Vinna við samein­ingu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í fullum gangi

Frá Tálknafirði.

Daglega er unnið að samein­ing­unni bæði hjá starfs­fólki sveit­ar­fé­lag­anna og kjörnum full­trúum og er í mörg horn að líta. Mikið mun vinnast áður en til samein­ing­ar­innar kemur 19. maí nk. en ýmiss vinna mun bíða sameinaðs sveit­ar­fé­lags.

Nýjar samþykktir sameinaðs sveitarfélag voru samþykktar á síðasta fundi undirbúningsstjórnar þann 4. mars sl.  og hafa þær verið sendar til innviðaráðuneytisins til staðfestingar.

Með samþykktunum voru sendar reglur um íbúakosningu í heimastjórnir og samantekt yfir samþykktir, reglur og gjaldskrár sveitarfélaganna. Er nú beðið  eftir afgreiðslu ráðuneytisins en hún er forsenda þess að sveitarfélögin hafi heimild til að sameinast.

Eins og margir vita var óskað eftir tillögum og nafn á sameinað sveitarfélag frá íbúum. Fjölmargar tillögur bárust og var það niðurstaða undirbúningsstjórnar að senda tillögurnar til örnefnanefndar til umsagnar.

Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður kosið í heimastjórnir. Tveir fulltrúar íbúa eru kosnir á hverjum stað en það verða fjórar heimastjórnir. Á Patreksfirði, Arnarfirði, Tálknafirði og Barðaströnd og gamla Rauðasandshreppi.

Allir íbúar hvers svæðis eru í framboði og kýs hver íbúi einn einstakling á því svæði sem hann býr. Þeir tveir sem fá flest atkvæði á hverju svæði munu sitja í heimastjórn fyrir sitt svæði næstu tvö árin eða þar til kosið verður næst til sveitarstjórnar.

DEILA