Ísafjarðarbær: launakostnaður 873 m.kr. fyrstu þrjá mánuði ársins

Launakostnaður Ísafjarðarbæjar fyrstu þrjá mánuði ársins varð 873 m.kr. samkvæmt minnisblaði deildarstjóra launadeildar sem lagt var fram á síðasta fundi bæjarráðs. Er það 14 milljónum króna undir áætlun eða 1,6%.

Tveir málaflokkar skera sig úr og eru með langhæsta launakostnaðinn. Til fræðslumála var varið 420 m.kr. og til velferðarsviðs 166 m.kr. Liðlega tveir þriðju alls launakostnaðar fer í þessa tvo málaflokka.

Undir sameiginlegan kostnað eru færðar 74 m.kr. í launakostnað, æskulýðs- og íþróttamál taka 60m.kr. og hafnarsjóður 47m.kr.

Launakostnaður velferðarsviðs fyrstu þrjá mánuði er 9,2% lægri en áætlun gerði ráð fyrir og til fræðslumála fer 3,3% meira en áætlað var.

DEILA