Lýðskólinn: skólinn settur og nemendagarðar rísa

Frá setningarathöfninni. Mynd: aðsend.

Nemendagarðar fyrir Lýðskólann á Flateyri eru að rísa og er búið að steypa upp 1. hæðina. Plata og veggir verða steypt saman í þessari viku og svo verður byrjað að reisa efri hæðina. Þak, gluggar og klæðning koma væntanlega í október og nóvember. Stefnt er að því að gera húsið fokhelt fyrir veturinn.

Skólinn var settur á laugardaginn. Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar skólans flutti ræðu við það tækifæri og bauð starfsmenn og nemendur velkomna. Runólfur rifjaði upp markmið skólans sem hann sagði að væri að skapa nýjan valkost í íslensku menntakerfi.

„Valkost sem væri utan þess hefðbundna, utan kerfis þar sem gildi náms og menntunar yrðu metin öðruvísi en almennt í skólum. Í stefnuskránni segir að Lýðskólinn á Flateyri sé samfélag nemenda og kennara sem býður fólki tækifæri til að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð skólans eru frelsi, þekking og þroski.“

jákvæð áhrif á samfélag og samferðamenn

Þá lagði Runólfur áherslu á að Lýðskólinn á Flateyri vildi hafa jákvæð áhrif á umhverfi, samferðamenn og samfélag nær og fjær.

„Okkur er umhugað um sjálfbærni, samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar og berum virðingu fyrir þörfum annarra um leið og við leyfum sjálfum okkur að njóta okkar. Það er á okkar ábyrgð að samfélagið sem við búum í blómstri. Í lýðskólanum stuðlum við að þróun einstaklingsins og samfélagsins með því að gefa bæði og þiggja.“

Nemendagarðarnir að rísa við Hafnarstrætið á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA