Selur skuldabréf fyrir 300 milljónir

Lækningavörufyrirtækið Kerecis seldi fyrir áramót skuldabréf með breytirétti fyrir 300 milljónir króna til hluthafa félagsins. Allir stærstu fjárfestar félagsins tóku þátt í kaupunum og var talsverð umframeftirspurn eftir skuldabréfinu. Hyggst félagið nýta fjármunina til þess að styrkja sölustarfsemi þess í Bandaríkjunum.

Kerecis rekur þrjár starfsstöðvar: framleiðslu á Ísafirði, læknisfræðilegar rannsóknir í Reykjavík ásamt skrifstofu á Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum þaðan sem sölu- og markaðsstarfi er stýrt. Í tilkynningu segir að félagið leggi um þessar mundir hvað ríkasta áherslu á sölustarf í Bandaríkjunum þar sem mestur vöxtur er, en yfir þrjátíu sölumenn selja vöru félagsins í söluneti sem nær til yfir tuttugu fylkja.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keracis, segir að söluvöxtur félagsins í Bandaríkjunum staðfesti að varan henti vel til meðhöndlunar á sykursýkissárum og sé keypt til að minnka líkur á aflimunum vegna sára. Hann nefnir jafnframt að meira en hundrað sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir kaupi nú vöru félagsins reglulega og að góður vöxtur sé í sölumálum félagsins.

Kerecis tekur þátt í lækningaráðstefnu fjárfestingabankans JP Morgan í San Francisco í næstu viku, í boði bankans. Á ráðstefnunni leiða athyglisverðustu lækningavörufyrirtæki í heiminum og fjárfestar saman hesta sína. Umrædd ráðstefna er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og er mjög sóst eftir því af hálfu nýsköpunarfyrirtækja að taka þátt í henni.

DEILA