Arctic Sea Fram: Bráðabirgðaleyfið kært

Níu aðilar hafa kært útgáfu bráðabirgðarekstrarleyfis dags 5. nóv 2018 til Arctic Sea Farm. Leyfið var gefið út eftir að Alþingi samþykkti sérstök lög svo unnt yrði að starfrækja fiskeldið í Arnarfirði og Tálknafirði meðan að málarekstur færi fram fyrir dómstólum. Var þetta talið nauðsynlegt eftir að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi rekstrarleyfin úr gildi.  Í kærunni er bæði sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra og Arctic Sea Farm stefnt fyrir dómstóla og gerð sú krafa að rekstrarleyfið til bráðabirgða verði fellt úr gildi.

Þeir sem stefna eru:

Ari P. Wendel fyrirsvarsmaður samtakanna Laxinn lifi,

Árni Finnsson, formaður Náttúrurverndarsamtaka Íslands,

Óttar Yngvason, fyrirsvarsmaður Geiteyri ehf og Akurholt ehf, sem eru félög um veiðiréttindi í ám á Vesturlandi,

Guðmundur Halldór Jónsson, fyrirsvarsmaður Varplands ehf, sem á veiðiréttindi í Ísafjarðardjúpi,

Páll A. Jónsson, fyrirsvarsmaður veiðifélags Laxár á Ásum í Húnavatnssýslu,

Víðir Hólm Guðbjartsson, Grænuhlíð, Bíldudal vegna Hringsdals og

Atli Árdal Ólafsson, Selfossi vegna veiðiréttinda í Ísafjarðardjúpi.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur dómurinn samþykkt flýtimeðferð málsins. Gera kærendur viðmiklar athugasemdir við bæði form og efni málsins, þar með talið lagasetninguna. Telja kærendur meðal annars að handhafar forsetavalds hafi ekki staðfest lögin með réttum hætti og þau séu því andstæð 26. grein stjórnarskrárinnar og að auki gangi efni laganna gegn 2. grein stjórnarskrárinnar. þá hafi ráðherra verið vanhæfur til þess að skrifa undir bráðabirgðaleyfið og auk þess ekki gætt að því að standa rétt að því.

Fyrir liggur í málinu að ef leyfið verður fellt úr gildi beri opinberum stofnunum að láta loka fyrirtækjunum strax og lóga fiskinum í kvíunum. Málareksturinn snýst því í raun um starfsemi laxeldisfyrirtækjanna.

DEILA