Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2104

Neytendur varist svarta atvinnustarfsemi

Borið hefur á auglýsingum um svarta atvinnustarfsemi á vef- og samfélagsmiðlum.
Umhverfisstofnun biður neytendur að vera á varðbergi gagnvart slíku.
Ef þjónusta er sótt til snyrtistofu, til dæmis naglaásetning, er ekki unnt að tryggja að kröfur um aðbúnað, hreinlæti og sóttvarnir séu uppfylltar ef ekki hefur verið sótt um starfsleyfi.
Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, falla m.a. rakarastofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur og aðrar snyrtistofur s.s. naglaásetningarstofur, einnig stofur þar sem fram fer húðgötun, húðflúr og húðrof, undir ákvæði laganna.

Allur atvinnurekstur sem fellur undir starfsemi snyrtistofa skal hafa gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd. Er með öllu óheimilt að hefja starfsleyfisskyldan rekstur áður en starfsleyfi hefur verið gefið út.

Auglýsing

Gjaldtöku hætt í sumar

Hætt verður að innheimta veggjald í Hvalfjarðargöngum í lok sumars, að sögn stjórnarformanns Spalar. Það sé í takt við það sem samið var um áður en framkvæmdir hófust fyrir bráðum tuttugu árum.

Þann 11. júlí næstkomandi verða tuttugu ár liðin frá því Hvalfjarðargöng voru opnuð með pompi og pragt, þessi tæplega sex kílómetra löngu jarðgöng undir Hvalfjörðinn. Síðan þá hafa vegfarendur greitt veggjald en í dag er það þúsund krónur fyrir staka ferð á fólksbíl. Skömmu eftir tuttugu ára afmæli ganganna kemur loks að því að gjaldtöku verði hætt.

Þó gjaldtöku verði hætt þarf að sinna ýmiskonar þjónustu við göngin sem lúta að öryggismálum og viðhaldi. Ríkið yfirtekur þá þjónustu en starfsemi Spalar verður hætt, allavega í núverandi mynd. Forsvarsmenn Spalar hafa hinsvegar lýst yfir áhuga á að koma að tvöföldun Hvalfjarðarganga, það er nýjum göngum.

Auglýsing

Lyklaskipti í Funa

Formleg lyklaskipti fóru fram í gærmorgun þegar starfsmenn Kubbs ehf. afhentu starfsmönnum Gámaþjónustu Vestfjarða völdin yfir sorpmóttökustöðinni Funa á Ísafirði. Eins og fram hefur komið þá hefur á grundvelli útboðs verið samið við Gámaþjónustu Vestfjarða um sorphirðu og –förgun í Ísafjarðarbæ næstu árin. Í tilkynningu kemur fram að Ísafjarðarbær væntir farsæls samstarfs við Gámaþjónustuna og einnig er Kubbi er þakkað fyrir þjónustuna í gegnum árin.

 

 

Auglýsing

Viðkoma rjúpna var góð á Vestfjörðum

Aldursgreining vængja af rjúpum sem veiddar voru á liðnu hausti sýnir að viðkoma rjúpna var góð í fyrra á Norðausturlandi og á Vestfjörðum en lakari annars staðar.

Í byrjun þessa árs var Náttúrufræðistofnun Íslands búin að aldursgreina 2.487 rjúpnavængi og var búist við að stofnuninni myndu berast 500 til 1.000 vængir til viðbótar. Samkvæmt aldursgreiningunum vegnaði rjúpunni best á Norðausturlandi og voru þar 11,9 ungar á hvern kvenfugl í fyrra. Staðan var næstbest á Vestfjörðum þar sem voru 7,7 ungar á hvern kvenfugl.

Auglýsing

Segja Arnarlax uppfylla alla lögbundna staðla og reglur

Arnarlax á Bíldudal gerir athugasemdir við frétt sem birtist á Bylgjunni og Vísi í gær. Í fréttinni er rætt við starfsmann Náttúrustofu Vestfjarða og fram kemur sú skoðun að eftirliti með fiskeldi sé ábótavant. Í fréttinni er haft eftir Christian Gallo, vistfræðingi hjá Náttúrustofu Vestfjarða að eftirlit með fiskeldi virki ekki vel þegar fyrirtækin ákveði að fylgja ekki alþjóðlegum stöðlum.

„Þá eru ekki fyrir hendi nein ákveðin viðmið um hvað sé ásættanlegt ástand og hvað ekki,“ segir Christian og bætir við ekki virðast vera til reglur um hvað skuli gera þegar svæði koma illa út úr svokallaðri umhverfisvöktun og ekkert sem skyldar fyrirtæki til að hvíla svæði varðandi áframhaldandi fiskeldi komi það illa út úr athugun.

Í fréttatilkynningu Arnarlax segir að allt fiskeldi fyrirtækisins uppfylli alþjóðlegan staðal NS 9415:2007 ásamt því að hafa staðist burðarþolsmat, áhættumat, staðarúttekt og umhverfismat. „Það er ekki valkvætt og er bundið í lög,“ segir í fréttatilkynningunni og er bent á að Arnarlax uppfylli staðal Whole Foods Market sem er tekin út af óháðum aðila árlega. Staðallinn gerir meðal annars kröfur um að áhrif eldisins á umhverfið séu lágmörkuð.

Í frétt Vísis kemur einnig fram að Arnarlax hafi slitið samstarfi við Náttúrurustofu Vestfjarða. Í fréttatilkynningunni segir að Arnarlax hafi átt í góðu samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, þar á meðal keypt af þeim umhverfisvöktun. Á síðasta ári var samdi Arnarlax við norska fyrirtækið Akvaplan Niva um að sinna umhverfisvöktun en Náttúrustofan mun áfram sinna súrefnisvöktun fyrir félagið.

Auglýsing

Kuldakaflinn að kveðja

Það verður austan 8-15 m/s og bjartviðri á Vestfjörðum í dag, en dálítil él norðantil með kvöldinu. Lægir heldur á morgun, en suðaustan 10-15 og fer að snjóa annað kvöld. Frost 1 til 8 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að um helgina líti út fyrir að mesti kuldakaflinn sé liðinn hjá í bili og við tekur lægðagangur með hvössum suðlægum áttum, vætu og hlýindum.

Færð á vegum

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar

Auglýsing

Andri Rúnar valinn í landsliðið

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

Bolvíski framherjinn Andri Rúnar Bjarnason hefur bæst við landsliðshópinn sem mætir Indónesíu í vináttuleikjum dagana 11. og 14. janúar.

Andri Rúnar var allra framherja marksæknastu í Pepsi-deildinni í sumar þegar hann skoraði 19 mörk með liði Grindavíkur og jafnaði markamet í efstu deild. Eftir tímabilið samdi hann við Helsingborg í Svíþjóð sem leikur í B-deildinni.

Nú hefur Andri bæst við í hópinn sem fer til Indónesíu. Víða var kallað eftir því að hann yrði í hópnum eftir að hann hafði verið tilkynntur eftir því sem kemur fram í frétt fótbolta.net.

„Þetta er mikill heiður og eitthvað sem mig hefur dreymt um frá því ég var lítill,“ hefur fótbolti.net eftir Andra Rúnari um tíðindin.

Auglýsing

Biðin eftir Baldri lengist

Áætlað er að Breiðafjarðarferjan Baldur hefji siglingar um 20. janúar. Siglingar hafa legið niðri frá því 18. nóvember þegar bilun kom upp í aðalvél skipsins. Vélin var tekin úr ferjunni send á verkstæði í Garðabæ. Gunnlaugur Grettisson framkvæmdastjóri Sæferða, segir í samtali við RÚV að hluti vélarinnar hafi verið endurnýjaður og að samsetningu vélarinnar sé ekki lokið.

Stefnt er að því að senda vélina vestur í Stykkishólm á mánudag og þá tekur við um það bil 10 daga stillitími.

Auglýsing

Slátra upp úr síðustu kvíunum

Kristján G. Jóakimsson

Háa­fell ehf., dótt­ur­fé­lag Hraðfrysti­húss­ins – Gunn­var­ar hf. í Hnífsdal, er að slátra regn­bogasil­ungi upp úr síðustu sjókví sinni í Ísa­fjarðar­djúpi. Fyr­ir­tækið er til­búið með laxa­seiði til að setja út í vor en hef­ur ekki leyfi til þess. HG hefur verið með fisk í kívum i Djúpinu samfellt síðan 2002, fyrst þorsk og síðar regnbogasilung. Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri fiskeldis hjá HG, er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag.

„Staðan hjá okk­ur er sú að við erum að slátra upp úr sein­ustu regn­bogasil­ungskvínni og er áætlað að því verði lokið fljót­lega í fe­brú­ar. Sam­kvæmt áætl­un­um út frá lög­bundn­um af­greiðslu­tíma stofn­ana hefðum við átt að vera komn­ir út í sjókví­ar með lax en þar sem leyf­is­mál hafa dreg­ist úr hófi höf­um við ekki getað sett laxa­seiðin okk­ar frá Nauteyri út og þurf­um að selja útsæðið okk­ar í burtu,“ seg­ir Kristján í viðtalinu.

Auglýsing

Umferðin eykst hröðum skrefum

Í fyrra jókst umferð um tæplega 11% en hefur að jafnaði aukist um tæp 8% á ári frá 2012. Vegagerðin hefur birt yfirlit yfir umferð á árinu 2017, sem byggt er á umferðartölum frá sextán stöðum á landinu. Í fyrra jókst umferð um tæp 11%, og er það næstmest aukning frá því að þessi mælingaraðferð var tekin upp. Hún er þó nokkru minni en árið 2016 þegar umferð jókst um rúm 13%. Ef litið er til landssvæða þá jókst umferð mest um Suðurland, um tæp 16%, en minnst um Austurland, um tæp 9%. Af einstökum teljurum var umferðaraukningin mest um hringveginn á Mýrdalssandi, eða rúm 24%.

Í desember jókst umferð um rúm 9%, sem er nokkru minni aukning en árið 2016 þegar hún jókst um 21% frá fyrra ári. Athygli vekur að þótt umferð hafi aukist mest um Mýrdalssand í desember, eða um tæp 22%, var hún ekki nálægt því sem mældist árið 2016. Þá jókst umferð um 89% frá sama mánuði 2015.

Auglýsing

Nýjustu fréttir