Þorskstofninn í hæstu hæðum en loðnan veldur áhyggjum

Sigurður Guðjónsson

Þorskstofninn við Íslandstrendur er í sögulegu hámarki síðan haustmælingar hófust árið 1996. Þá er ýsustofninn einnig að jafna sig eftir margra ára lægð. Flestar stofnvísitölur botnfiska eru upp á við samkvæmt stofnmælingu Hafrannsóknastofnunnar síðastliðið haust.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Sjávarhiti hefur verið hár á Íslandsmiðum hin síðustu ár og ræður hærra hitastig miklu í breytingum á lífríkinu í hafinu umhverfis landið. Makrílinn hefur gengið inn í lögsögunna í ríkari mæli en áður hefur sést og loðnan er kominn lengst norður í höf.

Sigurður hefur áhyggjur af loðnustofninum en loðnan er mikilvæg fyrir aðra nytjastofna eins og þorskinn. „Stærð og viðkoma loðnustofnsins ræður miklu fyrir aðrar tegundir. Bæði ungloðna og fullorðin loðna er norðar og vestar en við höfum séð áður. Sem hefur orsakað erfiðleika að ná á henni góða mælingu í tíma. Almennt má segja að það er allt að færast norðar. Suðlægari tegundir eru að koma hingað og norðlægari tegundir enn norðar.“

Sigurður bindur vonir við að veiðar á þorski verði auknar á næstu árum í ljósi nýjustu mælinga sem sýna að stofninn er á réttri leið. Næsta stofnmæling verður í mars þegar farið verður í svokallað togararall.

DEILA