Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2105

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna komnar að fullu til framkvæmda

Öll börn með skráðan heimilistannlækni eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum samkvæmt samningi þar að lútandi. Gjaldfrjálsar tannlækningar barna hafa verið innleiddar í áföngum og lauk inneiðingunni 1. janúar sl. þegar börn yngri en þriggja ára öðluðust rétt samkvæmt samningnum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013. Til að byrja með tók hann til 15, 16 og 17 ára barna og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt skilgreindri áætlun þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þessa þjónustu, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum og nauðsynlegum tannlækningum hjá hlutaðeigandi börnum.

Auglýsing

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka í 520.000 krónur

Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið hækkað sem nemur 20.000 kr. á mánuði. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins en ný reglugerð varðandi þessar greiðslur tók gildi nú um áramótin.
Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, að um fyrsta skreið í áformum stjórnvalda um aukinn stuðning við barnafjölskyldur með hækkun orlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Til standi að endurskoða fæðingarorlofskerfið.

„Í þessu felst ekki einungis fjárhagslegur stuðningur, heldur einnig félagslegur þar sem markmiðið er að börn fái notið samvista með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífs síns. Eins er það mikilvægt jafnréttismál að feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs en á því hefur verið alvarlegur misbrestur síðustu ár, eða frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslurnar í kjölfar efnahagshrunsins.“

Breytingar á fjárhæðum samkvæmt reglugerðinni öðlast gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Hámarksgreiðsla hækkar úr 500.000 kr. í 520.000 kr.
Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 118.335 kr. í 123.897 kr.
Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.
Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 71.563 kr. í 74.926 kr.
Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.

Eldri fjárhæðir (greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 2017) gilda áfram vegna barna sem:
Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 – 31. desember 2017
Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 15. október 2016.

Auglýsing

Þorskstofninn í hæstu hæðum en loðnan veldur áhyggjum

Sigurður Guðjónsson

Þorskstofninn við Íslandstrendur er í sögulegu hámarki síðan haustmælingar hófust árið 1996. Þá er ýsustofninn einnig að jafna sig eftir margra ára lægð. Flestar stofnvísitölur botnfiska eru upp á við samkvæmt stofnmælingu Hafrannsóknastofnunnar síðastliðið haust.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Sjávarhiti hefur verið hár á Íslandsmiðum hin síðustu ár og ræður hærra hitastig miklu í breytingum á lífríkinu í hafinu umhverfis landið. Makrílinn hefur gengið inn í lögsögunna í ríkari mæli en áður hefur sést og loðnan er kominn lengst norður í höf.

Sigurður hefur áhyggjur af loðnustofninum en loðnan er mikilvæg fyrir aðra nytjastofna eins og þorskinn. „Stærð og viðkoma loðnustofnsins ræður miklu fyrir aðrar tegundir. Bæði ungloðna og fullorðin loðna er norðar og vestar en við höfum séð áður. Sem hefur orsakað erfiðleika að ná á henni góða mælingu í tíma. Almennt má segja að það er allt að færast norðar. Suðlægari tegundir eru að koma hingað og norðlægari tegundir enn norðar.“

Sigurður bindur vonir við að veiðar á þorski verði auknar á næstu árum í ljósi nýjustu mælinga sem sýna að stofninn er á réttri leið. Næsta stofnmæling verður í mars þegar farið verður í svokallað togararall.

Auglýsing

Beina sjónum að menningu á landsbyggðinni

Nú styttist í umsóknarfrest um Eyrarrósina góðu en tekið er við umsóknum til 15. janúar. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.

Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Byggðastofnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnunar tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.

Eyrarrósin hefur tvívegis komið í hlut vestfirskra menningarverkefna. Árið 2007 fékk Strandagaldur á Hólmavík verðlaunin og árið eftir var komið að Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðinni.

Auglýsing

Atvinnuleysið 1,7 prósent

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 198.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í nóvember 2017, sem jafngildir 80,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 194.700 starfandi og 3.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79,2% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 1,7%.
Samanburður mælinga fyrir nóvember 2016 og 2017 sýna að vinnuaflið hefur dregist saman um 1.000 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkað um 3,5 prósentustig. Fjöldi starfandi stendur nánast í stað en hlutfall þeirra af mannfjölda lækkaði þó um 2,9 prósentustig.
Atvinnulausir eru um 1.200 færri en á sama tíma árið 2016 og hlutfall þeirra lækkaði um 0,6 prósentustig. Alls voru 47.900 utan vinnumarkaður og fjölgaði þeim um 10.100 manns frá því í nóvember 2016 en þá voru þeir 37.800.

Auglýsing

Veiðigjöldin: „Þessi peningur er ekki til“

Oddi hf á Patresfirði er meðal þriggja vestfirskra fyrirtækja sem styrkja hjálparstarf í Úkraínu.

Áform ríkisstjórnarinnar að breyta veiðigjaldakerfinu eru nauðsyn að mati Skjaldar Pálmasonar, framkvæmdastjóra Odda hf. á Patreksfirði. Hann segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að fyrirtækjum blæði út um hver mánaðamót. Samkvæmt þeim hugmyndum sem bæði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafa viðrað er verið að skoða veiðgjöld á minni og meðalstórum útgerðum og einnig að færa gjöldin nær í tíma en í dag er verið að innheimta veiðigjöld miðað við afkomutölur útgerðarinn árið 2015.

Skjöldur blæs á þann málflutning sem hefur heyrst að útgerðin hefði átt að leggja til hliðar fyrir veiðigjöldunum árið 2015 þegar vel áraði í sjávarútvegi.
„Fyrir tveimur árum síðan sá ekki nokkur Íslendingur fyrir sér að krónan yrði eins sterk og hún er í dag. Menn mega ekki gleyma því að þessi styrking krónunnar hefur haft í för með sér um tutt- ugu til þrjátíu prósenta tekju- skerðingu hjá þeim fyrirtækjum sem flytja út fisk. Á sama tíma hefur innlendur kostnaður, svo sem laun og annað slíkt, hækkað um tuttugu prósent. Þær for- sendur sem voru til staðar árið 2015, þeim er alls ekki að heilsa í dag,“ segir Skjöldur.

Hann bendir á að þó að árið 2015 hafi verið sæmilegt rekstrarár hafi ekki verið mikill gróði hjá fyrirtækjunum. Fjárfestingarþörf fyrirtækja í bolfiskvinnslu var mikil á þessum tíma og er það enn í dag og Skjöldur segir að enn hafi menn ekki geta ráðið í nauðsynlega endurnýjun á tækjum, tólum og skipum.

Hann segir að fyrirtæki eins og Oddi standi ekki undir veiðigjöldunum í dag. „Eins og þetta er í dag þá fara um tólf til fjórtán prósent af aflaverðmætinu í veiðigjöld. Það er gríðarlega mikið þegar hagnaður þessara fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir er nánast enginn. Þessi peningur er bara ekki til, því miður,“ segir Skjöldur.

Auglýsing

Hafró skoðar mótvægisaðgerðir með fiskeldisfyrirtækjunum

Frá kvíum Hábrúnar.

Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, segir að stofnunin sé að skoða það með Landssambandi fiskeldisstöðva og Háafelli ehf. sem stendur utan samtakanna hvaða áhrif tilteknar mótvægisaðgerðir í sjókvíaeldi hafi. Rætt er við Ragnar í Morgunblaðinu í dag. Meðal þess sem er rætt er útsetning á stórum laxaseiðum. Rannsóknir hafa sýnt að stórseiði sem sleppa úr kvíum rati síður upp í ár en minni seiði. Þá virðist það draga mikið úr stroki úr laxeldiskvíum þegar öll seiðin eru yfir ákveð- inni stærð. Þá sé verið að skoða áhrif ljósastýringar til að auka vöxt fisks- ins án þess að flýta kynþroska.

Ragnar segir enn of snemmt að segja til um það hvort þær mótvægisaðgerðir sem rætt hefur verið um breyti forsendum áhættumats um bann við laxeldi í Ísafjarðardjúpi. „Við þurfum að vera öruggir með að erfðablöndun verði undir því 4% marki sem sett er. Ef hægt er að tryggja það við eldi í Ísafjarðardjúpi og annars staðar, þá er hægt að leyfa það,“ segir Ragnar í Morgunblaðinu.

Auglýsing

Meinlítil austanátt

Í dag er útlit fyrir meinlitla austanátt um mestallt land og bjart veður, en dálítil él austanlands. Lægðasvæði er djúpt suður af landinu og þegar svo er myndast oft vindstrengur syðst á landinu og í Öræfum. Þessi vindstrengur verður allhvass að styrk í dag, en það bætir í vind á morgun og þá verður um að ræða hvassviðri eða storm á þessum slóðum. Það er lauslega einu gömlu vindstigi minna en þarna var í gær þegar loka þurfti þjóðvegi 1.
Á föstudag lægir vind um allt land og eftir hádegið er útlit fyrir að froststilla verði enn eina ferðina uppi á teningnum. Hún stendur þó ekki lengi að þessu sinni því veður gæti orðið órólegt um helgina. Líkur eru á snjókomu um mestallt land á laugardag, en horfur eru á sunnan stormi með slyddu eða rigningu á sunnudag.

 

Á Vestfjörðum hálka eða snjóþekja. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar.

Auglýsing

Á von á einhug um breytingar á veiðigjöldum

Kristján Þór Júlíusson.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir of snemmt að segja til um það hver áhrif breytinga á veiðigjöldum verða þar sem frumvarpið liggi ekki fyrir. Innan ríkisstjórnarflokkanna er rætt um að breyta veiðigjaldakerfinu og tengja þau frekar afkomu útgerða. Líkur eru á að veiðigjöld smærri og meðalstórra útgerða lækki við þetta.
Sjávarútvegsráðherra sagði Speglinum í gær að einhug um þær áherslur um veiðigjöldin sem nefndar séu í stjórnarsáttmálanum. „Eðlilega þegar við förum að færast nær því með hvaða hætti við ætlum að útfæra þetta þá kunna að koma upp skiptar skoðanir og það er ekkert óeðlilegt með það. Ég hef enga trú á öðru en að við munum lenda þessu með farsælum hætti,“ sagði Kristján Þór.

Ætlunin er að láta veiðigjöldin standa, annars vegar, undir föstum kostnaði ríkisins af fiskveiðistjórnunarkerfinu og að ætla ríkinu einhvern hlut í þeirri arðseminni sem af greininni verður. „Við megum ekki gleyma því í umræðunni um gjaldtöku af sjávarútveginum, við Íslendingar, að við erum ein örfárra þjóða í veröldinni sem höfum þá stöðu að láta þessa grein greiða til ríkiskassans í stað þess að hún sé niðurgreidd eins og víðast hvar annars staðar,“ sagði Kristján Þór.

Að mati ráðherra þarf gjaldtakan að vera miklu nær í tíma en nú er. „Nú er verið að leggja gjöld á tekjur útgerðar fyrir 20 mánuðum rúmum sem er algjörlega óásættanlegt þegar tekið er tillit til sveiflna í afurðaverði og breytum sem útgerðin er verulega háð.“

Auglýsing

Meiri vöxtur í fasteignaviðskiptum á landsbyggðinni

Velta fasteignaviðskipta var að tiltölu þrefalt meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu árið 2017. Þjóðskrá hefur gefið út yfirlit yfir fasteignamarkaðinn árið 2017. Þar kemur fram að heildarviðskipti með fasteignir á landinu hafi numið tæplega 504 milljörðum króna árið 2017. Árið 2016 nam veltan 462 milljörðum og jókst um rúmlega níu prósent. Þetta er talsvert minni hækkun en milli áranna 2015 og 2016 þegar veltan jókst um tæp 25 prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu var veltan 370 milljarðar króna í fyrra, samanborið við 350 milljarða árið 2016 og jókst um sex prósent. Árið 2016 jókst veltan um rúmlega 23 prósent frá árinu á undan.

Utan höfuðborgarsvæðisins námu viðskipti með fasteignir 134 milljörðum króna, samkvæmt tölum Þjóðskrár, samanborið við 112 milljarða árið 2016. Aukningin nam því tæplega 20 prósentum milli ára. Þá fjölgaði þinglýstum kaupsamningum á landsbyggðinni árið 2017 á meðan þeim fækkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Auglýsing

Nýjustu fréttir