Deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun – umsagnir

Runnin er út frestur sem gefinn var til þess að senda inn umsagnir eða gera athugasemdir við deiliskipulag vegna rannsókna sem tengjast Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Í deiliskipulagstillögunni er afmörkun tímabundinnar lóðar og byggingarreits fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði. Ennfremur afmörkun og umfang efnistökusvæða, vegir innan svæðisins og tenging við þjóðveg.

Umsagnirnar voru lagðar fram á síðasta fundi hreppsnefndar fyrr í janúar. Átta aðilar gera engar athugasemdir við deiliskipulagsbreytingarnar. Það eru Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Landsnet, Samgöngustofa, Veðurstofan, Orkustofnun, Vegagerðin, Strandabyggð og Ísafjarðarbær.

Tvær opinberar stofnanir til viðbótar skila inn umsögn og setja fram athugasemdir. Umhverfisstofnun segist hafa hafið undirbúning að friðlýsingu á Drangavíðernum í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið. Bendir stofnunin á að áhrifasvæði virkjunarinnar nái inn á jörðina Dranga, sem sé í friðlýsingarferli, og vill stofnunin að það komi fram í deilskipulagstillögunni.

Náttúrfræðistofnun Íslands sendi inn umsögn eftir að fresti lauk, en fékk samþykkta framlengingu á skilum. Telur stofnunin að ekki eigi að heimila rannsóknirnar á grundvelli rannsóknarleyfis heldur þá fyrst þegar virkjunarleyfi fyrir virkjunina liggi fyrir, ef virkjunin samrýmist þá ákvæðum um friðun svæðisins.  Náttúrufræðistofnun hefur lagt til við Umhverfisráðherra að Drangajökull og svæði út frá honum njóti verndar samkvæmt B hluta náttúruminjaskrár og telur Hvalárvirkjun ekki samýmast þeim áformum.

Þá skiluðu inn umsögn Landvernd ( 62 bls.), ÓFEIG náttúruverndarsamtök ( 22 bls.), landeigendur hlutja Seljaness ( 14 bls.), Rjúkandi og Tómas Guðbjartsson, Reykjavík og leggjast þessair aðilar gegn skipulagsbreytingunum.

DEILA