Ræktun stórþörunga til að mæta rammatilskipun ESB um vatn

Lisa Vidal ver lokaritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun.

Miðvikudaginn 15. maí kl. 9:00 mun Lisa Christine Vidal verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerðin ber titilinn Legislation meets science: Implementing a macroalgae farm to reach the requirements of the Water Framework Directive.  Vörnin fer fram í Háskólasetrinu og er opin almenningi.

Í rannsókninni fjallar Lisa um möguleika þararæktunar sem lið í því að uppfylla rammatilskipun ESB um vatn sem Ísland er aðili að. Umfram næringarefni og hættan á ofauðgun af mannavöldum í hafinu er ein helsta ógning sem stafar að vatnakerfum á landi og sjó á Íslandi. Í rannsókninni var kannað hvort ræktun stórþörunga geti gagnast við upptöku umfram næringarefna til að bæta vatnsgæði og þar með mæta kröfum vatnatilskipunarinnar. Meðal annars var gerð tilraun með að setja upp litla þararækt í Skutulsfirði í tengslum við rannsóknina. Nánari lýsingu má nálgast í útdrætti á ensku.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Peter Krost, sérfræðingur í sjávarlíffræði við Coastal Research and Management í Kiel í Þýskalandi og kennari í fisk- og sjávareldi við Háskólasetur Vestfjarða. Prófdómari er dr. Agnes Mols Mortensen, líffræðingur við Fiskaalning, rannsóknarmiðstöð Færeyja um sjávareldi.

DEILA