Ísafjörður: bæjarstjóri vill ekki að bærinn eigi hlut í viðbyggingu hjúkrunarheimilisins Eyri

Hjúkrunarheimilið Eyri. Mynd: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Bæjarstjóri Ísafjarðabæjar, Arna Lára Jónsdóttir upplýsti í síðasta mánuði á verkkaupafundi með Framkvæmdasýslunni að hún teldi ekki forsvaranlegt að halda áfram hönnun nýbyggingar hjúkrunarheimilisins Eyri í óbreyttu fyrirkomulagi eignarhalds sem ráðgert er að verði þannig að ríkið greiði 85% og sveitarfélagið 15%.

Áætlað er að heildarstærð viðbyggingarinnar verði 689,3 m2 og verkframkvæmdir kosti 474 m.kr. með vsk. Í fundargerð segir að Arna Lára að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins sé erfið vegna reksturs hjúkrunarheimilisins. Hjúkrunarheimilið er rekin með miklum halla og ekki fæst aukalega fjármagn af hálfu ríkisins fyrir rekstur heimilisins.

Arna Lára var innt eftir því hvað hún ætti við með ummælum sínum. Í svari hennar segir að Ísafjarðarbær hafi farið fram á að það verði sama fyrirkomulag á eignarhaldi á Hjúkrunarheimilinu Eyri og á fyrirhugaðri nýrri viðbyggingu.

„Hjúkurnarheimilið Eyri er byggt eftir svokallaðri leiguleið en viðbyggingin er hugsuð sem sameiginlegt eignarhald af hálfu ríkis og sveitarfélaga (85/15) þar sem ríkið kemur með 85% og sveitarfélagið 15%.  Bent hefur verið á, að um verulega aukið flækjustig í rekstri fasteignarninnar ef mismunandi eignarform er um að ræða. Best fer á að einn aðili fari með eign, ábyrgð og rekstur á fasteigninni. Ég vil þó undirstrika þetta hefur engin áhrif á rekstur hjúkrunarheimilisins Eyri sem er í góðum höndum Heilbrigðsstofnunar Vestfjarða heldur snýst eingöngu um fasteignina sem slíka. Það hefur verið eindregin beiðni Ísafjarðarbæjar til Fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ríkið taki yfir eignarhald hússins enda eru hjúkrunarheimili verkefni ríkisins en ekki sveitarfélaga.“

Fram kemur í umræddri fundargerð að bæjarstjóri hafi átt samtal við fjármála- og efnahagsráðherra um að selja fasteignina. Þar segir: „henni var bent á leigufyrirkomulag um byggingu hjúkrunarheimilis. Formleg ákvörðun liggur ekki fyrir. GFS [Guðrún Fanney Sigurðardóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins] benti ALJ á að fá skriflegt leyfi fyrir sölunni hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.“


DEILA