Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ákveðið að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu um að svipta togarann Kleifaberg RE 70 veiðileyfi sínu í tólf vikur vegna brottkasts, á meðan kæra Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR) er til skoðunar. Brottkastið var myndað og sýnt í Ríkissjónvarpinu. Þetta þýðir að meðan ráðuneytið er að afgreiða kæruna frá útgerðinni heldur skipið veiðileyfinu og því er hægt að gera það út eins og ekkert hafi í skorist.
Áður hefur það gerst að skip hafi verið svipt veiðileyfi vegna brottkasts. Í nóvember 2001 var Bjarmi frá Tálknafirði sviptur veiðileyfinu í átta vikur. Það gerðist í kjölfar þess að brottkast var myndað um borð í Bjarma og sýnt í Ríkissjónvarpinu. Þá eins og nú kærði útgerðin leyfissviptinguna til ráðuneytisins. Ráðuneytið frestaði ekki réttaráhrifum sviptingarinnar og skipið missti veiðileyfið. Síðan liðu margir mánuðir þar til rannsókn málsins fór fram og vitnaleiðslur. En skaðinn var tekin út strax.
Hver er niðurstaðan? Það er ekki sama hver hendir fiski á Íslandsmiðum?