Vesturbyggð: hafnasjóður kaupir Vatneyrarbúðina

Hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að hafnasjóður Vesturbyggðar kaupi fasteignina Vatneyrarbúð, Aðalstræti 1 á Patreksfirði, af bæjarsjóði Vesturbyggðar.
Stofnun Vatneyrarbúðar, þekkingarseturs, liggur fyrir í húsnæðinu þar sem megináherslan verður á Þekkingasetur fiskeldis. Skrifstofuaðastaða verður fyrir allt að 18 manns í húsnæðinu og verður aðstaðan leigð út til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Starfsemin innan húsnæðisins hefur mikla tengingu við aðra starfsemi á hafnarsvæðinu.

Í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar árið 2024 er gert ráð fyrir að hafnarsjóður kaupi Vatneyrarbúðina af sveitarfélaginu. 

Verðið sem miðað er við í fjárhagsáætluninni er bókfært verð eignarinnar sem er 78 milljónir samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Vesturbyggðar.

Vatneyrarbúð, sem byggð var 1916, var friðlýst af forsætisráðherra að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands 10. nóvember 2014. Friðlýsingin nær til ytra borðs hússins.

Húsafriðunarsjóður veitti á dögunum 2,5 m.kr. styrk til Vatneyrarbúðar.

DEILA