Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2103

Aukið fjármagn í vetrarþjónustu

Mokstur á fjallvegum er í biðstöðu.

Fjármagn til vetrarþjónustu á vegum verður aukið um sjötíu og fimm milljónir króna á þessu ári. Samgönguráðherra segir þetta hafa fengist með endurskoðun á reglum um vetrarþjónustu

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kallaði eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um stöðuna, og hefur nú ákveðið að bregðast við henni. „Við erum að taka ákvörðun um að breyta reglum sem hafa ekki verið endurskoðaðar í nokkur misseri en þörfin er brýn. Við ætlum að bæta þjónustu, ekki síst á Suðurlandi en líka á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Við ætlum því að auka vetrarþjónustuna um allt land um tæpar 75 milljónir,“ segir Sigurður Ingi í frétt RÚV.

Sigurður Ingi segir að mesta aukningin verði á veginum fyrir austan Vík, þar sem umferðin hefur aukist mest þar. Meðal annarra vega nefnir Sigurður Ingi vegina um Dyrhólaey, Vatnskarðshóla og við Skógafoss, auk nokkurra vega í uppsveitum Suðurlands. Þá verður þjónusta einnig aukin á veginum milli Borgarness og Vegamóta á Snæfellsnesi, við Bíldudal, í Skutulsfirði, Eyjafirði og Svarfaðardal.

Auglýsing

Vöru­skipta­hall­inn tæp­ir 152 millj­arðar

Útskipun á Bíldudal.

Hall­inn á vöru­skipt­um Íslands við út­lönd nam 151,9 millj­örðum króna á fyrstu ell­efu mánuðum síðasta árs. Það þýðir að hall­inn er tæp­um 52 millj­örðum meiri en á sama tíma árið 2016.
Í nóv­em­ber voru flutt­ar út vör­ur fyr­ir 47,5 millj­arða króna og inn fyr­ir 56,2 millj­arða.. Vöru­viðskipt­in í nóv­em­ber, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhag­stæð um 8,7 millj­arða króna. Í nóv­em­ber 2016 voru vöru­viðskipt­in óhag­stæð um 11,6 millj­arða á gengi hvors árs.

Í janú­ar til nóv­em­ber 2017 voru flutt­ar út vör­ur fyr­ir 474,6 millj­arða króna en inn fyr­ir 626,4 millj­arða. Því var halli á vöru­viðskipt­um við út­lönd sem nam tæp­um 151,9 millj­örðum króna, reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma árið áður voru vöru­viðskipt­in óhag­stæð um 100,2 millj­arða á gengi hvors árs. Vöru­viðskipta­hall­inn í janú­ar til nóv­em­ber 2017 var því 51,7 millj­örðum króna hærri en á sama tíma árið áður, sam­kvæmt frétt Hag­stofu Íslands.

Auglýsing

Þrettándagleði í Edinborg

Þrettándagleði fjölskyldunnar verður haldin í Ediborgarhúsinu á Ísafirði á morgun milli klukkan 16 og 18 á laugardag og er í samstarfi Ísafjarðarbæjar, Kómedíuleikhússins, Edinborgarhússins og Nettó. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun; Álfasveitin leikur fyrir dansi og álfadrottning syngur, fulltrúar framtíðarinnar flytja álfa- og þrettándaljóð, hinn bústni og aldni Pottasleikir mætir á svæðið með bróður sínum Hurðaskelli auk þess sem foreldrar þeirra Grýla og Leppalúði hafa boðað komu sína.

Þrettándinn er 6. janúar og er stytting á þrettándi dagur jóla og er almennt kallaður síðasti dagur jóla.

Fram til ársins 1770 var þrettándinn helgur dagur og almennur frídagur. Fleiri frídagar voru teknir frá Íslendingum það ár  eins og þriðji í jólum, þriðji í páskum og þriðji í hvítasunnum. Danska kónginum þótti nefnilega Íslendingar hafa full mikið af frídögum.

Upphaflega var þrettándinn helgur dagur vegna þess að þá minntust menn fæðingar Krists. Þegar kristni varð að ríkistrú í Rómarveldi á fjórðu öld var ákveðið að minnast fæðingar Krists þann 25. desember í staðinn, en það hafði áður verið forn vetrarhátíð.

 

Auglýsing

Aflaverðmæti dregst saman

Aflaverðmæti íslenskra skipa var rúmlega ellefu milljarðar króna í september og var það 12,5% minna en í september árinu áður. Í tonnum talinn var aflinn 11% meiri en þá. Í tölum Hagstofunnar kemur fram að samdráttur varð í verðmæti botnfiskafla, uppsjávartegunda, flatfisks og skelfisks.

Á 12 mánaða tímabili, frá því í október 2016 til september 2017 var aflaverðmæti úr sjó rúmlega 109 milljarðar króna og var það hátt í 21% samdráttur miðað við sama tíma árinu fyrr. Á þessu tímabili var það einungis verðmæti loðnu sem jókst.

Auglýsing

Öld frá frostavetrinum mikla

Skip og báta inni frusu inni í fimbulkuldanum.

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá frostavetrinum mikla. Snemma árs 1918 brast á mesti kuldakafli í manna minnum hér á landi. Mikil harðindi voru þá um allt land og 30 stiga frost víða. Snögg umskipti urðu í veðrinu á Íslandi 5. janúar 1918. Það var góð tíð yfir jól og áramót, en svo gerði skyndilega norðanátt og hörkufrost. Á þrettándanum var víða komið 20 stiga frost og fór kólnandi.

 

Í blaðinu Vestra á Ísafirði segir frostið þar hafi mest orðið 30 stig þegar leið á janúar, en 36 stig inn til dala, Djúpið hafði lagt á örfáum dögum og var farið frá Hnífsdal til Ögurness á ís og sömuleiðis frá Æðey til Ögurs. Þó var alltaf auð rauf með Snæfellsströndinni. Neyðarástand var á Ísafirði og leitaði bærinn ásjár stjórnarráðsins.

Auglýsing

Þrjár úr Vestra í landsliðin

Sóldís Björt og Katla Vigdís.

Þrír leikmenn frá Vestra komust í lokahópana hjá U17 og U19 liðum kvenna sem spila á Evrópumótum í blaki núna í janúar. Þær Sóldís Björt Blöndal og Katla Vigdís Vernharðsdóttir voru valdar í U17 hópinn sem nú er staddur í Tékklandi. Þess má geta að bæði Sóldís og Katla eru frá Suðureyri.

Í U19 hópnum sem fer alla leið til Úkraínu í næstu viku er Auður Líf Benediktsdóttir fulltrúi Vestra.

 

Auglýsing

Selur skuldabréf fyrir 300 milljónir

Lækningavörufyrirtækið Kerecis seldi fyrir áramót skuldabréf með breytirétti fyrir 300 milljónir króna til hluthafa félagsins. Allir stærstu fjárfestar félagsins tóku þátt í kaupunum og var talsverð umframeftirspurn eftir skuldabréfinu. Hyggst félagið nýta fjármunina til þess að styrkja sölustarfsemi þess í Bandaríkjunum.

Kerecis rekur þrjár starfsstöðvar: framleiðslu á Ísafirði, læknisfræðilegar rannsóknir í Reykjavík ásamt skrifstofu á Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum þaðan sem sölu- og markaðsstarfi er stýrt. Í tilkynningu segir að félagið leggi um þessar mundir hvað ríkasta áherslu á sölustarf í Bandaríkjunum þar sem mestur vöxtur er, en yfir þrjátíu sölumenn selja vöru félagsins í söluneti sem nær til yfir tuttugu fylkja.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keracis, segir að söluvöxtur félagsins í Bandaríkjunum staðfesti að varan henti vel til meðhöndlunar á sykursýkissárum og sé keypt til að minnka líkur á aflimunum vegna sára. Hann nefnir jafnframt að meira en hundrað sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir kaupi nú vöru félagsins reglulega og að góður vöxtur sé í sölumálum félagsins.

Kerecis tekur þátt í lækningaráðstefnu fjárfestingabankans JP Morgan í San Francisco í næstu viku, í boði bankans. Á ráðstefnunni leiða athyglisverðustu lækningavörufyrirtæki í heiminum og fjárfestar saman hesta sína. Umrædd ráðstefna er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og er mjög sóst eftir því af hálfu nýsköpunarfyrirtækja að taka þátt í henni.

Auglýsing

Snjóar í kvöld

Úrkomulítið í dag en snjókoma í kortunum.

Smálægð er í myndun vestur af landinu sem í kvöld veldur allhvössum vindi á landinu af suðri og síðar vestri. Samfara lægðinni verður snjókoma á Vestfjörðum seint í kvöld.
Í nótt mun sums staðar þiðna við tímabundið, einkum við suðvestur- og suðurströndina, en kólna á ný á morgun þegar vind lægir og skilin fara austur af landinu. Á sunnudag hlýnar svo og gengur í suðaustan hvassviðri og jafnvel storm með rigningu. Áframhaldandi hlýinda er að vænta dagana þar á eftir.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Vestfjörðum. Ófært er yfir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði en þungfært norður í Árneshrepp.

Auglýsing

Árlegar vetrarfuglatalningar

Skarfar á skeri í Streingrímsfirði. Mynd: Nave.

Nú standa yfir vetrarfuglatalningar á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands í samvinnu við fuglaáhugamenn víða um land.

Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningar nýtast til vöktunar einstakra stofna. Náttúrustofa Vestfjarða hefur tekið þátt í þessum talningum. Nú er búið að telja við Steingrímsfjörð á Ströndum og voru taldir samtals 4.026 fuglar af 23 tegundum. Náttúrustofan hvetur talningamenn á Vestfjörðum að telja á „sínum“ svæðum.

Auglýsing

Helena ráðin framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri

Helena Jónsdóttir.

Stjórn félags um stofnun Lýðháskóla á Flateyri hefur ráðið Helenu Jónsdóttur sálfræðing sem framkvæmdastjóra Lýðháskólans á Flateyri. Helena hefur undanfarin þrjú ár starfað sem verkefnastjóri og ráðgjafi á vegum samtakanna Læknar án landamæra í Afganistan, Suður Súdan, Egyptalandi og Líbanon. Áður var hún m.a. meðeigandi og starfandi sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni, framkvæmdastjóri hjá Glitni og framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi. Helena hefur auk þess starfað sem ráðgjafi hjá Capacent og PriceWaterhouseCoopers og sinnt  rannsóknum og kennslu í sálfræði og markaðsfræði við Háskóla Íslands. Þá hefur hún unnið með ungu fólki í vanda á vegum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins.

Helena lauk BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og Cand.Psych. prófi frá sama skóla árið 2010. Hún varð löggiltur verðbréfamiðlari árið 2006.

Framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri undirbýr starfsemi skólans en sérstök fagráð hafa unnið að því að móta námsframboð skólans á þremur sviðum, sjálfbærni og umhverfismálum, kvikmyndavinnu og tónlistarsköpun. Framkvæmdastjóri mun vinna að skipulagi skólans og útfærslu og þróun námsframboðs auk þess að vinna verkefni fyrir Fræðslumiðstöð Vestfjarða um lýðháskóla almennt samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Starfsstöð framkvæmdastjóra er á Flateyri og mun Helena þegar hefja störf.

Runólfur Ágústsson stjórnarformaður félags um stofnun Lýðháskóla á Flateyri segir mikinn feng af ráðningu Helenu fyrir skólann og samfélagið: „Ráðning þessa öfluga framkvæmdastjóra fyrir skólann er fyrsta skrefið í þeirri mennta- og þekkingaruppbyggingu sem við sjáum fyrir okkur að starf lýðháskóla hafi í för með sér bæði á Flateyri og svæðinu öllu. Við erum bæði glöð og bjartsýn við þessi tímamót og hlökkum til þess að vinna með Helenu að því að þetta mikilvæga verkefni verði að veruleika“

Helena segir það ekki hafa verið á dagskrá að flytja heim þar sem aðkallandi verkefni á vegum Lækna án landamæra hafi átt hug hennar allan síðustu 3 ár. „Það hefur lengi verið draumur minn að búa á Flateyri og fá tækifæri til þess að koma að uppbyggingu á atvinnu og námsmöguleikum á svæðinu. Ég hef raunar verið eins og grár köttur á Flateyri síðustu 10 ár og þekki þar orðið hvern krók og kima. Það var því auðveld ákvörðun að slá öðrum verkefnum á frest og játast þessu gríðarlega spennandi verkefni. Flateyri er einstakur kostur fyrir svona skóla og þýðing hans verður mikil fyrir byggðarlagið og svæðið í heild. Að fá að leiða þetta verkefni og þann öfluga hóp af fólki sem að undirbúningi þess hefur staðið er mér sönn ánægja og mun ég leggja mitt af mörkum til að vegur þess verði sem mestur.”

Auglýsing

Nýjustu fréttir