Ofanflóðavarnir á Flateyri: 2,1 milljarður króna

Frá Flateyri.

Tilboð voru opnuð í síðustu viku í ofanflóðavarnir á Flateyri.

Í kjölfar snjóflóða sem urðu árið 2020 var ákveðið að styrkja núverandi varnir. Um er að ræða 27 keilur sem komið er fyrir á úthlaupssvæðum flóðanna úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft, 16 stk Innra-Bæjargilsmegin og 11 stk Skollahvilftarmegin. Þá verður þvergarðurinn endurbyggður og bætt við tveim leiðigörðum, annarsvegar leiðigarði við Sólbakka og hinsvegar leiðigarði á Hafnarsvæði. Jafnframt verður úthlaupssvæðið (flóðrásin) neðan Skollahvilftar dýpkað á kafla neðan til við núverandi garð.

Garðana skal byggja úr jarðefnum sem eru fengin innan framkvæmdasvæðisins og úr námu, sem staðsett er ca. 1,5 km vestan við byggðina á Flateyri. Flóðmegin verða keilurnar og garðarnir byggðir upp þannig að ofan á jöfnunarlag verður byggt upp jarðvegsstyrkingarkerfi, sem samanstendur af bröttum hliðum og styrktri fyllingu. Hliðar keilanna verða einnig byggðar upp með þessum hætti. Hlémegin á görðum verða hefðbundnir jarðvegsfláar.

Tvö tilboð bárust. Borgarverk ehf. bauð í verkið liðlega tvo milljarða króna eða nákvæmlega 2.123.156.196 kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæpa 2,8 milljarða króna. Suðurverk hf. bauð 2.348.222.243 kr eða liðlega 200 m.kr. meira.

Framkvæmdasýslan – ríkiseignir fer síðan yfir tilboðin.

DEILA