði settir í stofnframlög til almennrar íbúða
  • Sveltistefna gagnvart heilbrigðiskerfinu heldur áfram, en nú í boði Vinstri grænna. Allir forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sem komu á fund fjárlaganefndar lýstu yfir mikilli óánægju með fjárlagafrumvarpið. Enn vantar Landspítalann tæplega 3 milljarða einungis til að halda í horfinu og að óbreyttu mun þjónusta spítalans versna. Heilbrigðisstofnanir úti á landi fá minna en helming af því sem þær óskuðu eftir svo hægt væri að tryggja óbreytta starfsemi. Þá fá hjúkrunarheimili beinlínis lækkun á milli ára. Samfylkingin leggur því til að 3 milljarðar renni til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, 500 milljónir til heilbrigðisstofnanna og 400 milljónir til heilsugæslunnar.
  • Bæði landsamtök eldri borgara og öryrkja lýsa miklum vonbrigðum með frumvarpið. Samfylkingin leggur því til að í málefni aldraðra verði settur 1,5 milljarður aukalega og 3 milljarðar fari til öryrkja.
  • Framhaldsskólastigið býr enn við talsverða fjárhagserfiðleika og leggur Samfylkingin til að það fái tvöfalt meira en það sem ríkisstjórnin leggur til eða 400 milljónir króna.
  • Samfylkingin leggur til 50% hækkun á því nýja fjármagni sem ríkisstjórnin og fjárlaganefnd leggja til samgöngumála eða 1 milljarð kr.
  • Samfylkingin leggur til að einn milljarður fari í stórsókn gegn kynbundnu ofbeldi og fjölgun lögreglumanna en einungis einn fimmti þeirra fjárhæðar er að finna í fjárlagafrumvarpinu.
  • Stjórnarflokkunum verður gefið tækifæri til að afnema bókaskattinn og liggur tillaga þess efnis fyrir þinginu í boði Samfylkingarinnar.
Auglýsing

Fjárlagafrumvarpið lítið tilefni til bjartsýni

Fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er gagnrýnt harðlega af miðstjórn ASÍ.

Lestur fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar gefur lítið tilefni til bjartsýni og að óbreyttu mun bilið á milli ríkra og fátækra í samfélaginu enn fara vaxandi. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ. Aukin framlög til heilbrigðiskerfisins eru til bóta en í ályktuninni segir að þau duga með engu móti til að mæta þeirri miklu fjárþörf sem til staðar er. Greiðsluþátttaka sjúklinga er allt of mikil að mati ASÍ og „enn er gert ráð fyrir því að framlög til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu aukist umtalsvert meira en til opinberu þjónustunnar.“

ASÍ sakar ríkisstjórnin um viljaleysi til að auka jöfnuð og endurreisa réttindi launafólks. „Þetta birtist m.a. í veikingu á barna- og vaxtabótakerfinu og virðingaleysi fyrir afkomutryggingu launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. Gríðarlegur húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er ekki tekinn alvarlega og sá hluti menntakerfisins sem þjónar launafólki með litla formlega menntun er vanræktur. Þá sjást engin merki um að efna eigi loforð um efling verk- og starfsnáms,“ segir í ályktuninni.

Miðstjórn ASÍ kallar eftir þeim áherslum í fjárlögum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og samfélagslegan stöðugleika. ASÍ segir ljóst að þetta fjárlagafrumvarp dugar ekki til þess að leggja grunn að slíku samstarfi. Miðstjórn lýsir jafnframt vonbrigðum sínum með að ríkisstjórnin ætli ekki að hafa neitt frumkvæði að bættum lífskjörum og auknu afkomuöryggi félagsmanna ASÍ.

smari@bb.is

Auglýsing

Fá fjórðung tekjutapsins bættan

Sauðfjárbændur geta vænst þess að fá um fjórðung verðfalls afurðanna í haust bættan með sérstökum fjárframlögum ríkisins. Almennur stuðningur getur numið um 300 þúsund krónum á „meðalbú“. Þeir sem búa á afskekktari svæðum fá viðbót sem numið getur a.m.k. 500 þúsund kr. til viðbótar. 400 kinda bú fær því 300 til 800 þúsund kr. en áætla má að tekjutapið hafi numið yfir 1,4 milljónum. Áform um stuðning við sauðfjárbændur til að bregðast við markaðserfiðleikum koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2017 sem dreift hefur verið á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir 665 milljóna króna framlagi í þetta verkefni.

Stuðningnum verður beint í mismunandi farvegi. 300 milljónir fara í almennan stuðning og deilast út mið- að við fjölda kinda á viðkomandi býli. 200 milljónir fara til að auka svæð- isbundinn stuðning, á býli sem liggja fjarri þéttbýli og skilgreind eru í gildandi búvörusamningi. Því til viðbótar á að undirbyggja verkefni á sviði kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar. Þá á að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu og styðja við aukna hagræðingu.

Auglýsing

Hafa tilkynnt um úrsögn úr Byggðasamlaginu

Ísafjarðarbær hefur tilkynnt formanni Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs (BsVest) fólks um úrsögn bæjarins úr byggðasamlaginu. Þetta kemur fram í bréfi Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, til Andreu K. Jónsdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar og formanns BsVest. Í bréfinu er vísað í samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þar sem ákveðið var að bærinn segði sig úr samstarfinu en bæjarfulltrúar Í-listans og Framsóknarflokks stóðu að ákvörðuninni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðust gegn tillögunni í bæjarstjórn.

Í bréfi Gísla Halldórs kemur fram að Ísafjarðarbær hafi fullan vilja til áframhaldandi samstarfs með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum um þennan málaflokk eftir að úrsögn Ísafjarðarbæjar tekur gildi. Fram til þess tíma að úrsögn tekur gildi óskar Ísafjarðarbær eftir góðu samstarfi við sveitarfélög á Vestfjörðum um málefni fatlaðs fólks, jafnt á vettvangi BsVest sem annarsstaðar.

Auglýsing

Sveitarfélögin með útsvarið í botni

Þrátt fyr­ir góðæri hjá sveit­ar­fé­lög­un­um sem skil­ar sér í veru­leg­um tekju­af­gangi og skulda­lækk­un nýta þau mögu­leika sína til skatt­lagn­ing­ar næst­um því til fulls.

Aðalund­an­tekn­ing­in er fast­eigna­skatt­ur á íbúðar­hús­næði. Ef litið er til tólf fjöl­menn­ustu sveit­ar­fé­laga lands­ins sést að flest leggja þau á há­marks­út­svar á næsta ári, eða 14,52%, að því er fram kem­ur í frétta­skýr­ingu í Morg­un­blaðinu í dag.  Öll sveitarfélög á Vestfjörðum innheimta hámarksútsvar á næsta ári en til þessa hefur Súðavíkurhreppur innheimt 14,48% útsvar en það hækkar á næsta ári í 14,52%.

 

Auglýsing

Gul viðvörun á Vestfjörðum

Úrkomulítið í dag en snjókoma í kortunum.

Á morgun, Þorláksmessu og fram á aðfangadag, er í gildi gul viðvörun á Vestfjörðum. Veðurstofan spáir norðaustan stórhríð og slæmu skyggni og skafrenningi, einkum á fjallvegum og veðrið gæti leitt til samgöngutruflana.

Veðurstofan spáir suðvestan 8-13 m/s í dag og slydduéljum og rigningu. Snýst í norðaustanátt í nótt og kólnar.

Auglýsing

44 milljóna króna afgangur af rekstrinum

Tálknafjörður.

Samstæða Tálknafjarðarhrepps, A og B hluti sveitarsjóðs, skilar 44 milljóna kr. afgangi á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun sem var samþykkt fyrr í vikunni. Heildartekjur samstæðunnar nema 341 milljón kr. og afborganir langtímalána verða 24 milljónir kr. á næsta ári. Eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins er 47 prósent og skuldahlutfallið stendur í 68,4 prósentum. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að ráðast í fjárfestingar fyrir 17 milljónir kr. á næsta ári.

smari@bb.is

Auglýsing

Óvanalega mikill músagangur

Nú berast víða af landinu fréttir um óvanalega mikinn músagang í húsum og má vera að tíðarfar þetta árið spili þar eitthvað hlutverk og vill Matvælastofnun af gefnu tilefni ítreka að óheimilt er að beita aðferðum sem valda nagdýrunum óþarfa limlestingum og kvölum. Slíkt brjóti í bága við lög um velferð dýra. Ekki er heimilt að notast við drekkingargildrur og límgildrur við músaveiðar.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að felligildrur tryggi skjóta aflífun með sem minnstum sársauka fyrir dýrin. Slíkra gildra verði þó að vitja daglega.

Þá séu til svokölluð músahótel sem fangar mýs án þess að skaða þær. Í framhaldinu verði að aflífa mýsnar eða sleppa þeim. Það brjóti í bága við lög um velferð dýra að láta mýs svelta til dauða í gildru. Þá verði að tryggja að eitur valdi ekki tjóni á öðrum dýrum en meindýrum.

smari@bb.is

Auglýsing

Skipulag sem gerir ráð fyrir knattspyrnuhúsi

Knattspyrnulið karla í Vestra mætir liði Kára á laugardaginn.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt breytingu á aðalskipulagi bæjarins sem gerir ráð fyrir byggingu knattspyrnuhúss á Torfnesi. Ekki reyndist nóg að gera nýtt deiliskipulag samkvæmt tilmælum frá Skipulagsstofnun þar sem aðalskipulagið rúmaði ekki knattspyrnuhús. Aðalskipulagsbreytingin fer til samþykktar í bæjarstjórn.

Bygging knattspyrnuhúss er langþráður draumur íþróttahreyfingarinnar í Ísafjarðarbæ og nú virðast málin vera að þokast áfram með þessu fyrsta skrefi. Knattspyrnuhús hafa risið eins og gorkúlur um allt land og hafa náð að umbylta knattspyrnustarfi bæði hjá yngi og eldri iðkendum. Erlendir blaðamenn sem hafa hópast til Íslands í kjölfar einstaks árangurs karla- og kvennalandsliðanna hafa flestir bent á knattspyrnuhúsin sem dæmi sem aðrar þjóðir gætu lært af, sér í lagi þjóðir sem glíma við óblíða veðráttu.

smari@bb.is

Auglýsing

Gjafahugmyndasíðan Bello

Tinna Hrund Hlynsdóttir Ísfirðingur hefur hleypt af stokkunum vefsíðu þar sem nálgast má leiðbeiningar um gjafakaup, enda getur svo sannarlega vafist fyrir mörgum að finna réttu gjöfina. Tinna segir að bello.is sé hugmyndabanki fyrir alla sem vantar að finna góðar hugmyndir af gjöfum fyrir hvaða tilefni sem er.

Hugmyndina hefur Tinna haft í maganum lengi og alltaf haft sérstaklega gaman af því að finna fallegar gjafir, því „gjöf er ekki það sama og gjöf, sjáðu til“ segir Tinna.

Á bello.is eru gjafir bæði flokkaðar eftir tilefnum og verðflokkum og ætti að geta hjálpað mörgum sem glíma við hugmyndaleysi eða tímaleysi þegar kaupa þarf réttu gjöfina.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir