Áform ríkisstjórnarinnar að breyta veiðigjaldakerfinu eru nauðsyn að mati Skjaldar Pálmasonar, framkvæmdastjóra Odda hf. á Patreksfirði. Hann segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að fyrirtækjum blæði út um hver mánaðamót. Samkvæmt þeim hugmyndum sem bæði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafa viðrað er verið að skoða veiðgjöld á minni og meðalstórum útgerðum og einnig að færa gjöldin nær í tíma en í dag er verið að innheimta veiðigjöld miðað við afkomutölur útgerðarinn árið 2015.
Skjöldur blæs á þann málflutning sem hefur heyrst að útgerðin hefði átt að leggja til hliðar fyrir veiðigjöldunum árið 2015 þegar vel áraði í sjávarútvegi.
„Fyrir tveimur árum síðan sá ekki nokkur Íslendingur fyrir sér að krónan yrði eins sterk og hún er í dag. Menn mega ekki gleyma því að þessi styrking krónunnar hefur haft í för með sér um tutt- ugu til þrjátíu prósenta tekju- skerðingu hjá þeim fyrirtækjum sem flytja út fisk. Á sama tíma hefur innlendur kostnaður, svo sem laun og annað slíkt, hækkað um tuttugu prósent. Þær for- sendur sem voru til staðar árið 2015, þeim er alls ekki að heilsa í dag,“ segir Skjöldur.
Hann bendir á að þó að árið 2015 hafi verið sæmilegt rekstrarár hafi ekki verið mikill gróði hjá fyrirtækjunum. Fjárfestingarþörf fyrirtækja í bolfiskvinnslu var mikil á þessum tíma og er það enn í dag og Skjöldur segir að enn hafi menn ekki geta ráðið í nauðsynlega endurnýjun á tækjum, tólum og skipum.
Hann segir að fyrirtæki eins og Oddi standi ekki undir veiðigjöldunum í dag. „Eins og þetta er í dag þá fara um tólf til fjórtán prósent af aflaverðmætinu í veiðigjöld. Það er gríðarlega mikið þegar hagnaður þessara fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir er nánast enginn. Þessi peningur er bara ekki til, því miður,“ segir Skjöldur.