Ísofit málið: Ísafjarðarbær hefur ekki enn skilað inn gögnum eftir rúma 5 mánuði

Frá undirskrift samningsins milli Isofit og Ísafjarðarbæjar árið 2020 um styrk til reksturs líkamsræktarstöðvar.

Innviðaráðuneytið úrskurðaði 23. júní 2022 sem ólögmæta styrkveitingu Ísafjarðarbæjar til Ísofit ehf til reksturs líkamsræktarstöðvar en samið var um 400 þúsund króna mánaðarlegan styrk til þriggja ára. Þar var fyrirtækið Þrúðheimar ehf sem kærði samninginn til ráðuneytisins.

Ísafjarðarbær krafðist þess 27.7. 2022 að málið yrði tekið upp að nýju til úrskurðar og bar því við að sveitarfélagið hefði ekki fengið tilkynningu um kæruna og hefði því ekki haldið upp vörnum.

Ráðuneytið ákvað að bíða eftir rökstuðningi Ísafjarðarbæjar áður en því yrði svarað hvort málið yrði tekið upp að nýju. Nú fyrir áramót fékk Bæjarins besta þau svör frá ráðuneytinu að enn væri beðið eftir rökstuðningi Ísafjarðarbæjar. Eru liðnir rúmir 5 mánuðir síðan að sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og bæjarritari sendi inn erindið. 

Úrskurður ráðuneytisins var lagður fram í bæjarráði 4.7. 2022 og þar var bæjarstjóra „falið að afla frekari upplýsinga frá innviðaráðuneytinu um ástæður þess að Ísafjarðarbæ barst ekki kæra og umsagnarbeiðni í september 2021 og janúar 2022, auk þess sem bæjarstjóra er falið að vinna málið áfram.“

Ekki verður séð að málið hafi komið fyrir bæjarráð síðan en bæjarstjóri sagði í svari til Bæjarins besta 25.8. 2022 að sveitarfélaginu væri óheimilt að brjóta gegn eða rifta þeim samningi, einungis á grundvelli úrskurðar ráðuneytisins í máli Þrúðheima gegn Ísafjarðarbæ.

Ennfremur kom fram í svari bæjarstjóra að Ísafjarðarbær hafi átt samtal við forsvarsmenn Þrúðheima, sem kærðu málið til Innviðaráðuneytisins, eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp og væri lögð áhersla á að málið leysist farsællega.

DEILA