Staðreyndir um skólamál í Ísafjarðarbæ

Þann 23. nóvember birtist grein á vefmiðlinum bb.is þar sem m.a. var fjallað um skólamál og tel ég mikilvægt að koma nokkrum staðreyndum um málið á framfæri.

Aukin talmeinaþjónusta

Ísafjarðarbær gerði samning við sjálfstætt starfandi talmeinafræðing í haust og bættist hann við þá þjónustu sem fyrirtækið Trappa var og er að veita okkur. Þetta var einmitt gert til að stytta biðlista og erum við strax farin að sjá árangur af því. Ísafjarðarbær hefur því aukið þjónustuna við börn í sveitarfélaginu sem þurfa sérhæfða talmeinaþjónustu og ættu biðlistar að styttast enn frekar árið 2022.

Það er rétt að talmeinafræðingurinn kemur vestur einu sinni í mánuði á meðan Trappa sinnir fjarþjálfun nokkrum sinnum í viku. Þá daga sem talmeinafræðingurinn er ekki á staðnum er fagfólkið okkar í skólunum að sinna þjálfun barna, eftir ráðgjöf frá talmeinafræðingnum. Jafnframt fá foreldrar leiðsögn svo þeir geti þjálfað börnin sín heima, en þeir gegna mikilvægasta hlutverkinu í málþroska barna sinna. Það er því ekki svo að börn með málþroskaröskun eða framburðavanda fái aðeins þjálfun þegar talmeinafræðingurinn er á svæðinu, heldur er hún veitt oft í viku af öðru fagfólki og foreldrum.

Öll 12 mánaða börn fá leikskólapláss

Leikskólagjöld hér eru með þeim hærri á landinu. Aftur á móti hefur Ísafjarðarbær markað sér ákveðna sérstöðu þegar kemur að því að taka inn börn á leikskóla. Stefna sveitarfélagsins er að bjóða öllum 12 mánaða börnum pláss á leikskóla og hefur það tekist frá því að stefnan var sett. Jafnframt tökum við inn börn á leikskóla allt árið um kring á meðan flest önnur sveitarfélög taka aðeins inn börn á vorin og haustin. Af þessum ástæðum búa barnafjölskyldur í Ísafjarðarbæ við öryggi og fyrirsjáanleika þegar kemur að úthlutun leikskólaplássa.

Hærri framlög til fræðslumála

Framlög til fræðslumála í Ísafjarðarbæ hafa hækkað um 400 milljónir frá árinu 2017. Þarf að leita aftur til hrunáranna til að finna tímabil þar sem framlög til skólanna hafa verið skert á milli ára. Hvort við getum nýtt þessa fjármuni með betri hætti er hins vegar önnur spurning og eigum við ávallt að reyna að finna leiðir til þess. Hafi bæjarbúar Ísafjarðarbæjar hugmyndir varðandi þetta eða skólamál almennt er ávallt hægt að koma þeim á framfæri til mín á netfangið hafdisgu@isafjordur.is eða í gegnum postur@isafjordur.is.  

Hafdís Gunnarsdóttir

Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar

DEILA