Torfnes: kostnaður orðinn 143 m.kr.

Gervigrasvöllurinn á Torfnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, sem lagt var fyrir bæjarráð í gær er kostnaður við gervigrasvellina á Torfnesi orðinn 143 m.kr. Heildarkostnaður samkvæmt tilboði er 256 m.kr. Fenginn styrkur frá KSÍ er 24 m.kr svo nettókostnaður Ísafjarðarbæjar verður 232 m.kr.

Mestur er kostnaðurinn orðinn við æfingavöllinn en samkvæmt minnisblaðinu er hann orðinn 67,7 m.kr. Í jarðvinnu við aðalvöllinn er komið 46,2 m.kr. og er verkstaðan 67% við þann þátt. Í jarðvinnu við æfingavöllinn hefur verið varið 10,7 m.kr. sem er 77% af því verki. Er það til viðbótar við 67,7 m.kr sem áður voru nefndar.

Tilboð vegna beggja vallanna hljóðar upp á 256 m.kr. Þar er gervigrasið langstærsti liðurinn 158,9 m.kr. auk 14,0 m.kr. við að fjarlægja eldra gervigras. Jarðvinna og lagnir á aðalvelli eru 68,5 m.kr.

Af kostnaði féllu til 128 m.kr. á síðasta ári og á þessu ári eru áætlaðar 104 m.kr. að frádregnum fengnum styrkjum KSÍ.

DEILA