Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps er þungorður í garð Vegagerðarinnar í bókun sem hann lagði fram á fundi sveitarstjórnarinnar eftir að ljóst var að hann hefði orðið undir og tillaga um Þ-H leið hafði verið samþykkt 3:2.
Ingimar ber ekki aðeins sakir á Vegagerðina heldur einnig nágrannasveitarfélög og Fjórðungsamband Vestfirðinga og sakar þau um ofbeldi og ofsa.
Bókun Ingimars:
„Undirritaður lýsir vonbrigðu sínum yfir leiðarvali meirihlutans. Ljóst er að hótanir, kúgun og áburður Vegagerðarinnar, nágrannasveitarfélaga og Fjórðungssambandssins hafa borið tilætlaðan árangur. Málið hefur setið botnfrosið í 17 ár og litlar líkur á að það breytist í bráð. Í ljósi sögunnar hlýtur öllum að vera ljóst að Teigskógarleið verður seint eða aldrei farinn. Loksins þegar sá fyrir endann á áratuga deilum, með leið sem sætti sjónarmið vegagerðar, samfélagsáhrifa og náttúrverndar, keyrir Vegagerðin, nágrannar okkar og Fjórðungssambandið, sem við erum enn hluti af, með ofbeldi og ofsa gagnvart okkur. Teigskógur skal það vera.
Við sem bjóðum okkur fram í sveitarstjórn höfum skyldur gagnvart sveitarfélaginu og við svörum eingöngu fyrir íbúum okkar þegar að ákvörðunartöku kemur. Það er því ábyrgðarhluti að veljast í sveitarstjórn, ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þá samfélagsábyrgð ber að taka alvarlega, líka þegar að okkur er vegið. Sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga í skipulagsmálum er óumdeildur, það eru því léttvæg rök að segja að við séum neydd til einhvers. Við erum ekki neydd til þess að lúta valdi Vegagerðarinnar, við erum kosinn af íbúum Reykhólahrepps til þess að fara með stjórn sveitarfélagsins og fara með skipulagsvaldið. Vegagerðin er ekki kosin af fólki til þess að fara með skipulagsvald, Vegagerðin fer ekki með skipulagsvald.
Þau umhverfisáhrif sem Teigskógarleiðin mun hafa eru gríðarleg og óafturkræf það dylst engum. Það eru því litlar líkur á því að sú leið verði nokkurntíman að veruleika. Þetta vita fulltrúar vegagerðarinnar, þetta veit ráðherra, samt skal haldið áfram og reynt. Nú á að gera Reykhólahrepp að tilraunastöð fyrir umhverfisofbeldi Vegagerðarinnar með stuðning Samgönguráðherra í þeim eina tilgangi að athuga hversu langt þeir komast. Leitt þykir mér að sveitarstjórnarfulltrúar Reykhólahrepps skuli ætla að vera tilraunadýr Vegagerðarinnar í þessu máli. Málatilbúnaður þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í landi Teigskóga hefur aldrei verið sterkari enda þeim verið gefið upp í hendurnar hálfrannsakaða leið sem þjónustustofnun ríkisins, Vegagerðin, hefur neitað að rannsaka, ásamt því að stylla sveitarstjórn upp við vegg með hótunum. Vegferð Þ-H leiðarfólks verður því flókin og erfið.
Sú vegferð sem við sveitarstjórnarfulltrúar höfum farið í gegnum hefur verið lærdómsrík, óbylgjörn og tímafrek. Ég vona að þetta verði til þess að sveitarstjórnarfólk sjái að oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir, ég minni þá á að okkur ber að taka ákvarðnir eftir yfirferð og innsæi ekki eftir þrýstingi frá utanaðkomandi fólki og stofnunum. „