Fjórðungsþing að vori var haldið á Ísafirði í gær

Jóhanna Ösp Einarsdóttir. Mynd: F.V.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hélt í gær fjórðungsþing að vori. Þingið fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og stóð aðeins dagspart. Þar komu saman kjörnir fulltrúar sveitarstjóra á Vestfjörðum. Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga og þeirra rekstrareininga sem það ber ábyrgð á. Auk þess fór fram afgreiðsla ársreiknings 2023  og samþykkt endurskoðuð fjárhagsáætlun.

Breyting var á skipan stjórnar Fjórðungssambandsins. Jóhann Birkir Helgason var kosinn aðalmaður í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga í stað Aðalsteins Egils Traustasonar sem lét af störfum. Dagný Finnbjörnsdóttir var kosinn varamaður í stjórn og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir var kosin varamaður í fjárhagsnefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga. Fyrir þinginu lá að kjósa kjörnefnd fyrir Fjórðungsþing að hausti en var því frestað vegna væntanlegra kosninga í nýju sveitarfélagi á suðursvæði Vestfjarða. Kosning verður kláruð á sumarþingi sem fer fram á netinu 19. júní.

Samþykkt var að halda 69. Fjórðungsþing að hausti á Laugarhóli í Bjarnarfirði dagana 18. og 19. október.

Rekstrartekjur Fjórðungssambands Vestfirðinga á síðasta ári voru 233 milljónir króna og rekstrarafgangur varð tæpar 5 m.kr. Eignir sambandsins voru um síðustu ármót 162 m.kr. og þar af eigið fé 37 m.kr.

Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fékk Fjórðungssambandið 50 m.kr. auk þess sem Jöfnunarsjóðurinn lagði til 12 m.kr. vegna sóknaráætlunar. Frá ríkissjóði í nafni sóknaráætlunar komu 119 m.kr. Þá komu 47 m.kr. frá ráðuneytum vegna verkefnaframlaga. Útgjaldamegin þá greiddi Fjórðungssambandið 47 m.kr. til aðkeyptra verktaka. Greiddir styrkir í sóknaráætlun voru 55 m.kr.

Formaður Fjórungssambandsins er Jóhanna Ösp Einarsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Reykhólahreppi.

DEILA