Látrabjarg: stjórnunar- og verndaráætlun í kynningu

Látrabjarg. Forsíðumynd aðgerðaráætlunar.

Umhverfisstofnun hefur sett drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg í 6 vikna kynningarferli. Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021.

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára.
Áætlunin er unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, fulltrúum landeigenda og fulltrúa Vesturbyggðar. Eins er áætlunin unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hægt er að kynna sér drög að áætluninni og aðgerðaáætlun sem henni fylgir á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Aðgerðaáætlunin er forgangsröðun þeirra aðgerða sem brýnast er að fara í til að verndargildi Látrabjargs haldist. Aðgerðirnar miða jafnframt að því að viðhalda og bæta upplifun og öryggi gesta svæðisins segir í aðfararorðum Umhverfisstofnunar.

Uppbygging innviða er talið mikilvægast og þar eru vegir og bílastæði við Bjargtanga efst á blaði. Þá er þörf á setja upp upplýsinga- og fræðsluskilti. Gera þarf gönguleiðir og merkja svo og aðkoma upp varanlegu húsnæði fyrir landverði.

DEILA