OV : Hleðslugeta á Hólmavík þrefaldast

Vinnuflokkur Orkubúsins að setja upp stöðina. Mynd: Orkubú Vestfjarða.

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð á Hólmavík sem annar fjórum bílum til viðbótar við þær stöðvar sem fyrir eru.  Hvert tengi getur annað mest 240 kW.

Nýja stöðin, sem var opnuð í gær, verður í byrjun staðsett við Galdrasafnið þar til henni verður fundinn varanlegur staður á Hólmavík.

Til að mæta aukinni eftirspurn yfir páskana hafa jafnframt tímabundið verið settar upp tvær 180 kW hraðhleðslustöðvar á Ísafirði.

Rafbílaeigendur eru hvattir til að ná sér í e1 appið áður en lagt er upp í ferðina vestur, en e1 er samstarfsaðili Orkubúsins.

Síðustu ár hafa margir lagt leið sína vestur yfir páskana þar sem – Aldrei fór ég suður hátíðin – fer fram, nú í 20. sinn.  Þá má ekki gleyma hinni margrómuðu Skíðaviku sem nú fer fram við bestu aðstæður á 90 ára afmælisári Skíðafélags Ísafjarðar.  

Nýja hleðslustöðin er við Galdrasafnið. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA