Meiri vöxtur í fasteignaviðskiptum á landsbyggðinni

Velta fasteignaviðskipta var að tiltölu þrefalt meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu árið 2017. Þjóðskrá hefur gefið út yfirlit yfir fasteignamarkaðinn árið 2017. Þar kemur fram að heildarviðskipti með fasteignir á landinu hafi numið tæplega 504 milljörðum króna árið 2017. Árið 2016 nam veltan 462 milljörðum og jókst um rúmlega níu prósent. Þetta er talsvert minni hækkun en milli áranna 2015 og 2016 þegar veltan jókst um tæp 25 prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu var veltan 370 milljarðar króna í fyrra, samanborið við 350 milljarða árið 2016 og jókst um sex prósent. Árið 2016 jókst veltan um rúmlega 23 prósent frá árinu á undan.

Utan höfuðborgarsvæðisins námu viðskipti með fasteignir 134 milljörðum króna, samkvæmt tölum Þjóðskrár, samanborið við 112 milljarða árið 2016. Aukningin nam því tæplega 20 prósentum milli ára. Þá fjölgaði þinglýstum kaupsamningum á landsbyggðinni árið 2017 á meðan þeim fækkaði á höfuðborgarsvæðinu.

DEILA