Vestri fær 4,8 m.kr. styrk til kaupa á hitalögnum

Gervigrasvöllurinn á Torfnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær að veita knattspyrnudeild Vestra 4,8 m.kr. styrk til kaupa á hitalögnum í nýja gervigrasvöllinn á Torfnesi. Talið er að það þurfi 30.000 m af hitalögnum fyrir völlinn og setur bæjarráðið það skilyrði að Vestri sjái um innkaupin, flutningskostnað, niðurlögn og annan kostnað sem af þessu hlýst.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignarsviðs, sem lagt var fyrir bæjarráð, kemur fram að kostnaður við niðurlögn á 30 km, með söndun og samsetningu. er áætlaður um 18.6 m.kr. og flutningskostnaður á efninu til landsins um 1 m.kr. Samtals er kostnaðurinn við kaupin og niðurlagningu lagnanna áætlaður 24,6 m.kr.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs seagði í samtali við Bæjarins besta að umrædd samþykkt væri gerð vegna eindreginnar óskar knattspyrnudeildar Vestra og að félagið hyggist sjá um að koma lögninni niður í púðann á gervigrasinu.

Bæjarráðið tekur fram að í styrkveitingunni nú felist ekkert loforð um fjárveitingu á uppsetningu á varmadælu eða til rekstrar kerfisins. Samkvæmt áðurnefndu minnisblaði er heildarkostnaður með stýringum, tengikistum, varmadælum og eða frostlegi á kerfið talinn geta verið um 50-55 m.kr.

Rökstuðningurinn fyrir þessu skrefi er sá að með því að leggja hitalagnirnar nú sé síðar hægt að ljúka verkinu, en ef það verði látið ógert nú verði ekki hægt síðar að leggja lagnirnar.

Gylfi segir að hitalagnirnar muni gera það að verkum púðinn sem gervigrasið hvílir á muni ekki frjósa en eftir sem áður þurfi að moka snjó af vellinum.

Í minnisblaði frá Bláma segir að áhugavert sé að skoða notkun á varmadælum og vannýttri varma- og fallorku sem nýtist við að lágmarka kostnað við hitun á gervigrasvellinum á Torfnesi. Mögulega
megi sækja stuðning við verkefnið í Orkusjóð, Fiskeldissjóð eða aðra sjóði sem styðja við varmaorkulausnir á köldum svæðum. Forsenda þess að hægt sé að nýta jarðhita, varmadælur eða aðrar lausnir sé að hitakerfi sé lagt undir gervigrasvöllinn.

DEILA