Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 1831

Vegagerðin: hefðum ekki greitt R leiðina

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni.

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir að það hafi legið fyrir að Vegagerðin hefði ekki greitt kostnað vegna R leiðarinnar hefði sveitarstjórnin ákveðið að fara þá leið. Vísar hann þá væntanlega í ákvæði 28. greinar vegalaga sem  takmarka skipulagsvald sveitarfélaga á þann veg að sveitarfélagi er óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér sem Vegagerðin leggur til.

Ef Vegagerðin fyrir hönd ríkisins vill ekki fara R leiðina getur sveitarstjórnin ekki skyldað Vegagerðina til þess að borga kostnað við aðalskipulagsbreytingar sem af því leiddi, hvað þá að borga kostnað við gerð umhverfismats og hönnunar mannvirkja.

Vegagerðin greiðir kostnað vegna aðalskipulagsbreytinga sem verða vegna leiðavals sem Vegagerðin leggur til og sveitarstjórnin fellst á. Að sögn Magnúsar greiddi Vegagerðin 6 milljónir króna til Reykhólahrepps á síðasta ári vegna þessa kostnaðar af Þ-H leiðinni. Þá eru komnir nýir reikningar  og ef sveitarstjórnin hefði hætt við Þ-H leiðina liggur nokkuð ljóst fyrir að Vegagerðin færi varla að borga fleiri reikninga af kostnaði við aðalskipulagsbreytingar sem sveitarstjórnin væri búin að hafna.

Magnús Valur Jóhannsson sagði að næsta skref væri að auglýsa aðalskipulagsbreytingarnar og að lokum, líklega 14 vikum, megi búast við því að Skipulagsstofnun hafi staðfest breytingarnar. Þá mun Vegagerðin sækja um framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leiðinni til sveitarstjórnar. Þegar sveitarstjórnin hefur veitt leyfið opnast fyrir kærur þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og komi þær fram fer málið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Þá er næsta að ná samningum við landeigendur og ef samningar nást ekki er hægt að óska eftir eignarnámi. Vonast Vegagerðin eftir því að hægt verði að bjóða verkið út fyrir lok ársins og að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Auglýsing

Íbúakosning: oddvitinn stóð einn

Þegar Árný Huld Haraldsdóttir, varaoddviti hafði lagt fram tillögu á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps fyrr í dag um að samþykkja þ-H leið brást Ingimar ingimarsson, oddviti við með því að leggja fram tillögu um að setja leiðavalið í íbúakosningu sem yrði eftir 3 mánuði.

Tillagan var svohljóðandi:

,,Undiritaður leggur til við sveitastjórn að haldin verði íbúakosning um legu Vestfjarðarvegar 60 í gegnum Reykhólahrepp. Íbúakosningin verði haldin laugardaginn 6. apríl 2019. Sveitarstjórn sér að öðru leiti um útfærslu íbúakosningarinnar.

Ljóst er að veglagning Vestfjarðarvegar 60 í gegnum Reykhólahrepp er að þeirri stærðargráðu að ærið tilefni er að íbúar koma að málinu og kjósi hvar vegurinn á að liggja um sveitina. Fátt er um annað rætt í samfélaginu og flestir hafa á því skoðun. Ekki var tekist á um þetta mál í sveitarstjórnarkosningum síðasta vor og hafa því að íbúar ekki sagt sína skoðun á málinu. Þess vegna tel ég eðlilegt að íbúar fái að koma að málinu og greiði atkvæði milli þeirra leiða sem sveitarstjórn setur niður.“

Tillagan var felld með þremur atkvæðum gegn einu. Karl Kristjánsson sat hjá. Þetta þýðir oddvitinn hafði engan stuðning fyrir tillögunni hjá öðrum hreppsnefndarmönnum.

Þegar þetta lá fyrir lagði Ingimar Ingimarsson fram bókun:

„Það eru mikil vonbrigði að sveitarstjórnarfólk Reykhólahrepps skulu ekki taka undir með tillögu um íbúakosningu. Íbúakosning er besti mælikvarðinn sem við höfum til að mæla hug íbúa í eins stóru máli eins og þessu. Það að hafna íbúalýðræði í svo stóru máli er mikið ábyrgðarmál.“

Í síðustu viku tók Ingimar Ingimarsson ekki vel í íbúakosningu á bb.is, sagði hana koma til greina en gerði að skilyrði að allir í sveitarstjórn myndu samþykkja slíka kosningu. Þá sagði hann einnig að það myndi taka 4 -5 mánuði að undirbúa slíka kosningu.

Auglýsing

Ingimar Ingimarsson: hótanir, kúgun, ofsi og ofbeldi

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps.

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps er þungorður í garð Vegagerðarinnar í bókun sem hann lagði fram á fundi sveitarstjórnarinnar eftir að ljóst var að hann hefði orðið undir og tillaga um Þ-H leið hafði verið samþykkt 3:2.

Ingimar ber ekki aðeins sakir á Vegagerðina heldur einnig nágrannasveitarfélög og Fjórðungsamband Vestfirðinga og sakar þau um ofbeldi og ofsa.

Bókun Ingimars:

„Undirritaður lýsir vonbrigðu sínum yfir leiðarvali meirihlutans. Ljóst er að hótanir, kúgun og áburður Vegagerðarinnar, nágrannasveitarfélaga og Fjórðungssambandssins hafa borið tilætlaðan árangur. Málið hefur setið botnfrosið í 17 ár og litlar líkur á að það breytist í bráð. Í ljósi sögunnar hlýtur öllum að vera ljóst að Teigskógarleið verður seint eða aldrei farinn. Loksins þegar sá fyrir endann á áratuga deilum, með leið sem sætti sjónarmið vegagerðar, samfélagsáhrifa og náttúrverndar, keyrir Vegagerðin, nágrannar okkar og Fjórðungssambandið, sem við erum enn hluti af, með ofbeldi og ofsa gagnvart okkur. Teigskógur skal það vera.

Við sem bjóðum okkur fram í sveitarstjórn höfum skyldur gagnvart sveitarfélaginu og við svörum eingöngu fyrir íbúum okkar þegar að ákvörðunartöku kemur. Það er því ábyrgðarhluti að veljast í sveitarstjórn, ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þá samfélagsábyrgð ber að taka alvarlega, líka þegar að okkur er vegið. Sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga í skipulagsmálum er óumdeildur, það eru því léttvæg rök að segja að við séum neydd til einhvers. Við erum ekki neydd til þess að lúta valdi Vegagerðarinnar, við erum kosinn af íbúum Reykhólahrepps til þess að fara með stjórn sveitarfélagsins og fara með skipulagsvaldið. Vegagerðin er ekki kosin af fólki til þess að fara með skipulagsvald, Vegagerðin fer ekki með skipulagsvald.

Þau umhverfisáhrif sem Teigskógarleiðin mun hafa eru gríðarleg og óafturkræf það dylst engum. Það eru því litlar líkur á því að sú leið verði nokkurntíman að veruleika. Þetta vita fulltrúar vegagerðarinnar, þetta veit ráðherra, samt skal haldið áfram og reynt. Nú á að gera Reykhólahrepp að tilraunastöð fyrir umhverfisofbeldi Vegagerðarinnar með stuðning Samgönguráðherra í þeim eina tilgangi að athuga hversu langt þeir komast. Leitt þykir mér að sveitarstjórnarfulltrúar Reykhólahrepps skuli ætla að vera tilraunadýr Vegagerðarinnar í þessu máli. Málatilbúnaður þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í landi Teigskóga hefur aldrei verið sterkari enda þeim verið gefið upp í hendurnar hálfrannsakaða leið sem þjónustustofnun ríkisins, Vegagerðin, hefur neitað að rannsaka, ásamt því að stylla sveitarstjórn upp við vegg með hótunum. Vegferð Þ-H leiðarfólks verður því flókin og erfið.

Sú vegferð sem við sveitarstjórnarfulltrúar höfum farið í gegnum hefur verið lærdómsrík, óbylgjörn og tímafrek. Ég vona að þetta verði til þess að sveitarstjórnarfólk sjái að oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir, ég minni þá á að okkur ber að taka ákvarðnir eftir yfirferð og innsæi ekki eftir þrýstingi frá utanaðkomandi fólki og stofnunum. „

Auglýsing

Sjóvörn í Kollsvík

Á fundi skipulags- og umhverifsráðs Vesturbyggðar í janúar var tekið fyrir erindi frá Vegagerðinni um 80 metra sjóvörn  í Kollsvík framan við fornminjar í landi Láganúps. Um 1100m3 af grjóti úr vegskeringu verður notað í vörnina. Verkefnið er unnið í samráði við Vesturbyggð, Minjastofnun og landeiganda.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar samþykki Minjastofnunar liggur fyrir.

Á vefsíðunni kollsvik.is er ítarleg frásögn um verin í Kollsvík. Þar segir að Kollsvíkurver er gömul verstöð; líklega frá landnámstíð. Í jarðarbók Árna Magnússonar frá 1703 segir að heimræði sé þar árið um kring og að þar hafi til forna verið 18 vermannabúðir.

Mynd af veri í Kollsvík sem er á vefnum kollsvik.is
Auglýsing

Reykhólar: Þ-H leið samþykkt

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í dag að halda áfram með aðalskipulagsbreytingar sveitarfélagsins sem gera ráð fyrir leið Þ-H um Teigsskóg. Þrír hreppsnefndrmenn voru samþykkir en tveir á móti. Það voru Árný Huld Haraldsdóttir, Embla Dögg B. Jóhannsdóttir og Jóhanna Ösp Einarsdóttir sem stóðu að samþykktinni gegn atkvæðum Ingimars Ingimarssonar, oddvita og Karls Kristjánssonar, formanns skipulagsnefndar. Áður hafði tillaga Karls Kristjánssonar um R leiðina verið felld og tillaga Ingimars um að fresta málinu og boða til íbúakosningu var einnig felld.  Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri staðfesti þetta í samtali við Bæjarins besta.

Uppfært kl 17:00. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri bendir á að R leiðin var ekki borin upp til atkvæða þar sem Þ-H leiðin var samþykkt.

Auglýsing

Ísafjörður: óeinangrað fjölnota knattspyrnuhús valið

Líkleg niðurstaða um staðsetningu.

Nefnd um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss leggur til við bæjarstjórn að  byggt verði óeinangrað hús að stærð 46m x 70m innan byggingareits fyrir fjölnotahús á Torfnesi, einnig að heimilað verði í útboði að gera frávikstilboð með einangruðu húsi.

Sigurður Jón Hreinsson vill að fært sé til bókar, að hann sé ekki sammála því að þessi staðsetning á húsinu sé sú heppilegasta fyrir nýtingu á húsinu og framtíðar nýtingu á svæðinu.

Þetta kom fram á fundi nefndarinnar í gær. Málið fer nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Auglýsing

Þorrablót átthagafélags Strandamanna

Frá þorrablóti Átthagafélags Strandamanna. Myndir: Átthagafélagið.

Þorrablóti Átthagafélags Strandamanna fór fram um síðustu helgi. Veislustjóri var Björk Jakobsdóttur veislustjóri. Gunnari Jóhannsson og Kristín Einarsdóttir í hveravík í Steingrímsfirði voru með  samspil með söng og fróðleik um dægurlagatexta og  hljómsveitin Upplyfting spilaði og lék fyrir dansi. Stjórnarmenn átthagafélagsins voru afar ánægðir með mætinguna á blótið og framlag veislustjóra og skemmtiatriðin. Þá var maturinn frá Múlakaffi mjög rómaður og meira en nóg fyrir alla. Þetta var með fjölmennari þorrablóum seinni ára. „Það er svo gaman alltaf að hitta og skemmta sér með öllum þessum Strandamamönnum á góðri stund“ segir á vef Átthafafélagsins.

Auglýsing

Ólík afgreiðsla sambærilegra mála

At­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið hef­ur ákveðið að fresta réttaráhrif­um ákvörðunar Fiski­stofu um að svipta tog­ar­ann Kleif­a­berg RE 70 veiðileyfi sínu í tólf vik­ur vegna brott­kasts, á meðan kæra Útgerðarfé­lags Reykja­vík­ur (ÚR) er til skoðunar.  Brottkastið var myndað og sýnt í Ríkissjónvarpinu. Þetta þýðir að meðan ráðuneytið er að afgreiða kæruna frá útgerðinni heldur skipið veiðileyfinu og því er hægt að gera það út eins og ekkert hafi í skorist.

Áður hefur það gerst að skip hafi verið svipt veiðileyfi vegna brottkasts. Í nóvember 2001 var Bjarmi frá Tálknafirði sviptur veiðileyfinu í átta vikur. Það gerðist í kjölfar þess að brottkast var myndað um borð í Bjarma og sýnt í Ríkissjónvarpinu. Þá eins og nú kærði útgerðin leyfissviptinguna til ráðuneytisins. Ráðuneytið frestaði ekki réttaráhrifum sviptingarinnar og skipið missti veiðileyfið. Síðan liðu margir mánuðir þar til rannsókn málsins fór fram og vitnaleiðslur. En skaðinn var tekin út strax.

Hver er niðurstaðan? Það er ekki sama hver hendir fiski á Íslandsmiðum?

Auglýsing

byggingarnefnd fyrir framtíðarskipulagningu íþróttamannvirkja á Ísafirði.

Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi.

Á fundi bæjarráðs í gær var samþykkt tillaga um sérstaka byggingarnefnd um skipulag íþróttamannvirkja. Það voru oddvitar meirihlutans Marzellíus Sveinbjörnsson og Daníel Jakobsson sem lögðu þetta til.

Verkefni nefndarinnar verður að láta grófhanna líkamsræktar- og sundlaugaraðstöðu við Íþróttahúsið á Torfnesi á grundvelli þarfagreiningar um líkamsræktarstöð sem nú liggur fyrir og í samráði við HSV og aðra hagsmunaaðila.
Í hópnum verða þrír aðilar skipaðir af bæjarstjórn. Að auki verði HSV boðið að skipa einn áheyrnarfulltrúa. Starfsmenn nefndarinnar yrðu sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og umhverfis- og eignasviðs eða fulltrúar af þeim sviðum eftir atvikum. Tillagan fer nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð:

Fyrir liggur að á fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 10 m.kr. í hönnun og skipulag á Torfnessvæðinu. Nú liggur fyrir að fjölnota íþróttahús verður byggt á gervigrasvelli og núverandi keppnisvöllur er við nýbyggða stúku. Vilji Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að koma upp í áföngum á næsta áratug líkamsræktaraðstöðu og sundlaug sem tengd er íþróttahúsinu á Torfnesi þannig að þar verði sannkölluð íþróttamiðstöð. Skoða þarf einnig aðra starfsemi í húsinu s.s. hvað varðar geymsluaðstöðu, eldhús og aðra þjónustu í húsinu. Horft verði til þess sérstaklega að hægt sé að áfangaskipta verkinu.

Marzellíus Sveinbjörnsson var inntur eftir því hvort þetta þýddi að meirihlutinn væri búinn að ákveða að gera sundlaug á Torfnesinu. Hann svaraði því til að svo væri ekki, en þeir vildu gera ráð fyrir henni í skipulaginu.

Auglýsing

Héraðsdómur Reykjavíkur: vísar frá kröfu um ógildingu laxeldisleyfa

Kristín Edwald, lögmaður.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með dómi síðastliðinn föstudag vísað frá kröfu um ógildu starfs- og rekstrarleyfa Arnarlax til laxeldis í sjó í Arnarfirði. Kærendur voru  fyrirtækin Akurholt og Geiteyri, sem eru veiðiréttarhafar í Haffjarðará. Þau voru ekki talin eiga lögvarða hagsmuni þar sem fyrirtækin eru  utan áhrifasvæðis fiskeldisins. Auk Arnarlax voru kærðir leyfisveitendurnir Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Kærendur voru dæmdir til þess að greiða allan lögmannskostnað Arnarlax og stofnananna.

– Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að kröfur veiðiréttarhafanna miðuðu að því að fá dóm sem legði bann við að laxeldi í sjókvíum væri stundað á Íslandi. Vísaði dómurinn til þess að löggjafinn og stjórnvöld hefðu um áratugaskeið tekið með í reikninginn áhrif fiskeldis á náttúrulega laxastofna í veiðiám á Íslandi, við ákvarðanatöku um hvort og á hvern hátt og í hversu miklum mæli fiskeldi skyldi heimilað, segir Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu, sem flutti málið fyrir hönd Arnarlax.

– Þessu til viðbótar kom fram í dóminum að óumdeilt væri að staðbundin umhverfisáhrif starfsemi Arnarlax næðu ekki til þess hafsvæðis þar sem Haffjarðará rynni til sjávar. Niðurstaða dómsins er því sú að veiðiréttarhafarnir hafi ekki orðið fyrir tjóni af starfsemi Arnarlax og að þeir hafi ekki sýnt fram á að starfsemin skapaði hagsmunum þeirra sérstaka hættu. Þeir hafi því ekki lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfur sínar, segir Kristín Edwald.
– Arnarlax hefur frá árinu 2009 farið í gegnum flóknar leyfisveitingar sem hafa m.a. farið í gegnum hefðbundið ferli hjá Skipulagsstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun þar sem sömu eða sambærilegir hagsmunaaðilar hafa komið á framfæri sínum sjónarmiðum og látið reyna á gildi leyfisveitinganna m.a. fyrir úrskurðarnefndum. Til viðbótar því að hafa þurft að greiða sinn eigin lögmannskostnað þurfa veiðiréttarhafarnir einnig að greiða lögmannskostnað Arnarlax, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, segir Kristín.

Veiðiréttarhafarnir hafa tvær vikur frá uppkvaðningu úrskurðarins til þess að kæra umrædda niðurstöðu til Landsréttar.

Þetta er annar dómurinn á stuttum tíma sem fjallar um ógildingu rekstrarleyfis. Þann 12. desember 2018 sýknaði Héraðsdómur Reykjaness Matvælastofnun og fyrirtækið Laxar fiskeldi ehf af kröfu N2 málsóknarfélags. Í því máli var kærandi talinn eiga aðild að málinu og krafan tekin til efnislegrar meðferðar. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði kröfunni í öllum atriðum, meðal annars þeim að eldið myndi valda verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxastofnum í öllum ám Austfjarða,  og sýknaði hina ákærðu í málinu.

Auglýsing

Nýjustu fréttir